10.01.1947
Sameinað þing: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (4871)

22. mál, ullarkaup ríkissjóðs

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen):

Það verður erfitt fyrir mig að ræða um lagalegan rétt við fjmrh., því að um það er hann mér miklu fróðari, en ég vil þó segja mitt álit á þessum atriðum, sem ráðh. drap á.

Ég sé ekki, að í l. frá 1945 um þetta efni sé neitt, sem skerði rétt bænda í því, að þeir hefðu getað látið telja ullina við fyrsta tækifæri, en ríkissjóður hefði orðið að greiða það, sem vantaði á hið lögákveðna verð, þá þegar.

Hitt atriðið var, að vafi væri á því, hvort öll ull ársins 1945 heyrði undir þessi l. Ég tel, að hér sé ekki um neinn vafa að ræða, því að ég álít, að sú ull, sem tekin hefur verið af fénu, sé framleidd, þó að það sé auðvitað rétt, að hún sé ekki um leið tilbúin til útflutnings. Þess vegna tel ég fullvíst, að l. séu sett með það fyrir augum, að þau nái til allrar ullar, sem tilféll á árinu 1945.

Þriðja atriði ráðh. var, að ég hafi misskilið það, að nú væri leitað að hærra verði fyrir þá ull, sem eftir er í landinu, en markaðsverði. Ég miða einungis við það, sem stendur í bréfum frá ullarútflytjendum til n., en þar segir, að horfur séu á því, að selja megi nú þegar alla þá ull, sem til er í landinu, fyrir markaðsverð, eða 5 til 6 kr. kg. Þessi bréf eru frá því í okt., og eftir þeim hefði því átt að vera hægt að vera lokið að selja alla ullina. Ég tel, að það sé fjarstæða, að hér sé farið fram á nokkrar ósanngjarnar kröfur af hálfu bænda, álít miklu frekar, að þeir hafi sýnt umburðarlyndi og sanngirni í þessu máli fram yfir það, sem aðrar stéttir í þessu þjóðfélagi hafa gert.