16.05.1947
Sameinað þing: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (4824)

252. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Hannibal Valdimarsson:

Ég var andvígur þessari stjórnarsamvinnu. Og það er sannfæring mín, að verkamenn, iðnaðarmenn, bændur og sjómenn eigi að taka höndum saman í stjórnmálunum hér á landi og að þessir aðilar eigi ekki samleið með kaupsýslu- og braskaralýð þeim, sem rakað hefur saman auði — og jafnframt völdum í skjóli þess — á liðnum styrjaldarárum. Þannig er það óbifanleg sannfæring mín, að flokkar bænda og verkamanna séu ávallt á villigötum, þegar þeir ljá sig til stjórnarsamstarfs við flokk heildsalanna og braskaranna, Sjálfstfl. Ég mun því ávallt eftir getu vinna að því, að verkamenn, sjómenn, iðnaðarmenn og bændur taki höndum saman um stjórn landsins. En þar sem það mál virðist ekki nægilega undirbúið og vafasamt, að hægt væri að mynda starfhæfa lýðræðisstjórn vinnustéttanna, ef þessi stjórn væri nú felld, þá segi ég nei við vantrauststill. þeirri, sem hér er til umr. Veldur þar og miklu um, að þetta stjórnarsamstarf hefur verið samþykkt af meiri hl. þingflokks og miðstjórnar Alþfl. En eins og ég hef hér gert grein fyrir, er meginforsenda mín fyrir þessari afstöðu sú, að ekki sé á betra völ eins og sakir standa.