05.11.1946
Sameinað þing: 7. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (4891)

328. mál, húsnæði handa rektor menntaskólans í Reykjavík

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég tel mér ekki skylt að svara ræðu hv. þm. S-Þ., en ég mun svara því, er mig varðar í þessu máli.

Það er augljóst, að það er í alla staði óheppilegt, að rektor menntaskólans búi ekki í bænum. En það er ekki auðvelt að ráða fram úr þessu. Ég hygg, að það hafi verið í ágúst s.l., að þetta úrræði var tekið, þ.e.a.s. að taka íbúð rektors til afnota við kennslustörf.

Til mála kom að kaupa eina hæð í húsi til íbúðar fyrir rektor, en hvort tveggja var, að íbúðin var ekki sem hentugust og að það er engan veginn æskilegast, að opinberir starfsmenn ríkisins búi í húsum, sem hvorki eru í eign þeirra sjálfra né hins opinbera. Eftir því sem hæstv. menntmrh. sagði mér í morgun, þá er um að ræða þrjú hús, og kemur þar sérstaklega eitt þeirra til greina. Rektor hefur nú sjálfur skoðað húsið, og honum líkar það ekki og er þess ekki fýsandi, að það verði keypt. Einnig hafa komið til mála a.m.k. eitt og jafnvel fleiri hús, sem betur liggja í bænum, en þá er það vandkvæði á, að þau eru of stór fyrir þetta. Ég hygg það rangt hjá hv. þm. S-Þ., að húsið í Garðastræti kosti um það bil 800 þús. kr., heldur muni það kosta 650 þús. kr., en ekki er heldur óhugsandi, að hægt væri að fá það nokkru ódýrara. En auðvitað liggur það í augum uppi, að íbúð handa einum embættismanni er allt of dýr, ef hún á að kosta um 600 þús. kr.

Ég tel ekki rétt að festa kaup á neinu húsi eða íbúð án þess að Alþ. hafi fengið tækifæri til að athuga málið rækilega og samþykkja kaupin, ef um slíkt væri að ræða. Ég verð að segja, að ég álít heppilegast, ef hægt væri að finna einbýlishús af hæfilegri stærð og á heppilegum stað í bænum. Ég tel það engum vafa undirorpið, að íbúð handa rektor yrði reist, ef byggður yrði nýr skóli, og þessi húsakaup yrðu þá aðeins til bráðabirgða. En nú er allt í óvissu enn sem komið er um byggingu skólahúss, svo að rétt er að reikna með því, sem nú er gert, til nokkurra ára.

Ég álít ókleift að ráðast í byggingu á húsi handa rektor, því að auk allra annarra annmarka yrði það um seinan, því að það hús kæmist í fyrsta lagi upp næsta sumar. Til mála hefur og komið að leigja íbúð, en það hefur ekki tekizt.

Ég hef nú lítið fleira um þetta að segja, og ef ekki fæst nein viðunanleg lausn á þessu máli og ekki tekst að fá neitt hús, sem heppilegt getur talizt, þá mun ég ekki sjá mér fært að samþykkja þetta, án þess að Alþ. fái áður fjallað rækilega um málið.