08.11.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (4901)

266. mál, áfengisskömmtun

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég vil engan veginn gera lítið úr þeirri till., sem hér liggur fyrir, því að þetta er að ýmsu leyti vandamál og er í raun og veru búið að vera það nálega allan þann tíma. sem liðið hefur, síðan bannlögin gengu í gildi 1914–1915, því að segja má, að öll þau ár hafi áfengismálin verið ofarlega á baugi og sívaxandi vandamál.

Það má segja, að það séu sérstaklega tvö atriði í þessu máli, sem séu erfið viðureignar. Annars vegar má segja, að vaxandi áfengisnotkun, þó að hún sé ekki eins mikil og margir vilja vera láta, er stórkostlegt fjárhagslegt atriði. Hún vinnur á móti fjársöfnun. Hins vegar er svo það, sem kannske er það alvarlegasta, að árlega verða fleiri og færri menn áfenginu að bráð. Menn verða sjúkir, hætta að vinna og verða í stuttu máli lélegir borgarar. Sérstaklega er þetta að verða áberandi hér í Reykjavík á síðari árum. Til þess liggja ýmsar ástæður og þá fyrst og fremst sú, að menn hafa nú á síðustu árum haft meiri fjárráð en nokkru sinni fyrr og hafa þar með haft möguleika til meiri áfengisneyzlu en nokkru sinni áður. Mér er fullljóst, að það er ekki hægt að láta þessi mál afskiptalaus. Að vísu hefur verið gerð nokkur tilraun til að bæta úr þessu böli með stofnun drykkjumannahælis. Það hefur farið hálfgert í handaskolum, en nú er verið að reyna að hefja þessa starfsemi á ný og von til, að hún komist bráðlega í betra horf. Það er nauðsyn þjóðfélagsins vegna að reyna að bæta úr þessu böli. Það er skylda að reyna að lækna þá sjúku menn, sem lífið hefur leikið á þennan hátt, og það er einnig af öðrum ástæðum kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið að hafa svo stóran hóp manna, sem hugsar ekki um annað en að svala áfengisþorsta sínum, en úr þessu böli verður ekki bætt nema á einn veg, að lækna þessa sjúku menn, því að það verður að gera sér ljóst, að flestir þessir menn eru sjúklingar.

Þá er hitt atriðið, hin almenna áfengisnautn, sem stafar sumpart af sömu ástæðum og eins hinu, að menn hafa nú meiri peningaráð en áður og láta meira eftir sér bæði í þessu efni og öðrum. Allur þorri manna, sem neytir áfengis, gerir það, án þess að hægt sé að segja, að það sé til skaða að öðru leyti en því, að þeir brúka meiri fjármuni til þess en æskilegt væri.

Það má vera, að þessi aðferð, sem hér er stungið upp á. skömmtun áfengis, dragi eitthvað úr áfengissölu til þeirra manna, sem telja má, að áfengið geri lítið mein. Hitt er jafnvíst, að hinn flokkurinn, þeir, sem sjúkir eru af áfengisnautn, hafa alltaf næga möguleika til að ná í áfengi, þó að þær hömlur væru lagðar á áfengissöluna, sem hér er stungið upp á.

Það er búið að gera margvíslegar tilraunir til að halda mönnum frá áfengi. Ég minntist á það, að 1915 hefði gengið hér í gildi áfengisbann. Það má segja, að fyrst hafi þetta borið nokkurn árangur, og líklega hefur verið svo alllangan tíma, að áfengisnautn var nokkru minni en áður en bannið kom á. Af ástæðum, sem ekki er ástæða til að rekja hér, varð að afnema bannið hálfgert og leyfa innflutning á léttum vínum. Ég hygg, að sú tilhögun, sem var á þeim árum, 1921–1934, hafi verið sú allra versta, sem nokkru sinni hefur verið hér. Eins og kunnugt er, leið ekki á löngu frá því, að hinu algerða banni var létt af, þar til bruggun breiddist mjög út og varð svo algeng, að líklega má segja, að varla hafi verið til sú sveit á Íslandi, að ekki hafi verið bruggað þar meira og minna og jafnvel svo að segja á hverjum bæ í sumum sveitum. Þetta varð eðlilega til þess, m.a. af því að áfengið varð svo ódýrt á þennan hátt, að drykkjuskapur varð almennari en nokkru sinni áður hér á landi. Augu manna opnuðust smám saman fyrir þessu, þar til innflutningur á sterkum drykkjum var leyfður 1934. Fyrst í stað voru engar hömlur á sölu áfengis. Síðar voru gerðar ýmsar tilraunir til þess að leggja hömlur á söluna, vitanlega í því skyni, að áfengisneyzla minnkaði. Meðal þeirra tilrauna voru sams konar hömlur og stungið er upp á í till., sem hér er flutt af hv. 2. þm. N–M., þ.e.a.s. að skammta áfengið, og ég held, að það sé samhljóða álit, að það sé næstversta tilhögunin, sem verið hefur hér á landi. Afleiðingin af þessu varð alls ekki rýrnun drykkjuskapar, a.m.k. ekki teljandi, heldur einnig hitt, að áfengissalan færðist úr höndum ríkisins og í hendur leynivínsala, til manna, sem gerðu sér að atvinnu að selja áfengi og þá ef til vill miklu hærra verði. Það er kunnugt, að áfengisbækurnar gengu kaupum og sölum og að fólk, sem aldrei hafði bragðað áfengi og aldrei hefði fengið sér bækur, lét kunningjana hafa þær fyrir ekki neitt eða seldi þær fyrir meira eða minna gjald. Ég held það væri mjög lítið æskilegt að innleiða þetta ástand á ný, og þótt ég efist ekki um, að hv. flm. þessarar till. flytja hana ekki í því skyni, að sams konar ástand komist á söluna og á þessum árum, þegar áfengið var skammtað, held ég það verði erfitt fyrir þá að benda á leið út úr þessum ógöngum. Það er svo, að það verður að láta eitt yfir alla ganga í þessum efnum. Menn, sem fullnægja vissum skilyrðum, hafa náð vissum aldri og hafa ekki af sér brotið á sérstakan hátt, eiga að hafa rétt til þess að kaupa þessa vöru. Það verður að láta jafnt yfir alla ganga, og hvaða ráð þeir geta séð til þess, að fleiri eða færri af þeim mönnum, sem áfengisbækur fá á löglegan hátt, misbeiti þeim ekki, er mér óskiljanlegt. Ég held satt að segja, að það séu engir möguleikar til að koma í veg fyrir það, að þeir misnoti þær. Ég held fyrir mitt leyti, a.m.k. ef talið er nauðsynlegt að hafa áfengisútsölu hér á landi, að bezt verði bæði fyrir ríkissjóð og fyrir borgarana, að áfengi hér sé sem mest selt eftir löglegum leiðum. Það vita allir, að á þessu er mikill misbrestur og að alltaf hefur meira og minna af áfengi verið selt ólöglega. En reynslan hefur sýnt, að því meiri hömlur sem lagðar hafa verið á söluna, því torveldara sem mönnum hefur verið gert að ná í áfengi á löglegan hátt, því meira hefur verið brotið. Mætti nefna í þessu sambandi, að tilraun var gerð með það á Siglufirði að loka áfengisverzluninni þar, þó þannig, að mönnum var ekki gert kunnugt um það áður, hvenær henni yrði lokað, til þess að mönnum gæfist ekki of langur tími til undirbúnings. En samt fór það svo, að sama daginn og verzluninni var lokað voru áfengisseðlarnir komnir á stað, og eftir því sem mér hefur verið sagt, var drykkjuskapur á Siglufirði nákvæmlega sá sami, eftir að verzluninni var lokað, og áður.

Ég held, að það eina, sem gert verður í þessu, meðan áfengi er selt, sé annars vegar það að gera ráðstafanir, og þá að sjálfsögðu með aðstoð ríkisins, til þess að lækna þá menn, sem hafa orðið áfenginu að bráð. Það verður að gera, og má vel vera, að ríkið komist ekki hjá því að leggja fram til þess meira fé en enn þá hefur verið gert. Hins vegar er það að styðja bindindisstarfsemi í landinu, því að ég hygg, að eina ráðið til þess að fá almenna borgara til þess að minnka neyzlu áfengis, sé þrotlaus bindindisstarfsemi og látlaus áróður gegn áfengisneyzlu. En hin leiðin, að ætla að halda mönnum í skefjum með valdi, hefur sýnt sig að vera máttlaus hér á landi. Nú er það síður en svo, að ég vilji, þrátt fyrir þessar aths., hindra það, að þessi uppástunga hv. flm. verði athuguð í n., álít bezt að gera það. En ég vænti þess, að sú n., sem fær málið til meðferðar og væntanlega verður fjvn:; kynni sér rækilega, áður en hún gerir till. í málinu, hvernig þessar hömlur, sem hér um ræðir, gáfust, þegar þeim var beitt á sínum tíma, og hagi till. sínum eftir þeirri vitneskju, sem fyrir liggur um það.