17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (4932)

269. mál, héraðabönn

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur haft þessa till. til athugunar, og hefur meiri hl. hennar skilað áliti á þskj. 526. Hv. 2. þm. Skagf. (JS) er mótfallinn till., en hv. þm. N-Ísf. (SB) var fjarstaddur. Hv. 1. þm. Árn. (JörB) og hv. 1. þm. Eyf. (BSt) hafa skrifað undir nál. með fyrirvara.

Meiri hl. n. er ásáttur um að leggja til, að þáltill. á þskj. 127, um að fela ríkisstj. að láta l. nr. 26 frá 1943, um „héraðabönn“, koma til framkvæmda , eigi síðar en frá 1. júlí 1947, verði samþ. Ástæðurnar fyrir þessari till. n. er að finna í nál. á þskj. 526, og þá einkum, hve áfengisneyzla hefur farið vaxandi hin síðari ár. Við vorum lengi í flokki hinna bindindissamari þjóða, en erum nú komnir í flokk þeirra þjóða, sem neyta mikils áfengis.

Saga þessa máls sýnir það, að á árunum, sem þjóðin var bindindissöm, hefur framtakssemi hennar aukizt mjög verulega. Ég tel rétt að rekja mikinn hlut þeirra átaka, sem þjóðin hefur gert til framfara, til bindindissemi hennar. En nú mun heldur farið að fara aftur, því að margir Íslendingar eru nú mjög miður sín vegna áfengisdrykkju. Ég segi þetta sem einstaklingur, en ekki sem frsm. n., því að nm. fylgja till. af ýmsum ástæðum.

Heimildin um héraðabönn er í l. nr. 26 frá 18. febr. 1943, og þar er svo ákveðið, að ríkisstj. sé heimilað að setja upp áfengisútsölur í kaupstöðum og kauptúnum, og skal þá fara fram atkvgr. allra kosningabærra manna um það mál. Þetta ákvæði er í fullu samræmi við þá atkvgr., sem fór fram um aðflutningsbann á áfengi á sínum tíma, þar sem tekið var fullt tillit til vilja meiri hl. kjósenda um að fella l. úr gildi, og því rétt að láta atkvgr. einnig skera úr því, hvort útsala skuli leyfð á ákveðnum stöðum eða ekki. Á þann hátt kemur réttur vilji kjósenda bezt fram.

Nú má segja, að löggjöf um þetta efni hafi ekki mikla þýðingu. Því hefur verið haldið fram, að aðrar utanaðkomandi ástæður valdi hér meiru um, og má það til sanns vegar færa. En ég held, að skylda löggjafans sé að styðja bindindissemi með löggjöf sem bezt. Áður en bannlögin voru sett, var áfengi selt í flestum verzlunum. Neyzla þess keyrði þá svo úr hófi fram, að rétt þótti að setja takmarkanir fyrir sölu þess, (BSt: Það var alveg að hverfa.) og ég held, að þær takmarkanir hafi unnið mikið gagn. Hv. 1. þm. Eyf. segir, að áfengið hafi verið alveg að hverfa. Það er ekki rétt, en við getum verið sammála um það, að mikið var farið að draga úr því vegna bindindisstarfsemi og löggjafar.

Ég tel ólíklegt, að nú sé hægt að setja áfengisbann, en vil þó ekkert um það segja annað en það, að það er ekki gerlegt gegn vilja mikils þorra kjósenda, sem ætla má, að nú sé á móti banni. En það má takmarka hina gegndarlausu áfengisneyzlu, og þær takmarkanir þurfa að vera í samræmi við álit kjósenda, ef þær eiga að koma að gagni. Það hafa víða frá komið kröfur um, að l. þessi komi til framkvæmda, bæði frá félögum og bæjarstjórnum. Það er því í fullu samræmi við vilja ýmissa þeirra, sem ekki eru bannmenn, að Alþ. styðji bindindi á þennan hátt, og það eru mikil líkindi til, að þessi löggjöf sé í samræmi við vilja meiri hl. kjósenda víða á landinu. Sumir halda, að svo sé ekki, en það kemur þá í ljós við atkvgr., og ég tel, að í þessum málum sem öðrum sé rétt, að meiri hl. kjósenda ráði. Það er talað um, að l. þessi brjóti í bág við ýmislegt annað í l. Því hefur og verið haldið fram, að þessi l. brytu í bág við verzlunarsamninga við önnur ríki, t.d. Spán, engin verzlun er nú á milli þessara landa, og engar líkur benda til þess, að verzlunarsamband verði tekið upp að nýju milli þessara landa. Er því firra að halda slíku fram. Nazistarnir viðurkenna heldur ekki lýðveldi Íslands og hafa neitað að taka á móti íslenzkum sendimanni ríkisstj. Því er ekki nema sanngjarnt, að íbúarnir ráði því sjálfir, hvað gerist í þeirra eigin kaupstað, og að þessi till. nái fram að ganga.