10.01.1947
Sameinað þing: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (4872)

22. mál, ullarkaup ríkissjóðs

Skúli Guðmundsson:

Það er eitt atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég vildi gera nokkra aths. við. Ráðh. taldi, að hægt væri að greiða fullu verði framleiðslu áranna 1943 og 1944, svo að ekki væri þá óuppgert nema framleiðsla ársins 1945. Mér er hins vegar kunnugt um, að það er nokkuð óselt enn þá af framleiðslu áranna 1943 og 1944, eða öll 3. flokks ullin og nokkuð meira. Það má því gera ráð fyrir, að bændur þurfi enn að bíða lengi eftir greiðslu, ef engar ráðstafanir verða gerðar. Mér finnst, að dráttur á því að fá þetta gert upp sé þegar orðinn það langur, að sanngjarnt sé, að þessi viðskipti verði nú gerð upp á þann hátt, sem lagt er hér til í brtt. frá meiri hl. fjvn., og skal ég ekki að öðru leyti blanda mér í þær umr., sem hér fara fram, né endurtaka neitt af þeim rökum, sem hér hafa verið færð fram. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í tilefni af ummælum hæstv. fjmrh.