11.11.1946
Sameinað þing: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (4830)

46. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er ljóst, að á undanförnum mánuðum og árum hefur gengið mjög erfiðlega að fá viðskiptaráð til þess að yfirfæra nægilegan gjaldeyri, til þess að námsmenn gætu stundað nám sitt erlendis, svo að viðunandi sé. Sérstaklega hefur þetta komið illa niður á námsmönnum, sem nám stunda í Bandaríkjunum. Veit ég dæmi þess, að menn, sem verða að lesa allt árið um kring, verða að láta sér nægja 2000 dollara á ári til allra sinna þarfa, en þar af fara 900 dollarar í skólagjald, 200 dollarar í bækur, og eiga þessir námsmenn þá eftir tæplega 1000 dollara til þess að lifa af. Sjá allir hvílík fjarstæða það er að ætlast til, að menn, er háskólanám stunda, geti lifað af einum 1000 dollurum — og það við austurströnd Bandaríkjanna, þar sem miklu dýrara er að lifa en hér á Íslandi. Ég álít, að setja þurfi fastar reglur um, að heimilt sé að yfirfæra mánaðarlega fé til námsmanna, til þess að þeir geti átt það víst að hafa nægilegt fé til náms síns, en ekki, að það sé komið undir duttlungum við. skiptaráðs eða ýmissa annarra, hvort þeir geti haldið áfram námi eða ekki. Fyrir því er þessi till. fram borin, og vænti ég þess, að hv. þm. samþykki hana og treysti með því afkomu þessara manna, sem algerlega eiga undir þeim mönnum, sem yfirfærslu gjaldeyris hafa með höndum, en lítinn skilning hafa sýnt þessum málum undanfarið, eftir því sem marka má af framkomu þeirra. Ég veit þess mörg dæmi, að þurft hefur að fara ýmsar krókaleiðir í þessum efnum, og er ekki æskilegt að þvinga þá menn, er nám stunda erlendis, inn á svartan markað til þess að geta stundað nám sitt. Hér er um að ræða menn, sem margir hverjir eru að undirbúa sig undir erfitt ævistarf með styrk frá hv. Alþ. til þess að stunda nám sitt og ætla sér að því loknu að snúa heim aftur, en eins og nú er ástatt, er allt skorið svo hvað gjaldeyrisyfirfærslu snertir, að þeir geta ekki stundað nám sitt, eins og til er ætlazt: — Mér finnst ekki ástæða til, að till. fari í n., því að mál þetta er svo einfalt, heldur að það verði afgreitt þegar á þessum fundi, að lokinni þessari umr.