23.05.1947
Sameinað þing: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (4939)

269. mál, héraðabönn

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta mál var tekið af dagskrá og umr. frestað. Till. er stutt og virðist í fljótu bragði, að sanngjarnt sé, að menn fái að greiða atkv. um hana. Grg. fyrir þessari till. er hins vegar alllöng, og er hún meira skrifuð sem áróður en sem upplýsingar um málið. Mörg orð eru þar stór, og mun reynast erfitt fyrir hv. flm. að standa við þau. M.a. er sagt, að það sé smánárblettur á hinu íslenzka lýðveldi, að ekki skuli vera hér áfengisbann, og sannast hér, að menn eru oft harðir að dæma, hvað sé sómi og hvað ekki. Hins vegar skal það tekið fram, að ein voldugasta þjóð heimsins, Bandaríkin, settu á sínum tíma vínbann hjá sér, en þau munu líta svo á nú, að það hafi verið þjóðinni til smánar. Hér er aftur sagt, að hið gagnstæða sé til smánar. Það er erfitt að rökstyðja, að það dragi úr athöfnum okkar, ef við erum ekki bindindismenn. Ég þekki ýmsa sæmilega bindindismenn, en flestir athafnamenn hafa ekki verið það. Alveg það sama á við á hinu andlega sviði, að flestir, sem þar standa framarlega, svo sem skáld og stjórnspekingar, hafa ekki verið bindindismenn. Það þýðir ekki að vera að koma með sleggjudóma, eins og koma fram hjá hv. flm., og væri auðvelt að láta þar ekki stein yfir steini standa. Svo að segja allir embættismenn í þessu þjóðfélagi eru ekki bindindismenn, flestallir, sem standa upp úr, eins og kallað er, hafa alls ekki verið bindindismenn.

Ég get ekki skilið svo við málið, að ég minnist ekki á málið almennt. Eru það þá nokkur atriði í framsöguræðu hv. frsm., sem að vísu var alveg stóryrðalaus, en þó voru þar hlutir, sem alls ekki gátu staðizt.

Hann sagði t.d., Ísland neytir meira áfengis en aðrar þjóðir. Það vill nú svo til, að það er alveg nýlega búið að birta skýrslu frá forstjóra áfengisverzlunarinnar um vínneyzlu ýmissa þjóða, þar á meðal Íslendinga, og virðist neyzla Íslendinga vera nokkru minni en nágranna okkar, og virðist það því ekki ná nokkurri átt, að menn hér á hv. Alþ. algerlega órökstutt, án þess að koma með nokkrar tölur, slái því föstu, að Íslendingar drekki meira en aðrar þjóðir.

Þá sagði hv, frsm. þessi orð, sem ég skrifaði upp eftir honum: Áður en bannið var sett hér á landi, var á hverjum einasta veitingastað á Íslandi veitt áfengi og neyzla þess gekk svo úr hófi að ekki mátti standa aðgerðalaust. — Mér er alveg eins vel kunnugt og hv. frsm., hvernig þetta ástand var, til dæmis í því byggðarlagi, sem næst mér var, að þar var ekkert áfengi selt á veitingastöðum, þegar bannið var sett. Þegar bannið var sett, var ekki selt áfengi á veitingastöðum á öllu svæðinu frá Akureyri til Austfjarða. Og vínneyzla á þeim svæðum, sem ég þekkti, var sáralítil.

Þá sagði hv. frsm. út af því, hvort við mundum eitthvað skuldbundnir af þeim samningi, sem við einu sinni gerðum við Spánverja, að engin líkindi væru til þess að viðskipti yrðu hafin aftur milli Íslands og Spánar. Þetta er algerlega órökstutt og ákaflega óeðlilegur hlutur, a.m.k. vitum við, að Spánn var eitt hið mesta viðskiptaland okkar um fjöldamörg ár og jafnframt eitt hið bezta. Spánverjar greiddu alltaf okkar höfuðútflutningsvöru með hærra verði en flestar aðrar þjóðir, og ég held, að fjöldi Íslendinga bíði þess með óþreyju að getá samið við þetta viðskiptaland okkar aftur. Hins vegar vil ég ekki leggja neinn dóm á það, hvort sá viðskiptasamningur, sem þarna var gerður, hefur nokkurt gildi, né heldur, hvort Spánverjar mundu með nýjum samningi setja svipuð skilyrði og þeir áður settu, en eins og við vitum, þá eru vín eitt af aðalútflutningsvörum þeirra, en hjá þessari menningarþjóð er litið öðrum augum á þetta vín, sem hv. flm. telur, að sé þjóðarsmán að neyta. Á þessu má sjá, að sínum augum lítur hver á silfrið. (Forseti: Má ég spyrja, hvort hv. þm, eigi langt mál eftir. Ef svo er, verð ég að fresta þessari umr.) Eins og hæstv. forseti veit, er ég að byrja á minni ræðu. En að sjálfsögðu verður að fresta umr., ef hæstv. forseti óskar þess. [Frh:]