10.01.1947
Sameinað þing: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (4864)

22. mál, ullarkaup ríkissjóðs

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen):

Tilefni þessarar till. til þál. um kaup ríkisins á ull er það, að við lok ársins 1945 voru óseldar þriggja ára birgðir ullar í landinu, en svo stendur á, að ríkið hafði tekið ábyrgð á því, að ullareigendur fengju ákveðið verð fyrir ull sína án tillits til verðs á erlendum markaði. Dráttur á sölu ullarinnar stafar af því, að ríkisstj.vildi freista að fá sem hæst verð, til þess að ríkið biði ekki tjón af. Nú rættist þannig ár þessu á síðasta ári, að mikið magn ullar tókst að selja, og það, sem betra var, að þeim, sem önnuðust söluna, tókst að fá svo hátt verð, að ríkið biði ekki teljandi halla. Má segja, að vel hafi verið að verki af hálfu þeirra, sem með söluna fóru undir handleiðslu ríkisstj., að hærra verð skyldi fást fyrir ullina en ríkjandi gangverð á sama tíma. Hins vegar er nú eftir á 4. hundrað smálestir af ull óselt, og er það 3. og 5. flokkur ullarinnar eftir mati. Þetta magn hefur ekki enn þá tekizt að selja fyrir verð, er svari til ábyrgðarinnar, og eru ekki talin líkindi til, að þetta verð fáist, þó að salan drægist eitthvað á langinn. N. fékk upplýsingar hjá S.Í.S. og Garðari Gíslasyni, en þeir hafa á hendi sölu ullarinnar, og telja þessir aðilar, að ekki séu líkur til, að hægt sé að fá það verð, er svari til ábyrgðarinnar, og eftir því verði, sem þeir telja, að fáanlegt sé fyrir ullina, þá getur halli ríkissjóðs hæglega numið allt að 11/2 milljón kr. Enn fremur telja þeir ekki betra að bíða og vilja ljúka uppgjöri þessara mála gagnvart bændum sem fyrst, og hafa þeir mælt með, að ef sölunni verði frestað, þá greiði ríkið andvirði ullarinnar, þótt sala hafi ekki farið fram, svo að hægt sé að gera upp við bændur, sem lengi hafa beðið uppgjörsins.

Samkomulag varð hjá meiri hl. fjvn. um það, að þessi till. verði samþ. og gengið verði frá uppgjöri. En þar eð áliðið var og ekki hægt að ljúka þessu fyrir áramót, þá hefur n. lagt til, að till. verði breytt þannig, að þessu verði lokið fyrir lok þessa mánaðar. N. leggur því til, að till. verði samþykkt með þeirri breyt., að þetta verið endanlega gert fyrir 31. jan. 1947, og megi þá greiða bændum. Það hefur orðið allmikill dráttur hjá n. að afgreiða þetta mál, og stóð þannig á því, að þegar till. barst og lengi eftir það, lá fyrir sala ullar til Póllands, og þótti n. rétt að bíða úrslita þess máls. En eftir að sú sala var um garð gengin og fullar lyktir fengnar um hana, afgreiddi fjvn. þessa till., og er nú að hreinu að ganga, að eftir eru aðeins um 300 smálestir, sem ríkissjóður þyrfti að greiða, ef greiðsla hefur ekki komið fyrir 31. jan. 1947, eða þá greiða þann halla, sem af sölunni kynni að leiða. Þeir tveir nm., sem ekki skrifuðu undir þetta nál., hafa ekki gefið út sérálit, og virðast þeir ekki vera mjög mótfallnir þessu, þótt þeir skrifuðu ekki undir. Munu þeir ef til vill gera grein fyrir afstöðu sinni. Sem sagt mjög gott samkomulag var í n. og skilningur á því, að eðlileg sé ósk bænda um fullt uppgjör, þó að nm. viðurkenni, að ástæða hefði verið til þess fyrir ríkisstj. að freista þess að fá sem hæst verð fyrir ullina, svo að ekki þyrfti að grípa til ríkisábyrgðarinnar nema sem allra minnst. Þetta hefur tekizt um mikinn meiri hluta þess ullarmagns, sem hér er um að ræða.