23.05.1947
Sameinað þing: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (4788)

262. mál, Laxárvirkjun

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég þarf litlu við grg. þessarar till. að bæta og ræðu frsm. Ég tel, að þetta mál liggi nægilega ljóst fyrir. Ég vil aðeins undirstrika, að víða er mikil og aðkallandi þörf framkvæmda í vatnsvirkjunarmálunum, en hvergi meiri en hér. Eins og tekið hefur verið fram, er enn ekki vitað, hvort ríkið eða Akureyrarbær verður eigandi þessarar virkjunar. Raforkumálastjóri hefur leitt veigamikil rök að því, að ríkið eigi að taka þessar framkvæmdir að sér, en til þess þyrfti nokkuð langdræga samninga milli ríkisins og Akureyrarkaupstaðar um ýmislegt í sambandi við það, og framkvæmdir mundu dragast um skör fram, ef bíða ætti með virkjunina á meðan. Ég mundi þó vilja veita Akureyri lán til að hefja virkjunarframkvæmdirnar, þó að Alþ. sæi sér ekki fært að fallast á þessa till., því að þetta má með engu móti tefja. En þetta millispor tel ég nauðsynlegt og vænti þess, að Alþ. sjái sér fært að samþykkja það.