21.05.1947
Sameinað þing: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (4773)

237. mál, frystihús og fiskiðjuver í Flatey á Breiðafirði

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Ég held, að þetta mál sé svo einfalt, að ég þurfi ekki að tefja fundinn lengi með framsögu.

Eins og tekið er fram í nál. á þskj. 886, þá er það ætlun hreppsins að koma upp frystihúsi og fiskiðjuveri á Flatey, og er áætlað, að það fyrirtæki kosti um 600 þús. kr. Og eins og segir í grg. þáltill., þá hafa Flateyjarbúar allmiklar framkvæmdir með höndum, og er hreppurinn þar stærsti þátttakandinn, og verður hreppurinn að standa, að mig minnir, að hálfu á móti ríkissjóði með hafnargerðina. Þar eru einnig vegagerðir á ferðinni, og auk þess mun hann styrkja útgerðina, sem er undirstaðan undir atvinnu hreppsbúa. Þar hefur hreppurinn einnig lagt með hreppsbúum í dýra útgerð. En svo illa ,hefur nú tekizt til, að bátur, sem kom til hreppsins í fyrra, að mig minnir, varð að athafna sig í Stykkishólmi, vegna þess að ekki var aðstaða til þess að hagnýta aflann þarna á staðnum. Nú er vitanlegt, að þetta fyrirtæki á rétt til þess að fá lán úr stofnlánadeildinni, og ég hef orðið var við, að það þykir nokkuð einkennilegt að safna hlutum í þetta fyrirtæki, sem mundi kosta 600 þús. kr., fyrir 350 þús. kr. En það sýnir einmitt þann mikla áhuga og fórnarvilja einstaklinganna fyrir slíku fyrirtæki, sem á að verða til framdráttar fyrir byggðarlagið. Og ég vil þess vegna segja, að mjög er virðingarverður hugsunarháttur íbúanna og einnig hreppsins og kaupfélagsins, sem er stærsti þátttakandinn, sem hafa lofað og þegar greitt að verulegu leyti um 200 þús. kr., eða 1/3 af áætluðum stofnkostnaði.

Það er eðlilegt, að hreppurinn vilji vera nokkuð stór þátttakandi í þessu, og þess vegna hefur hann áformað að leggja fram 450 þús. kr. í þetta. Nú vitum við, að hann hefur lagt í mikinn kostnað við þátttöku í útgerð og líka við hafnargerð, sem er byrjuð, og þarf hann því að fá þetta fé að láni.

Nú er það víst, að þetta fyrirtæki mundi fá sitt fé úr stofnlánasjóðnum, ef hreppurinn væri þar ekki með sem hluthafi. En það er frá sjónarmiði hreppsbúa heilbrigt og rétt, að hreppurinn hafi þar hlutdeild í sjálfur. Og það er þá alveg á valdi stjórnar stofnlánasjóðsins að lána þeim mun lægri hundraðshluta af því, sem fyrirtækið kostar, sem fjárframlagið frá hreppnum er hærra.

Nú vitum við, að ríkið ber ábyrgð á stofnlánum, og þess vegna get ég ekki séð og heldur ekki meðnm. mínir, að það sé að neinu leyti kostnaður fyrir ríkissjóð, þó að þessi ábyrgð sé veitt, því að það mun verða þeim mun minna lán, sem leggja þarf fram úr stofnlánadeildinni.

N. hefur óskað eftir, að gerð verði lítils háttar orðabreyting á þáltill. og er hún á þskj. 886, og óskar n. eftir, að málið verði samþ. með þeirri breytingu.