16.05.1947
Sameinað þing: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (4820)

252. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Einar Olgeirsson):

Ég sé, að hæstv. ríkisstj. ætlar að fara eftir fordæmi þeirrar ríkisstj., sem hún mest líkist. Seinast þegar ég var við riðinn vantraust á Alþ., sat öll þjóðstjórnin sæla að völdum og þóttist í trausti þess, að hún hefði allmikinn þingmeirihluta — meiri en núverandi stjórn —, fær að láta vera að svara rökum eða beita rökum fyrir tilveru sinni og stefnu. Ég sé, að þessi hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp þá aðferð. Og ég ætla að sætta mig tiltölulega vel við það. Hæstv. forsrh. lýsti yfir — fyrir hönd stjórnarinnar, að mér skildist —, að stjórnin mundi ekki ræða vantraustið. Hæstv. forsrh. var einnig ráðherra í þeirri þjóðstjórn, sem hafði þessa sömu aðferð. Og þeim ferli lauk með því, að hann hrökklaðist með aumingjahætti úr þeirri stjórn, af því að hún gerðist smám saman svo frek á hendur þjóðinni, að meira að segja Alþfl. gat ekki staðið sig lengur við að vera í henni — svo frek í trausti þess, að hún hefði svo mikinn þingmeirihluta bak við sig, að hún var búin að einangra sig frá þjóðinni. Hæstv. forsrh. virðist ekki hafa lært af því, sem þá gerðist. Það er dýrt fyrir þjóðina að upplifa eitthvað svipað aftur. Við höfum reynt að koma stjórninni og meiri hluta þingsins í skilning um, hvað er að gerast, til þess að fá það til að grípa í taumana í bili. Atkvgr. mun leiða í ljós, hverjir vilja bera ábyrgð á stefnu stjórnarinnar. Það er engan veginn tilgangurinn að halda uppi löngum umr. eða málþófi. Við höfum sett málið fram rökstutt og skýrt. Stjórnin virðist treysta því að geta setið án þess að færa nokkur rök, og þá verða staðreyndir að skera úr, hvort það gengur.