10.12.1946
Sameinað þing: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (4922)

269. mál, héraðabönn

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Það hafa nú þegar heyrzt raddir frá Alþ. því, sem ekki vill heyra það nefnt, að ráðstafanir séu gerðar til þess að sporna á móti áfengisnautn. En raddirnar eru þannig, að það er eins og það sé einhver fugl í hreiðrinu, sem hv. þm. telji sig þurfa að verja.

Hv. þm. Vestm. talaði um það, að ég hefði flutt hér stúkuræðu. Það er vitanlegt, að með þessu orði er hann að gera tilraun til þess að niðra góðtemplarasamtökunum í landinu. Stúkuræður eiga að vera auvirðilegri en aðrar ræður eftir hans meiningu. Þetta er nóg til að gefa í skyn anda hv. þm. gagnvart þessu starfi, sem miðar að aukinni menningu í landinu og engum hv. þm. er sæmandi að kasta steini að.

Þegar ég segi, að það sé því miður þáttur í almenningsálitinu, að Alþ. sé eitt af áfengishreiðrunum í þessu landi, þá byggi ég það á því, að það hefur löngum verið svo og það er svo, að allt of margir alþm. hafa verið drykkfelldir menn. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Vestm. segir, að ég er ekki búinn að vera hér lengi á hæstv. Alþ. En ég er búinn að vera áhorfandi að því samt, að drukknir menn hafi haldið ræður hér í salnum. Þó að alþm. megi, eins og aðrir borgarar, fá sér í staupinu, ættu þeir ekki að geta haldið ræður á Alþ. drukknir. En af hverju snertir það ekki sómatilfinningu nokkurs manns, að þeir gera það? Það er af því, að það er ekki einsdæmi. Einsdæmin eru verst. Það færi ekki hjá því, að Alþ. Íslendinga hefði forystu í því að brjóta niður það almenningsálit, að drykkjuskapur sé fínn og að drykkjuskapur sé sjálfsagður og að ríkinu sé samboðið að verzla með áfengi, ef hv. alþm. væru þessu mótfallnir og það væri fyllilega samboðið alþm. að almenningsálitið í landinu verði andstætt drykkjusiðum og drykkjuskap. En það er síður en svo, að alþm. yfirleitt styrki þetta heilbrigða almenningsálit á þessu máli. Þeir eru fremur, því miður, á bandi hins rangsnúna almenningsálits í þessu efni, og mér duldist ekki, hvorum megin hv. þm. Vestm. var. Það er til gömul og ný reynsla fyrir því, hvernig Alþ. hefur tekið viðleitni bindindismanna í landinu, bæði góðtemplara og annarra. Undirtektirnar hafa verið tregða, og undirtektirnar hafa, því miður, verið andstaða — undir ýmsum yfirskinsástæðum eins og þeim, að þeir hafi ekki trú á, að þetta og hitt dugi. Ef þeim hafði verið alvara um það, að samt sem áður þurfi eitthvað að gera til þess að vinna á móti ofnautn áfengis, hvers vegna hafa þeir þá ekki komið með úrræði, sem duga? — Nei, alþm. hafa ekki beitt sér fyrir því að skapa heilbrigt almenningaálit á Íslandi viðvíkjandi drykkjuskap, og þess vegna hafa. drykkjumenn og drykkjuunnendur í landinu vitað, að þeir hafa átt ekki hvað sízt hauka í horni á Alþ. til andstöðu gegn því, að drykkjuskap yrði útrýmt úr landinu.

Ég tel, að það sé ágætur prófsteinn á það, hvort hæstv. Alþ. Íslendinga vill, að drykkjuskapurinn haldi áfram að aukast, eins og hann hefur gert undanfarin ár, eða hvort Alþ. vill, að gerð verði tilraun til þess að draga úr drykkjuskapnum í landinu, hverja afgreiðslu þessar till. fá, sem fyrir liggja nú hér á hæstv. Alþ. varðandi áfengismál. Ef þessar till. verða allar samþ., skal ég vera reiðubúinn til að játa, að nú sé viðleitni hafin á Alþ. til þess að verða við óskum þeirra manna í landinu, sem staðið hafa að þessum till. til þess að vinna að því að útrýma sem mest áfengisbölinu í landinu og áreiðanlega hafa alla bindindismenn í landinu að baki sér. En verði þær felldar, fleiri eða færri — kannske allar —, tel ég, að ég hafi nokkuð fyrir mér í því, að ekki sé ofmælt, að Alþ. Íslendinga hafi reynzt sá haukur í horni, sem um muni fyrir þá menn, sem drykkjuskap unna og vilja, að sá blóðugi ósiður haldist, að þjóðin drekki svo frá sér vit og manndóm sem verið hefur.

Hv. þm. Barð. lét í ljós þá skoðun sína, að héraðabönn séu ekki til bóta. Þetta er hans skoðun. Við hv. þm. Barð. og ég erum báðir þannig settir, að við erum hvorugur góðtemplari eða félagsbundnir í þessu máli, en við erum báðir bindindismenn. Og þar sem hv. þm Barð. neytir ekki víns sjálfur, býst ég við, að hann hafi tekið þá ákvörðun og afstöðu af því, að hann hafi ekki talið það sér til gagns eða sóma að drekka sig fullan við og við, þó að sumir aðrir muni álíta svo. Og ég þykist vita, að hann vilji gera á hverjum tíma það, sem hann telur rétt, til þess að draga úr drykkjuskap. Ég vil vænta þess bezta af honum, af því að ég veit, hvaða afstöðu hann hefur til þessara mála. En ég vil þá biðja hann einnig að líta á það, að það er nokkru greiðari aðgangur að víni fyrir drykkfelldan mann, ef hann veit, að vín er fáanlegt innan við næstu dyr, og hann hefur til þess aura að kaupa það, að ganga þá inn í vínbúðina, sem er á staðnum, þar sem hann er staddur, til þess að kaupa vín, svala löngun sinni og eyða fé sínu, heldur en ef hann þarf, áður en hann fer á fyllirí, að bíða í tvær til þrjár vikur eftir víninu, sem hann hefði pantað, sem hann sem Vestfirðingur t.d. yrði að gera, eins og samgöngurnar eru hjá okkur á Vestfjörðum. Ég er alveg viss um, að það yrðu miklu færri, sem legðu á sig þá fyrirhöfn að fara að útvega sér áfengi, heldur en þeir, sem falla fyrir þeirri freistingu að fara inn í búð. Ég er þess vegna alveg sannfærður um, að þótt þetta yrði ekki til að fyrirbyggja drykkjuskap, þá yrðu þeir færri, sem drykkju.

Ég vil þó taka það fram, að ég hef alveg sérstaka trú á héraðabönnunum í sambandi við aðra till., till. um skömmtun áfengis. Ég tel, að það ætti að samþykkja þessa till. og jafnframt till. um skömmtun, því þegar menn geta ekki fengið nema tiltölulega lítið af áfengi í einu, ættu þessar till. báðar saman að geta komið að gagni. Þeir, sem hafa góðan vilja í þessu efni og vilja reka slyðruorðið af Alþ., ættu að gera þá tilraun að samþykkja báðar þessar till. — og svo náttúrlega þá till., að hið opinbera standi ekki sjálft fyrir drykkjuskap. (GJ: Ég mótmælti því, að nokkuð meira bæri á drykkjukap, eftir að djúpbáturinn hefði verið á ferðinni. Og það er spurning, hvort þetta getur ekki haft áhrif á styrkinn.) Ég vissi ekki, að styrkurinn væri bundinn við vissan flutning, en ef það er svo, að styrkurinn ætti að hverfa, já, þá það. Ég veit ekki, nema það væri hagnaður fyrir ríkið.

Eitthvað var hv. þm. Barð. að brýna mig með því, að ég ætti að reyna að hafa áhrif í mínum skóla. Það hef ég gert, og ekki alveg árangurslaust. Ég veit, að margir góðir kennarar reyna þetta og þeim verður venjulega ágengt í þessu efni, enda hafa margir þeirra manna, sem berjast gegn áfengisnautn, tekið þessa stefnu í skóla. Hann var að tala um, að æskilegt væri að flytja mig á einhvern stað, þar sem vænta mætti árangurs í þessu efni. Það væri þá helzt að skipta og flytja mig að stærri skóla — og þakka ég honum fyrir það, ef hann meinar eitthvað með því og hefur aðstöðu til þess. En ég sé ekkert réttlæti í því, að jafnframt því, sem skólarnir eru að reyna að draga úr áfengisnautn, hafi ríkið á boðstólum áfengi, sem einmitt er verið að aftra mönnum frá að nota. Í því virðist liggja bein viðleitni til þess að gera þetta starf kennaranna að engu, og mér virðist það fullkomlega réttmætt, að fyrrverandi og núverandi nemendur mínir fái aðstöðu til þess að ákveða með atkvgr., að áfengið skuli hverfa úr bæjarfélaginu.

Bindindisstarfsemi gagnfræðaskólans á Ísafirði hefur ekki bundið sig við áfengisnautnina eina. Við höfum reynt að halda uppi bindindi á tóbak. Ég held, að mjög fáir unglingar innan tvítugsaldurs reyki á Ísafirði, og það er einkum tvennt, sem hefur þau áhrif. Það eru skólarnir og íþróttastarfsemin. Og sem betur fer — þótt drykkjuskapur sé mikill á Ísafirði — þá er hann þó minni en víða annars staðar. Í verkalýðsstéttinni er varla til drykkjumaður, vegna þess að verkalýðsfélögin hafa ekki talið það fyrir neðan sína virðingu að vinna gegn drykkjuskap, og ef önnur félagasamtök hefðu gert það sama, er áreiðanlegt, að búið væri að skapa heilbrigðara almenningsálit í þessum málum en enn hefur tekizt.

Að því er snertir Alþ., tel ég, að vilji hv. þm. komi bezt fram í atkvgr. um þetta mál, og mun ég veita því athygli, hvernig þeir greiða atkv., og dæma afstöðu þeirra eftir því.