22.10.1946
Sameinað þing: 3. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (4842)

3. mál, markaðsleit í Bandaríkjunum

Flm. (Jónas Jónsson):

Það getur tæplega nokkurn furðað á því, að þessu máli sé hreyft hér, vegna þess að á undangengnum stríðsárum hefur íslenzkur útvegur breytt skipulagi sínu þannig, að hætt hefur verið að miklu leyti sölu á söltuðum fiski vegna Spánar og Ítalíu, og væru nú allmiklir örðugleikar á að taka upp þessa vinnsluaðferð, jafnvel þó að markaðshorfur væru betri með slíka vöru við útlönd en þær eru. Nú á stríðsárunum tók þjóðin það ráð að breyta saltfisksframleiðslunni í ísfisksframleiðslu og framleiðslu á hraðfrystum fiski og byggði mikinn fjölda frystihúsa, og er unnið að því enn. En nú er svo komið, að það land, sem á stríðsárunum keypti mest af þessum fiski og borgaði hann allvel, er nú að mestu leyti lokað fyrir þessari vöru, og þá leiðir af sjálfu sér, að óhugsandi er annað en að leita verði nýrra markaða fyrir fiskinn og það með miklum dugnaði. Það hefur að vísu verið reynt um stund að selja fisk í hinum stríðshrjáðu löndum Evrópu, Frakklandi, Póllandi, Tékkóslóvakíu og síðast í Rússlandi. Um Þýzkaland er naumast að tala, eins og hag þess er nú komið, og eftir reynslunni um Frakkland er naumast hægt að gera ráð fyrir fiskmarkaði þar fyrst um sinn. Tékkóslóvakía er ekki stórt land og miklir erfiðleikar að koma vörum þangað, og þótt þar geti verið um einhvern markað að ræða, þá er ekki hægt að segja, að það sé mikið á honum að byggja, og eins og hv. þm. er kunnugt, þá er verzlunin, sem þar er rekin nú, kostuð af Íslandi, svo að Ísland verður að lána Tékkóslóvakíu fé til að geta tekið fiskinn.

Um Rússland er líkt að segja og Þýzkaland, að það er miklum erfiðleikum bundið að verzla við það land vegna þess, að þar sem verzlunin og pólitíska valdið er sameinað, þar er það undir duttlungum hinna ráðandi manna komið, hvernig slíkir samningar eru. Með þeim aðferðum, sem einræðisríkin geta beitt, tókst Þjóðverjum 1933–1940 að gera Balkanríkin sér verzlunarlega háð með kænlegu verzlunarkerfi. Og þótt eðlilegt sé að selja vörurnar, hvar sem markaður fæst fyrir þær, þá er ekki hægt að leggja markaði í einræðislöndum fyrir frjálsar þjóðir. Þetta atriði kom mjög til umræðu í Danmörku í sumar, þegar dönskum landbúnaðarmönnum þótti markaður, sem þeir höfðu lengi haft í Englandi, of bágur, miðað við það, sem þeir þurftu að fá fyrir vörurnar. Þá bauðst þeim frá Rússlandi talsvert álitlegt tilboð í flestar landbúnaðarvörur sínar. Þó ákváðu danskir kaupsýslumenn og stjórnmálamenn að selja Englendingum meginið af vörum sínum, þótt það væri nokkru lægra verði en Rússar buðu. Þeir sögðu sem svo: „Þennan markað þekkjum við og viljum ekki loka honum. Ef við seljum allt til annars lands um stund, þá kemur að því, að önnur lönd, Ástralía og Nýja-Sjáland, fylla þann markað, sem við höfum haft. Þess vegna viljum við heldur selja vörur okkar þar, þótt fyrir lægra verð sé, en loka markaðinum fyrir augnablikshagnað.“ Það er eftirtektarvert, að þessi reynda verzlunarþjóð, Danir, hafa gert þennan mun á markaði í einræðislandi og frjálsu landi.

Það er því ekki hægt að gera sér skynsamlega von um markað fyrir hraðfrystan fisk í Evrópu. Og þá er ekki eftir nema eitt land, þar sem reynt hefur verið að selja þessa vöru, en þó ekki með nógu mikilli orku. Í þessu felst ekki það, að við eigum ekki að nota alla þá markaði, sem hægt er að fá á meginlandinu og í Bretlandi, en við verðum að gera ráð fyrir, að ekki sé örugg framtíð í neinum þeirra, ef litið er skynsamlega á málið.

Það, sem mælir með, að hægt sé að vinna öruggan markað í Bandaríkjunum, er fyrst og fremst stærð landsins. Þjóðin er ein af allra stærstu þjóðum heims. Hún er að vísu mikil fiskveiðaþjóð, en í stórum hluta Bandaríkjanna er mikið neytt vatnafisks frá Kanada, sem er alls ekki sambærilegur við íslenzka fiskinn, svo að ef íslenzki fiskurinn væri sambærilegur um verð, þá mundi hann sigra þar á markaðinum.

Þá er enn eitt, sem hér skiptir miklu máli, en það er það, að Bandaríkin eru mikil forustuþjóð í kælitækni, svo að þar stendur ekkert land þeim á sporði, hvort sem er um kælihús til geymslu, kælivagna til flutnings eða kæliherbergi í sambandi við búðir. Það olli m.a. miklum erfiðleikum á stríðsárunum, að Englendingar höfðu svo litla kælitækni, svo að þegar hraðfrysti fiskurinn var settur í búðirnar, þá varð að þíða hann upp og setja hann í geymslu á ný, ef hann gekk ekki út fyrsta daginn, en kælitækni Bandaríkjanna er orðin svo mikil, að það er hægt að verzla örugglegar með hraðfrystar vörur þar en í nokkru öðru stóru landi.

Það má segja, að gerð hafi verið nokkur tilraun til að afla markaða í Ameríku, þar sem sendur hefur verið vestur þeirra erinda mjög duglegur maður, fyrrverandi forstjóri síldarverksmiðjunnar á Siglufirði, en ég veit ekki til, að honum hafi verið fengið fé til að standa undir kostnaði við að útbreiða þessa markaðsvöru. Ég býst við, að ekki hafi að svo stöddu þótt ástæða til þess, en ef á að bæta íslenzkum útvegsmönnum það tap, sem af því leiðir, að enski markaðurinn lokast fyrir þessa vöru, þá verður að leggja fé fram til markaðsleitar og sennilega verulegt fé til þess að dreifa sýnishornum um þetta stóra land. Þess vegna vil ég mælast til, ef rétt þykir að láta þessa till. lifa til síðari umr., að henni verði vísað til fjvn., af því að fyrir mér vakir, að fjárveiting fáist til þessarar markaðsleitar. Ég legg því til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjvn.