16.05.1947
Sameinað þing: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (4826)

252. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jónas Jónsson:

Það munu vera liðin fimm missiri, síðan hér var mynduð stjórn, sem kommúnistar tóku virkan þátt í. Ég bar þá fram vantrauststill. á þessa stjórn, vegna þess að þessi flokkur, sem starfar ekki á þingræðisgrundvelli, var einn þátttakandinn. Sú till. fékk ekki mikinn stuðning í það sinn, en straumur atburðanna og reynslan varð sú, að sú skoðun, sem ég hélt fram, hefur sýnt sig að vera rétt, og blöð Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. (ÓTh: Og Ófeigur.) eru nú daglega algerlega sammála um það, að þessi flokkur sé ekki starfhæfur. Þegar nú þess vegna svo vel vildi til, að þessi flokkur, sem ekki á að eiga þátt í þingræðisstjórn, leysti böndin í fyrrv. ríkisstj. og fór úr henni og í staðinn kom stjórn, sem mynduð var á borgarlegum grundvelli, eins og lýðræðisþjóðir yfirleitt fara að, er vitaskuld ómögulegt fyrir mann, sem álítur, að kommúnistar eigi ekki að vera í stjórn, að greiða atkv. með vantrauststill., sem kommúnistar flytja, og þess vegna segi ég nei.