16.05.1947
Sameinað þing: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (4825)

252. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Mér þykir rétt að gera grein fyrir atkv. mínu. — Ég er að sumu leyti óánægður með málefnasamning núv. stjórnar og andvígur sumum atriðum, m.a. aðferðinni með eignakönnunarmálið svo og dýrtíðarmálið, sem ég álít, að hafi dregizt um of fyrir stjórninni að leysa, og tel, að fjármálum þjóðarinnar sé stefnt í voða, ef það dregst til lengdar að leysa þessi mál. En þótt ég sé ekki fylgjandi þessari stjórn, verður að horfast í augu við það, að engar líkur eru fyrir því, að til sé hér á Alþ. meiri hl. til þess að mynda ríkisstj. og leysa hin aðkallandi vandamál. Ég tel því rétt og eðlilegt, að þessi stjórn fái tækifæri til þess að sýna, hvers hún er megnug, og í trausti þess, að ríkisstj. takist að leysa dýrtíðarmálið í náinni framtíð, greiði ég atkvæði á þann hátt, að ég segi nei.