11.11.1946
Sameinað þing: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (4833)

46. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er kannske ekki eins kunnugur þessum málum eins og ég er, en ég hef þá sögu að segja, að þegar ég bað um yfirfærslu námskostnaðar fyrir námsmann erlendis, hafði ég full sönnunargögn í höndunum um, að hann stundaði nám við vissan skóla, hvað hann þyrfti í skólagjöld og bækur, og hefði því viðskiptaráð getað sannfært sig um, hvað mikið var eftir fyrir viðkomandi aðila og að þessar 6500 kr. mundu hrökkva skammt til þess að lifa af. Viðskiptaráð svaraði því til, að það hefði fullt vald til þess að synja um slíka gjaldeyrisyfirfærslu og viðhafði slík ummæli, að ekki verða endurtekin hér, en augljóst er, að þessum málum er ekki sýndur skilningur af þeim mönnum, sem hafa með höndum yfirfærslu gjaldeyris til námsmanna. Hins vegar er ég samþykkur hæstv. fjmrh. um, að nauðsynlegt sé að hafa fyllsta eftirlit með þessu. Ég teldi æskilegt, að frá viðkomandi sendiherrum eða konsúlum í þeim löndum, þar sem piltarnir dveljast, kæmu upplýsingar um, að þessir menn stunduðu nám, og ætti enginn vandi að vera að fá sannanir um. að menn stundi nám við viðkomandi skóla eða ekki. Ef slíkar sannanir hins vegar vantar, þá get ég skilið, að viðskiptaráð viðhafi hroka, tefji yfirfærslu og neiti síðan, en þegar öll gögn eru lögð fyrir ráðið og meðan ekkert það liggur fyrir, sem hægt er að véfengja, þá tel ég, að viðskiptaráði ætti ekki að vera leyfilegt að viðhafa slíka framkomu. — Ég ætla ekki að setja mig upp á móti ósk hæstv. fjmrh. um, að málinu verði vísað til n., ef gert verður eitthvað til þess að tryggja enn frekar, að til þessara námsmanna fáist yfirfærður nauðsynlegur námskostnaður. Vil ég þó vænta, að hv. allshn. hraði málinu og tryggi, að um þetta ráði ekki handahóf, heldur réttlæti og sanngirni. — Hins vegar er ég á móti því, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. N-M., að fara að blanda inn í afgreiðslu þessa máls, hvort ríkissjóður sé að halda uppi mönnum árum saman, sem ekkert nám stunda, og vil ég ekki láta tefja afgreiðslu þessa máls með því. Með afgreiðslu þess máls, sem hér liggur fyrir, vil ég fá úr því skorið, hvort það eigi að yfirfæra eðlilegan og hæfilegan gjaldeyri til þeirra, er nám stunda erlendis, ef full sönnunargögn liggja fyrir, að svo sé, eða hvort eigi að hætta slíkum yfirfærslum, því að hitt er algerlega ósæmandi, að narra menn til náms erlendis og kippa svo undan þeim stoðunum um, að þeir geti lokið námi sínu þar með því að synja þeim um nauðsynlegar gjaldeyrisyfirfærslur.