08.05.1947
Sameinað þing: 51. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (4777)

236. mál, sala á vélskipi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. og ég höfum leyft okkur að bera fram þessa þáltill., sem prentuð er á þskj. 705. En hv. 1. flm. er fjarverandi sökum lasleika, og ég ætla að mæla örfá orð fyrir þessari þáltill., en þar sem fundartími er mjög takmarkaður, skal ég stilla máli mínu í hóf.

Á s.l. ári var stofnað hlutafélag til fiskveiða í Hornafirði, og keypti það einn af sænsku bátunum, sem þaðan voru fengnir að tilhlutun hæstv. ríkisstj. Bátur þessi fórst með sviplegum hætti s.l. haust, eins og kunnugt er, og varð þá félagið fyrir svo miklum skakkaföllum bæði fjárhagslega og eins þannig, að sú viðleitni, sem þarna var verið að vinna að til þess að byggja upp atvinnulíf staðarins, beið mjög mikinn hnekki.

Nú er um það að ræða, hvort félagið á að halda áfram atvinnurekstri sínum eða ekki. En til þess að svo megi verða, þá þarf það á einhverri aðstoð að halda. Og höfum við leyft okkur að bera hér fram þáltill. á þskj. 705 um það, að ríkisstj. er falið að láta félaginu í té einn bát án þess að heimta tilskilið fjárframlag, fyrr en séð er, hvernig næsta vertíð verður.

Ég vísa svo að öðru leyti til grg., sem fylgir þessari þáltill.

Ég vil vænta þess, að þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn. til fyrirgreiðslu.