13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (4837)

46. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Ég get vísað til nál., því að þar greinir frá þeim höfuðástæðum, sem n. hefur fyrir sér um það, að það verði afgr. með rökst. dagskrá, sem einnig er prentuð með nál. á þskj. 196. N. er sammála hv. flm. þessarar þáltill. um það, að eftir því, sem frekast er hægt, verði að tryggja það, að námsmenn, sem dveljast erlendis, geti fengið yfirfærslu á gjaldeyri til nauðsynja sinna, og eftir þeim upplýsingum, sem n. hefur fengið um þessi efni, þá telur viðskiptaráð, sem hefur nú afgreiðslu slíkra mála með höndum, að það hafi látið í té eða orðið við óskum manna í því efni eftir því, sem talið var. að námsmenn þyrftu, það mikið og á þann hátt, að þeir biðu ekki nein óþægindi eða liðu fyrir það, að gjaldeyrir hefði ekki verið yfirfærður til þeirra, þegar óskir hafa komið fram um það. Sú afgreiðsla, sem n. leggur til, að verði viðhöfð í málinu, er þannig, að því er beint með þeirri rökst. dagskrá, sem fram er borin af hálfu n., til ríkisstj.. að séð verði um það, að námsmenn hafi þá fjármuni, sem þeir þurfa til nauðsynja sinna við nám erlendis, og verði einhver skortur á í því efni, þá verði það ekki fyrir þær sakir, að það standi á gjaldeyrisyfirfærslu, eða af tómlæti í slíkri afgreiðslu. Það hlýtur að hafa verið aðaltilgangur hv. flm. með þessari till. að tryggja þetta. Nefndin var þeirrar skoðunar, að fengnum þeim upplýsingum, sem í þessu máli fengust, að það væri vel fyrir þessu séð á þann hátt, sem n. leggur nú til, ef hæstv. Alþ. vill fallast á þessa rökst. dagskrá, því að eftir samþykkt hennar er það vilji þingsins fullkomlega, að þannig lagaða afgreiðslu fái þessi mál, að námsmenn fái nauðsynjum sínum fullnægt með yfirfærslu gjaldeyris eftir því, sem um verður beðið og talið er, að þeir þurfi með. Það má geta þess í þessu sambandi, og að því er vikið í nál., að það þarf mun meiri gjaldeyri til námsmanna erlendis, í Ameríku og líklega hvar sem er, ekki sízt á Norðurlöndum, svo sem í Svíþjóð, heldur en áður. En eftir viðtali við form. viðskiptaráðs er honum líka kunnugt um þetta, og ég þykist þess fullviss, að tekið verði fullkomlega tillit til þess við afgreiðslu slíkra mála, svoleiðis að ég hygg, að það verði, hvað þetta áhrærir, fullkomlega fyrir þessum þörfum námsmannanna séð, og eins þeim atriðum, ef þannig stendur á, eins og einnig er vikið að í nál., að námsmenn hafi fjölskyldu fram að færa, að þá verði fullt tillit tekið til þess við yfirfærslu gjaldeyris. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta málefni frekar, því að mér virðist það liggja svo ljóst fyrir, að menn geti fullkomlega myndað sér skoðun um það.