10.12.1946
Sameinað þing: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (4924)

269. mál, héraðabönn

Jóhann Jósefsson:

Það fór sem mig uggði, að hv. þm. yrði ósannindamaður að þeim fullyrðingum sínum, að Alþ. væri mesta gróðrarstía áfengisnautnar í landinu. Það var eftir af þm. að koma með sannanirnar, sem ég lýsti eftir, og undrar mig það ekki. — Það gladdi mig að heyra í ræðu hans, að hann er ekki skipulagsbundinn bindindismaður (HV: Ekki skipulagsbundinn, en ég teldi mér ekki vansæmd að því.) Það er gott, því að góðtemplarareglunni er ekki gagn að slíkum málflutningi. Hann kvartar um rangsnúið almenningsálit, en því verður ekki breytt með því að koma með getsakir um heila hópa landsmanna, hvort sem þeir eru utan þings eða innan, en það var uppistaða þessa máls hjá þessum sjálfboðaliða bindindissamtakanna í landinu.

Þm. getur ekkert um það sagt, hvort ég er á móti þessari till. eða ekki. Ég hef ekkert um það sagt. Ég hef aðeins vandað um við hann vegna málsmeðferðar hans. Hitt er það, að áfengisbölið er meira en svo, að alþm. yfirleitt séu rétt spegilmynd af því, hvernig áfengismálum þjóðarinnar er komið, því ef svo væri, ef alþm. væru rétt spegilmynd af áfengisnautn þjóðarinnar, væru ekki umr. um þessi mál einu sinni nauðsynlegar hér. En við höfum svo mikið af ræðum úr munni þeirra manna, sem ekki býður við glasi, ef þeim stendur það til boða, og eru með ásakanir í garð annarra, en eru bara sjálfir rétt eins og gerist og gengur. Þessi þm. heldur víst, að við höfum aldrei heyrt talað um áfengi á þingi, fyrr en hann kom hingað. Jú, við höfum heyrt talað um það af viti og sanngirni og án þess að ráðizt væri með offorsi og svívirðingum á sérstaka menn. En það var ekki hans háttur. Hann vill orða það svo, að samkv. almenningsálitinu sé Alþ. gróðrarstía áfengisnautnar í landinu. Þetta er með öðrum orðum frásagnarmáti Gróu gömlu á Leiti og hennar líka, sem hafa það fyrir sið að segja: Ólýginn sagði mér. Menn af hans skúffu hafa það fyrir sið að segja, að fólkið líti svo á, alveg út í bláinn. Þessi þm. leyfir sér að bera það á almenning, að hann álíti Alþ. verstu gróðrarstíu áfengisnautnar í landinu. Það var nógu vont að hafa það fyrir sín orð, en að klína almenning út á því er þó verra. Það getur vel verið, að almenningur hugsi eitt og annað um þm., en að almenningur álíti þá drykkfelldari en aðra menn — það veit ég, að er rangt, og ég veit, að þm. getur ekki sannað, að hann hafi heyrt það. Hann segist hafa séð vín á þm. hér. Þeir eru nú yfir 50, og hann er búinn að dveljast á meðal þeirra síðan í október í haust. Gefur það honum tilefni til þess að bera þetta á alla þm.?

Svo vil ég að lokum, án þess að fara frekar út í þetta mál, benda þeim mönnum á það, sem í alvöru hugsa um að bæta úr áfengisbölinu í landinu, að þeir verða að koma fram í málinu á þann hátt, að sýnilegt sé, að frá þeim sé að vænta einhverra umbóta, en ekki bara, að þá langi til að kasta einhverjum óhróðri og skömmum að öðrum og jafnvel heilum hópum manna í landinu. Það var þetta, sem kom svo greinilega fram í ræðu hv. þm., að honum var hin mesta nautn í því að skamma þm. fyrir áfengisnautn. En það er hinn mesti misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að þetta geri eitthvert gagn, í fyrsta lagi af því, að þm. þekkja hver annan, og í öðru lagi af því, að þótt hann virðist ímynda sér, að menn geti hér innan þinghelginnar farið með staðhæfingar án þess að sanna, að þeir fari með rétt mál, þá hefur hann nú verið krafinn um sannanir, en hann á eftir að koma með þær.