10.12.1946
Sameinað þing: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (4921)

269. mál, héraðabönn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég var einn þeirra frambjóðenda, sem fékk fyrirspurn í vor um það, hvort ég mundi fylgja þessu máli, og svaraði ég ekki þeirri fyrirspurn, Ekki af því, að ég hefði ekki ákveðnar skoðanir um þessi mál, heldur af því, að ég tel ekki, að þetta verði til þess að þoka þjóðinni nær því takmarki að stemma stigu fyrir ofnautn áfengis í landinu. — Ég var á sínum tíma á móti héraðabönnum, og skoðun mín hefur ekki breytzt í því máli síðan. Og í sambandi við ummæli hv. 3. landsk. þm. vil ég benda honum á, að hann færði í raun og veru rök fyrir því, að héraðabönn kæmu ekki að notum. Vil ég ekki heldur gleypa það hrátt — eins og sagt var nýlega í hv. Ed. um annað mál —, sem hv. 3. landsk. þm. fullyrti um það, að sér væri kunnugt um, að á sérhverri höfn, þar sem djúpbáturinn kæmi á leið frá Ísafirði, og þá þar á meðal á Bíldudal, bæri mikið á drykkjuskap, eftir að djúpbáturinn kæmi þar. En á þessum stöðum eru ekki áfengisútsölur, heldur á Ísafirði. Ég held, að héraðabönn mundu nú ekki lækna þetta ástand, þótt satt væri frá þessu sagt. Því þó að þeir, sem heima eiga á þessum stöðum á Vestf jörðum öðrum en Ísafirði, fengju ekki vín sent frá Ísafirði, mundu þeir fá það flutt til sín frá öðrum stöðum á landinu. — Ég held, að þessi kafli í ræðu hv. 3. landsk. sé skýr rök fyrir því, að héraðabönn kæmu ekki að neinu gagni. — Hins vegar vil ég svo mótmæla þessu sem sannindum. Ég hef hvað eftir annað verið staddur á Bíldudal, þegar djúpbáturinn hefur verið nýkominn þangað, og aldrei orðið var við ölæði það, sem hv. 3. landsk. þm. talar um. En ef þetta væri rétt hjá hv. 3. landsk. þm., væri þá ekki réttast að minnka styrkinn við djúpbátinn eða taka hann af, ef það er starf hans að flytja brennivín milli hafna vestanlands. Ég held, að þessi hv. þm. ætti að leggja til, að styrkurinn verði bara tekinn af þessari brennivínstunnu, sem flytur vín — að hans sögn — á milli hafnanna þarna vestra.

Ég vildi svo í sambandi við þetta spyrja hv. 1. flm.: Telur hann, að skólarnir geti ekki haft áhrif í þessum málum, þ.e. til þess að hamla á móti ofnautn áfengis? Hefur hann ekki verið skólastjóri við unglingaskóla í mörg ár? Og hefur honum ekki orðið ágengt í að stuðla að því, að áfengisbölið verði minna í landinu? (HV: Jú, mér hefur orðið ágengt í því.) Væri þá ekki rétt að flytja þennan mann til annars skóla, þar sem hann gæti enn betur notið sín í þessu máli? — Ég hygg, að það verði farsælast fyrir þjóðina, að starf í þeim efnum að vinna á móti áfengisneyzlu í landinu verði rekin í gegnum starfsemi skólanna í landinu. Það hefur einnig verið byrjað á því að setja viðurlög við því, að menn starfi undir áhrifum áfengis, m.a. bifreiðastjórar, og þetta hefur verið fært út til skipstjóra. Það mætti kannske færa þetta yfir til allra stétta þjóðfélagsins, þannig að enginn maður í ábyrgðarstarfi megi vera við starf sitt undir áhrifum áfengis. Ég er ekki viss um, að þetta yrði áhrifaminna en að banna útsölu á áfengi á vissum stöðum, meðan ekki er sett algert innflutningsbann á áfengi.

Ég var því mjög fylgjandi, að styrkurinn til stórstúkunnar var tvöfaldaður á fjárl. yfirstandandi árs frá því, sem hann hafði verið. En ég hef því miður ekki séð þær vonir rætast, sem við þá, fjárveitingu voru bundnar, og ég hef því miður fengið staðfestingu á því, að ekki væri vanþörf á, einnig þar, að hreinsa til, ef ætti að fást nægilegur árangur af veitingu þess fjár, sem þar er um að ræða. Höfum við rætt um þetta í n., en ekki fengið fullvissu fyrir því, að vonir þær hafi rætzt, sem bundnar voru við þennan styrk, og ég hef rætt um þetta við menn, sem eru ráðamenn stórstúkunnar.

Ég mun fylgja þessu máli til n., en hins vegar ekki samþykkja till. endanlega fyrir mitt leyti, og er það ekki nema áframhald af því, að ég var á móti því á sínum tíma, að samþ. væru l. um héraðabönn.