08.11.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (4804)

51. mál, sala á fiskibátum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Jafnframt því, að starfað hefur verið að því, eins og kunnugt er, að auka fiskiskipaflota landsmanna, bæði með því að festa kaup á togurum og með því að kaupa til landsins og láta byggja í landinu vélbáta, yfirleitt stærri skip en áður höfðu verið hér almennt manna á meðal, hefur komið í ljós við það, að hinir stærri útvegsstaðir og raunar fleiri lenda í örðugleikum með þau hin smærri skip, sem þó hafði verið bjargazt við fram að þessu. Nú er það að vísu sjálfsagt rétt stefna að stækka yfirleitt vélbátaflotann og viðurkennt, að ég held af öllum þorra sjómanna, að fjöldamargir bátar, sem hér hafa verið notaðir, ekki sízt á vetrarvertíðinni, hafi verið minni en skyldi. Út af því, að ýmsir eigendur slíkra báta sjá nú fram á vandræði að halda hinum smærri bátum úti, þegar í útgerðarplássið safnast meiri skip, og líka af því, að ýmsir þessara smærri útvegsmanna vilja sjálfir fá aðstöðu til þess — og hafa jafnvel fengið hana — að breyta smærri skipum sínum í stærri skip, á þeim stöðum, þar sem stærri skip henta betur, hefur þetta mál verið mikið rætt í nýbyggingarráði, hvernig koma mætti því við, að þessi þróun, aukning og stækkun flotans, yrði til sem minnsts áfalls fyrir hina eldri vélskipaeigendur, sem eiga hina smærri báta, sem í flestum tilfellum eru í góðu standi, en þykja of smáir á vertíðinni og erfitt að keppa við að fá á þá skipshafnir, þegar betri skipsrúm bjóðast. Hins vegar höfum við orðið þess varir, að víða um landið er þörf fyrir þessa báta. Hafnarskilyrði eru á ýmsum stöðum þannig, að þar henta ekki stórir bátar, en jafnvel þeir bátar, sem eru taldir heldur of litlir á vertíðinni nú orðið, munu vera til stórra bóta á Ýmsum stöðum á landinu, þar sem ef til vill eru ekki til nema trillubátar eða þilbátar og þeir þá oft mjög slæmir. Við komumst því að þeirri niðurstöðu, að það væri þörf á fyrirgreiðslu í þessu efni af hálfu hins opinbera, því að margir þeirra manna, sem annars mundu vilja kaupa 20 eða 25 smálesta báta til að nota í staðinn fyrir trillubátana sína eða þilbátana á öðrum stöðum á landinu, eiga enn sem komið er erfitt með að kaupa þessa báta. Og þar sem stór átök hafa verið gerð af hálfu hins opinbera til þess að hjálpa mönnum til að eignast stærri skip, virðist sanngjarnt að veita einnig smærri útvegsmönnum og hinum fjarlægari stöðum hlutfallslega hjálp, að leitast við að bæta hag þeirra á þann hátt að gera þeim kleift að auka skipastól sinn á þennan hátt. Þess vegna er þessi till. fram komin.

Annar þáttur í þessu er sá, að hingað hafa leitað ýmsir Færeyingar, sem hafa verið kaupendur að gömlum, íslenzkum bátum. Og þar sem svo hagar til að útvegsmaður af einhverjum ástæðum stendur uppi með bát sinn og getur ekki losnað við hann, þá er auðvitað eins gott og betra að selja slíka báta til Færeyja og nota þá andvirði þeirra til nýrrar uppbyggingar hér innanlands en að láta þessa báta liggja aðgerðalausa á höfninni. Nú vildi svo til, að maður, sem fyrr var kunnugur vélbátaútveginum, átti leið til Færeyja og tók að sér fyrir tilmæli nýbyggingarráðs að athuga, hvernig viðhorfið væri þar. Vitað var fyrir, að Færeyingar mundu vilja kaupa báta, enda höfðu þeir gert það áður, en tregða á greiðslum. Nú hefur þetta mál skipazt þannig eftir viðtali, sem skipherrann átti úti í Færeyjum við ráðamenn þar, að það er svo að sjá sem stjórn Færeyinga muni vera reiðubúin að veita ábyrgð fyrir vissum hluta kaupverðsins gagnvart hinum íslenzka aðila. En það yrði erfitt fyrir menn, sem dreifðir eru á ýmsum stöðum hér á landi, að notfæra sér slíka ábyrgð, og töldum við því rétt, að þessi hluti, fyrri greiðslan af hálfu hins opinbera, gengi gegnum ríkisstj., þó að salan færi fram á vegum einstaklinga. Ég skal svo ekki orðlengja þetta að sinni. Við leitumst við að rökstyðja þessa till. á þskj. 77 svo skýrt, að ekki sé um að villast, bæði tilgang okkar og eins þörfina á þessu, og svo enn fremur það, að möguleikar eru á því, jafnvel þótt selt væri út fyrir landsins strendur, að fá baktryggingu hjá hinu færeyska ríki eða lögþingi Færeyinga, svo að ég álít það ekki neyðarúrræði að selja einhverja af okkar gömlu bátum þannig, svo framarlega sem þessara báta er ekki þörf hér og menn hér hafa ekki áhuga á að kaupa þá. — Ég þykist vita, þar sem farið er fram á ríkisábyrgð í þessu efni, að þá eigi þessi till. heima hjá fjvn., og vildi ég mælast til þess, að henni yrði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.