23.05.1947
Sameinað þing: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (4787)

262. mál, Laxárvirkjun

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. — Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 944, er flutt af fjvn. samkvæmt beiðni atvmrh. Hún felur í sér, að Alþ. heimilar ríkisstj. að kaupa vélar og efni til viðbótarvirkjunar Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og byggingar háspennulínu til Akureyrar, og enn fremur er ríkisstj. heimilað að taka nú þegar allt að þriggja millj. kr. lán til þessara framkvæmda. Þessar þrjár millj. eru að vísu lítill hluti alls þess kostnaðar, sem hér verður um að ræða, en það er nauðsynlegt að hafa þessa upphæð handbæra strax, svo að ekki verði dráttur á útvegun efnis. Þá felur þessi till. einnig í sér, að lagt sé fyrir ríkisstj., að hún leggi það mál fyrir næsta þing, hvort ríkið eða Akureyrarbær skuli eiga og reka þessa virkjun í framtíðinni.

Eins og kunnugt er, á Akureyrarbær orkuver við Laxá, og þó að það sé allmikið orkuver, er öll orka frá því fullnýtt nú þegar, og Akureyri þarfnast meiri orku og hefur sótt um það til ríkisstj. samkvæmt raforkul., sem samþykkt voru í fyrra, að stækka þetta orkuver. Í því skyni hefur Akureyrarbær fengið Rafmagnseftirlit ríkisins til að gera áætlanir og undirbúning. Enn fremur hefur einnig verið gerð áætlun um virkjun Laxár á öðrum stað eða neðar, og við samanburð á þessum áætlunum er talið, að fullt svo hagkvæmt muni verða að byggja aðra aflstöð á þessum nýja stað. Vegna þess að umr. hafa farið fram milli fulltrúa ríkisstj. og Akureyrarbæjar um það, hvernig og hvar skuli framkvæma virkjunina og hver skuli eiga hana, hefur enn eigi fengizt niðurstaða í því efni um viðbótarvirkjunina, og má búast við, að það dragist enn um sinn að fá úr því skorið, hver verður aðili að þessari virkjun. En til þess að þessi óvissa seinki ekki eða tefji fyrir framkvæmdum, hefur það orðið samkomulag milli bæjarstjórnar Akureyrar og ráðh. að fara fram á þessa heimild af hálfu Alþ., til þess að unnt sé að hefja nauðsynlegar byrjunarráðstafanir, sem ekki má draga að gera vegna þess, hve langan tíma það tekur að fá efni og vélar afgreitt frá útlöndum.

Auk þess sem Akureyri þarf meira rafmagn, hefur verið ákveðið að leggja háspennulínu til Húsavíkur (og ég held, að það sé búið að leggja hana), og í sumar á að leggja háspennulínu frá Akureyri til Dalvíkur. Þegar þessar nýju línur koma til viðbótar, verður því gersamlega ófullnægjandi. rafmagn, nema aukið verði við virkjunina, og það er augljóst, að þær ráðstafanir mega ekki dragast, og ég vil vænta þess, af því að ég geri ráð fyrir, að þm. sé ljós nauðsyn þessa máls, og ríkisstj. stendur að flutningi þessarar till. (eða raforkumálastjóri) í samráði við þann aðila, sem á hana nú, ég vil vænta þess, að þingið fallist á þessa heimild ríkisstj. til handa. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara nánar út í fleiri atriði, t.d. viðvíkjandi kostnaði o.fl., þar sem annríki er nú mikið á þingi, og mælist ég til þess fyrir hönd n., að till. verði samþ. og endanlega afgr. á þessu þingi.