10.12.1946
Sameinað þing: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (4919)

269. mál, héraðabönn

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það eru þrjú ár síðan afgr. voru l. um héraðabönn. Þau l. heimila, að fram fari atkvgr. í þeim héruðum, þar sem Áfengisverzlun ríkisins hefur útsölur, og mættu kjósendur á þann hátt ákveða, hvort þeir vildu hafa áfengisútsölu eða ekki. Þær ríkisstj., sem farið hafa með völd síðan, hafa annaðhvort ekki talið sig hafa heimild til eða ekki séð ástæðu til að láta l. koma til framkvæmda. Þess vegna teljum við flm. þessarar till., að ekki sé annað fyrir hendi til að fá l. framkvæmd en að lagt sé fyrir ríkisstj. og henni falið að láta l. koma til framkvæmda. Leggjum við flm. til, að l. komi til framkvæmda 1. júlí 1947. Um það, að l. um héraðabönn komi til framkvæmda, hafa verið gerðar fjölmargar samþykktir í flestum félagasamtökum landsins, og áskoranir hafa verið bornar fram til Alþ. og ríkisstj. um þetta sama efni. Samt hefur þessi ósk ekki verið heyrð. Fyrir þessu þingi liggja nú 4 eða 5 þál., sem allar miða að því að reyna að draga úr áfengisbölinu, sem með ári hverju undanfarið hefur orðið ískyggilegra, og er það nú ískyggilegra en nokkru sinni fyrr. Ég tel víst, að hver þessara till. muni koma að einhverju gagni í þessu máli, og sennilega mundi það verða mest til bóta, ef allar yrðu samþ. En þó er það ljóst, að ekki yrði skorið fyrir rætur áfengisbölsins þrátt fyrir það. Flm. þessarar till. um héraðabönn gera sér vonir um það, að almenningsálitið gegn áfengissölu ríkisins sé það sterkt í ýmsum héruðum landsins, að ef kjósendur fengju þann sjálfsagða rétt sinn í hendur að ákveða, hvort áfengisútsala ætti að vera í viðkomandi héraði, þá mundu ýmsar útsölur vera niður lagðar að afstaðinni slíkri atkvgr. Ég er nokkurn veginn viss um það, að áfengisútsala ríkisins á Ísafirði mundi verða lögð niður samkv. vilja héraðsbúa, ef slík atkvgr. fengi að fara fram. Það þýddi, að Áfengisverzlun ríkisins hefði enga útsölu á Vestfjörðum. Ég tel enga hættu á því, að nokkurs staðar fyndist almenningsálit þar, sem samþykkti, að sett yrði á stofn önnur útsala í staðinn. Af þessu mundi leiða það, að miklu færri menn en nú slagsa inn í vínbúðina á Ísafirði hefðu tök á því að útvega sér áfengi frá aðalútsölunni í Reykjavík. Ef útsalan yrði lögð niður, hygg ég, að áfengisneyzlan yrði ekki eins almenn og hún er þar nú. Bölið af áfengisflóðinu á Ísafirði breiðist yfir alla Vestfirði. Í hvert skipti, sem bátur fer vestur á firði, Þingeyri eða Bíldudal; þá er almennt ölæði í bátunum og vínflutningar. (SK: Hvernig yrði það, þegar Esja kemur frá Reykjavík? ) Það má vera, að það yrði sama ástand. En svo mikið er víst, að ef Áfengisverzlun ríkisins þarf að koma þessari vöru ofan í landslýðinn, þá ætti Skipaútgerð ríkisins að duga til þessa. Fyrir kosningarnar í vor hreyfði Stórstúka Íslands enn einu sinni þessu máli, að fá l. um héraðabönn í gildi. Fyrirspurnir voru sendar frambjóðendum um það, hvort þeir vildu beita sér fyrir því, að l. um héraðabönn kæmu til framkvæmda. Um 50 frambjóðendur svöruðu þessum spurningum og nálega allir á einn veg, að þeir mundu vilja stuðla að því, að þessi l. kæmu til framkvæmda. Mjög margir þessara frambjóðenda, sem þannig svöruðu, eiga sæti nú á Alþ. Efast ég ekki um fylgi þeirra við þetta mál. Ég tel, að það muni vera skoðun margra í þessu landi, að það sé ósamboðið íslenzka ríkinu sem menningaríki að reka aðra eins verzlun og Áfengisverzlun ríkisins er. Af þessari verzlun leiðir, að fjöldamargir menn á þroskaskeiði fara í hundana, sumir úr hópi beztu manna þjóðarinnar, — og upp á þetta er horft, ekki aðeins í höfuðborg landsins, heldur í hverjum kaupstað á Íslandi. Vinnuafköst þjóðarinnar eru rýrð með drykkjuskap, en glæpir og sjúkdómar aukast. Löggæzlan verður erfiðari; og settar eru upp ýmiss konar stofnanir til þess að hamla á móti þeirri eyðileggingu, sem ofnautn áfengis hefur í för með sér. — En tekjur ríkissjóðs af þessum ófögnuði munu skipta svo mörgum milljónatugum, að enginn fjmrh. leyfir sér að hafa aðra skoðun en að þetta sé einn af hyrningarsteinunum undir fjárhagslegu sjálfstæði Íslands. Ég býst við, að það yrði erfitt hverri ríkisstj. að sjá af þeim milljónum, sem áfengisflóðið veitir í ríkissjóðinn, allt í einu. En hyggilegt held ég að væri, að Alþ. reyndi að gera fimm eða tíu ára áætlun til þess að reyna að losa sig við áfengistekjurnar og komast hjá því með öðrum ráðstöfunum að þurfa framvegis að byggja afkomuna á þessum blóðpeningum.

Það er, því miður, alveg vitað mál, að ríkissjóður verður ekki fyrir því áfalli að missa allar tekjur sínar af áfengissölu, þó að l. um héraðabönn komi til framkvæmda. En það er von mín, að eitthvað mundi kippa úr þessum tekjustofni við það — eitthvað. Ég geri ráð fyrir, að ef l. um héraðabönn kæmu til framkvæmda, við skyldum segja á Ísafirði og þar með á Vestfjörðum, og það gæfi þá raun, að það drægi úr drykkjuskap þar, þá mundi það efla og styrkja almenningsálitið gegn ofnautn áfengis í öðrum kaupstöðum, þar sem áfengisútsölur eru, og ef til vill verða til þess, að þær yrðu með sjálfsákvörðunarrétti kjósendanna smám saman lagðar niður fleiri og fleiri. En að síðustu þyrfti svo vitanlega að stíga það lokaspor að byrgja brunninn, aðaluppsprettuna hér í höfuðborginni, leggja niður alla áfengissölu á vegum ríkisins og innleiða þannig algert bann, því að um það verður ekki deilt, að á þeim tímum, sem bannlögin voru í fullu gildi, var þó áfengisneyzla í þessu landi margfalt minni en nú, og voru þó spádómar þeirra, sem frækilegast gengu fram í því að afnema bannlögin, á þá lund, að áfengisástandið mundi stórum batna, ef áfengissalan yrði gefin laus. Þeir spádómar hafa orðið sér til skammar og sprungið á spámönnunum.

Hér var verið að ræða um það áðan, að réttast væri, að vínveitingar á kostnað ríkisins og þess opinbera ættu sér ekki stað, þáltill. um afnám vínveitinga á kostnað ríkisins. Ég tel þá till. miklu meira virði en þess, sem sparaðist að því leyti, sem ríkið sparaði sér þá peninga, sem nú er varið í vín. Það er sjálfsagt ekki stórfé af öllum ríkisrekstrinum.

En það, sem af því mundi leiða, ef hver ríkisstj. teldi sér ekki sæma að veita vín af hálfu ríkisins, væri, að það mundi verka á almenningsálitið. Og það er alveg rétt, sem margir segja, þegar einhverjar till. um áfengismál eru til umr.: „Það þýðir ekkert að gera neinar ráðstafanir, það eina, sem nokkuð dugar, er að breyta almenningsálitinu.“ Og það þarf að gerast ofan frá. Þar þarf Alþ. að ganga á undan. En því miður er það nú einn liður í almenningsálitinu, að Alþ. Íslendinga sé eitt versta hreiður óhófseminnar við áfengisneyzlu og áfengisveitingar, og það eru margir sleggjudómarnir upp kveðnir þyngri heldur en þessi. Og meðan æðstu yfirvöld landsins og embættismenn finna ekki, að á sér hvíli þyngri skylda en enn þá virðist vera þeirra álit, er ekki við því að búast, að almenningsálitinu í landinu verði breytt. Meðan svo er, er allt tal um, að breyta þurfi almenningsálitinu í landinu gagnvart áfengisneyzlu, alveg út í hött. Nú er það svo, að það er fyrst og fremst alþýðan í landinu, sem reynir að berjast á móti áfengisbölinu, en fær ekki stuðning um þetta, svo sem vert væri, frá hinum æðstu í þjóðfélaginu, og reynslan er svo sú, að íslenzka þjóðin þjáist undir áfengisbölinu.

Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að hv. alþm. vilji ekki gera þá tilraun, sem hér er farið fram á, að heimila íbúum héraðanna, þar sem áfengisútsölur eru, að ákveða það með atkvgr., hvort þeir skuli hafa áfengisútsölu hjá sér í héraðinu — ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á því, að hv. alþm. tjái sig andvíga því. Þetta ætti ekki, þótt samþ. væri, að skerða neitt vilja þeirra manna í þessum málum, sem vilja hafa sem óheftasta verzlun með áfengi og hafa ekki trú á, að þetta dragi úr áfengisneyzlu, ef t.d. sú yrði raunin á, að þetta drægi ekki úr áfengisneyzlunni, því að yrði raunin sú, þá yrðu a.m.k. þeir, sem hafa trú á þessari leið nú, en vilja útrýma áfengisbölinu, að reyna aðrar leiðir til úrbóta með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengist af þeirri tilraun, sem hér er lagt til, að gerð verði. En svo mikið er víst, að bindindismenn munu aldrei hætta baráttu sinni á móti áfengisbölinu, meðan áfengisböl er fyrir hendi í þessu landi, og þeir verða að reyna að fá reynda hverja þá leið, sem þeir hafa nokkra trú á, að dragi úr áfengisneyzlunni. Ef svo tækist að vinna upp það almenningsálit, að öruggt þætti, að þjóðaratkvgr. gerði mögulega lagasetningu um bannlög í landinu, þá væri það vitanlega lokamarkið. En flestir telja, að nú þurfi að vinna mikið verk áður að því að draga úr áfengisneyzlunni og að styrkja almenningsálitið gegn þessu böli, áður en hægt er að leggja út í lokahríðina um algert bann.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. En ég trúi ekki öðru en Alþ. Íslendinga heimili, að þessi tilraun sé gerð til þess að fá úr því skorið með reynslunni, hvort ekki dragi eitthvað úr vínsölu og drykkjuskap úti um landið, þar sem áfengissala yrði samkv: þessari heimild að eigin vilja kjósendanna lögð niður.