05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (4763)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Það eru aðeins tvö atriði í ræðu hv. þm. Barð. Hann fullyrti, að vélaeftirlitið hefði tekið hundruð króna, þar sem ekkert eftirlit hefði farið fram. Þá vil ég mælast til þess, að þessar upplýsingar séu látnar koma skriflega fram til ráðuneytisins, svo að það geti látið fara fram rannsókn, hvort þetta hafi þannig fram farið. Það mundi vera rétt að stefna þangað aðfinnslum sínum, ef eitthvað væri að. (GJ: Má ég skjóta fram í, af því að ég hef lokið mínum ræðum: Mundi ráðuneytið endurgreiða þessi gjöld, ef þetta reynist rétt?) Ég mundi láta fara fram rannsókn á málinu. Meira vil ég ekki segja á þessu stigi.

En út af því, að ég hafi ekki gert tilraun til að hrekja það, að rannsókn ætti að fara fram, eins og segir á þskj. 745, er það ekki rétt nema að vissu leyti. Það er gefið mál, að rannsókn getur farið fram á þeim grundvelli, en þar geta eins vel fleiri atriði komið til greina. Þess vegna tel ég óforsvaranlegt að slá þessu föstu að lítt athuguðu máli. Þó að hv. þm. Barð. sé mjög gegn maður, gæti ég hugsað mér, að einhverjir okkar hefðu eitthvað til málanna að leggja til viðbótar við það, sem hann hefur lagt til, og að útiloka það með till. eins og þessari finnst mér fjarstæða.