10.01.1947
Sameinað þing: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (4873)

22. mál, ullarkaup ríkissjóðs

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Út af ummælum hv. þm. V-Húnv. vildi ég taka fram, að bæði framkvæmdastjóri Sambands ísl. samvinnufélaga og fulltrúi Garðars Gíslasonar segja, að engin vandkvæði séu á því að gera upp ullina frá 1943 og 1944, og sé ég ekki ástæðu til að véfengja þetta, og ætla ég, að þegar sé búið að gera þetta upp. Það væri undarlegt, ef ekki væri búið að gera þetta, því að meiri hluti af ullarframleiðslu þessara ára er þegar seldur. Ég hygg, að komið geti til mála að hafa skipti á flokkum milli ára. Aðalatriðið er það, að það ullarmagn sé selt, sem nægi til að greiða ullarmagn fyrri ára. Ég hef nú ekki miklu að bæta við það, sem ég sagði áðan viðvíkjandi ræðu hv. þm. Borgf. Hann gat þess nú síðast, þegar hann talaði, að bréfin, sem hann var að vitna í, væru frá því í október og bréf Garðars Gíslasonar væri dagsett í októberlok, og þá verður skiljanlegur þessi misskilningur, sem ríkir á milli okkar. Þessi bréf eru dags. um það leyti, sem samningatilraunirnar eru að byrja í Póllandi, og vitanlega vildi stjórnin og ullarsalar ekki bjóða ullina annars staðar, meðan von var á hærra verði. Þessum tilraunum var lokið í október og seld rúml. 300 tonn til Póllands, og strax þegar þeim samningum var lokið, varð það að ráði, að teknir voru upp samningar í Bandaríkjunum um sölu. En þar er ekki um að ræða nema heimsmarkaðsverð. Tilboðin voru ófullnægjandi, og var ákveðið að taka ekki ákvörðun fyrr en eftir áramótin, í von um betra verð. Ég geri ráð fyrir, að hér sé um mikið magn að ræða, kannske framleiðslu nokkurra ára, en við vildum ekki selja fyrir lægra verð, ef hægt yrði að fá hærra verð fyrir stuttan tíma. Hv. þm. Borgf. leggur áherzlu á það, að ullarframleiðendur hefðu átt að hafa atkvæði um það, hvenær ullin var seld, og talar um það sem tilhliðrunarsemi við ríkissjóð, að ekki skuli vera selt á hverjum tíma fyrir það, sem framleiðsluverðið var. Ég er ekki á sömu skoðun. Ég tel sjálfsagt, að ríkissjóður fengi að hafa hönd í bagga með sölunni, úr því að hann á að bera ábyrgðina.

Ég vil segja það, að frá því ég kom í ríkisstj. hefur verið ágætis samkomulag milli mín og ullarsala. Þeir hafa verið ágætir í samvinnu og sýnt lipurð á alla lund. En að ullarsalar hafi skapað sér einhverja sérstöðu með því að hafa ekki selt, þegar þeim þóknaðist, og að þeir geti krafið ríkissjóðinn, það get ég ekki fallizt á.

Út af lagalegu hliðinni vil ég benda á það, að í l., sem ég vitnaði til áðan, stendur þetta: „Ef vörur, sem framleiddar eru á framangreindu tímabili eða fyrr, eru eigi fluttar út á því ári, enda þótt þær séu tilbúnar til útflutnings, skulu þær verðbættar, þegar út eru fluttar, eins og gert mundi hafa verið á því ári, er þær voru framleiddar.“

Hér er einmitt markalínan dregin við það, hvort vörur eru tilbúnar til útflutnings fyrir 15. sept. 1945, og býst ég við, að ekki geti orkað tvímælis, að ullin geti ekki talizt tilbúin til útflutnings, fyrr en hún er þvegin og verkuð, eins og vant er.

Mér fannst rétt að vekja athygli á þessu, vegna þess, að hv. þm. Borgf. vitnaði í ábyrgðarkröfuna.