29.10.1946
Sameinað þing: 5. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

12. mál, fjárlög 1947

Eysteinn Jónsson:

Fjárlagafrv. þetta er hið langsamlega hæsta, sem nokkru sinni hefur verið lagt fyrir Alþ. Heildarútgjöldin eru áætluð um 162 millj. kr. Því fer þó alls fjarri, að þar komi öll kurl til grafar. Margir liðir í frv. eru sýnilega of lágt áætlaðir og hljóta að verða mun hærri í framkvæmd.

Í frv. er reiknað með vísitölu 290, en meðan verið var að prenta frv., hefur hún skotizt upp í 302 stig.

Í frv. er enginn eyrir ætlaður til dýrtíðarráðstafana, eins og hæstv. ráðh. hefur tekið fram, og er þó þannig ástatt, að milljónatugi mun þurfa úr ríkissjóði, að öllu óbreyttu, til þess að halda dýrtíðinni fastri, þar sem hún er nú. Þá vantar augsýnilega inn í frv. ýmislegt, sem þó er verið með á prjónunum, svo sem útgjöld til fjárskipta, til kaupa á strandferðaskipum, til óvenjulegra símaframkvæmda, til landshafnar, sem lög hafa verið sett um, til Austurvegar, sem lög hafa einnig verið sett um, til framkvæmda í Höfðakaupstað. Eru þetta þó aðeins dæmi um það, sem ekki er meðtalið. Loks er augljóst, að inn í frv. verður ýmsu bætt eftir till. frá einstökum þm.

Mér þykir því ekki líklegt, að samkvæmt þeirri stefnu, sem þetta frv. markar, verði ríkisútgjöldin undir 200 millj. kr. Raunverulegur greiðsluhalli á frv. virðist því vera margir milljónatugir, en ekki 22 millj., eins og frv. segir. „Hvar á að taka þetta fjármagn?“, mun margur spyrja. Lítil svör hafa við þeirri spurningu fengizt frá hæstv. fjmrh., og hefði honum þó verið skylt að gera grein fyrir því, á hverju hann byggir frv. sitt og tillögur um fjármálastefnuna.

Það eina, sem hæstv. ráðh. hefur um þetta stórfellda vandamál að segja, er það, að tekjuáætlun fjárlagafrv. sé miðuð við jafnmikinn innflutning tollhárra vara og verður á þessu ári og aðrir tekjuliðir eftir því. En er þetta óhætt, þegar þess er gætt, hvernig innflutningur þessa árs étur upp mestan hlutann af hinum stórfellda gjaldeyrisforða þjóðarinnar? En að því mun ég víkja síðar.

Fjmrh., sem leggur fyrir þetta frv., á því eftir að gefa svör við því, hvar hann ætlar að taka fé til þess að vega upp hallann á frv. og til dýrtíðarráðstafana, en ef ráðh. ætlast ekki til þess, að ríkissjóður annist neinar dýrtíðargreiðslur, þá hlýtur hæstv. ráðh. að gera till. um það, hvaða leið skuli fara í staðinn.

Þess er getið í grg. frv., að hallinn á fjárlagafrv. stafi aðallega af útgjöldum þeim, sem ýmis lög frá síðasta Alþ. hafa í för með sér. Sést nú glöggt, að það er rétt, sem framsóknarmenn héldu fram, þegar þessi lög voru sett, svo sem alþýðutryggingalögin o.fl., að hlunnindin, sem veita skal samkvæmt löggjöfinni, eru enn sem komið er ekki til nema á pappírnum. Það er einnig ljóst, að lögin verða aldrei annað, en pappírsgagn, ef ekki verða gerðar ráðstafanir til bjargar út úr því öngþveiti, sem búið er að skapa.

Stefna stjórnarmeirihlutans á síðasta þingi var sú að knýja fram fyrir kosningar dýra lagabálka, láta þá öðlast gildi 1. jan. n.k., og framhaldið er nú orðið það, sem vænta mátti. að allri súpunni er fleygt í þingið, án nokkurrar forustu frá þeim, sem gumuðu mest af löggjöfinni. Þeir, sem vöruðu við þessum vinnubrögðum þá og vildu láta fylgjast að löggjöf og fjáröflun, voru kallaðir fjandmenn nýtilegrar löggjafar af lýðskrumurum og kosningaþjónum þeirra.

Þetta fjárlagafrv. sýnir, að framsóknarmenn höfðu rétt fyrir sér, þegar þeir héldu því fram, að stefna núverandi ríkisstj. hlyti að leiða til síhækkandi fjárlaga, síhækkandi skatta, stórkostlegs halla á ríkisrekstrinum og að lokum samdráttar og stöðvunar á framkvæmdum og starfsemi ríkisins. Eða gera menn ráð fyrir því, að það verði auðvelt að halda uppi 200 millj. kr. ríkisútgjöldum og þar yfir ár eftir ár?

„Hvað á nú að gera?“ spyrja menn. Ég mun víkja ofurlítið að því síðar, hvað mér finnst. En ég held, að óhætt sé að segja það strax, að almenningur í landinu muni ekki sætta sig við nýjar álögur ofan á það, sem fyrir er, án þess að hreinsað sé til í því spillingarfeni, sem myndazt hefur á undanförnum árum.

Það er ekki tækifæri hér til þess að minnast mikið á einstaka liði fjárlagafrv. En ég get ekki stillt mig um að minnast hér á eitt atriði, sem gefur ofurlitla hugmynd um, hvernig á er haldið.

Árið 1943, en þá var vísitalan komin yfir 280 stig. reyndist kostnaðurinn við stjórn landsins, þ.e.a.s. 10. gr., 1.738.000 kr., en á þessu fjárlagafrv. er áætlað til þessara þarfa kr. 4.127.000 og fer þó áreiðanlega fram úr áætlun, eins og vant er. Þessi kostnaður hefur því hækkað á tveimur árum um 2.400.000.00 — og meir en tvöfaldazt. Hér við mætti bæta, að kostnaður við nýbyggingarráð var á síðasta ári 509 þús. kr., við viðskiptaráð kr. 1.628 þús., eða kr. 2.137 þús. kostnaður við þessar tvær nefndir.

Fyrir tveim árum var samþykkt hér á Alþ. þáltill. um endurskoðun á starfsmannakerfi ríkisins með það fyrir augum að gera starfræksluna óbrotnari og ódýrari. Þessi ályktun hefur verið gersamlega hundsuð af ríkisstj., en í þess stað stefnt í öfuga átt með þeim geysihraða, að furðu gegnir.

29. nóv. 1943 var samþ. þál., þar sem Alþ. fól ríkisstj. að láta prentaða starfsmannaskrá ríkisins fylgja frv. til fjárlaga ár hvert. Þessi ályktun þingsins hefur einnig verið gersamlega að engu höfð af fjmrh., enda mun hæstv. ráðh. vera það vel ljóst, að það mundi ekki koma sér vel fyrir ríkisstj. að láta slíka starfsmannaskrá koma fyrir augu þm. og almennings. Eða hvers vegna hefur hæstv. ráðh. ekki farið eftir fyrirmælum Alþ. um þetta? Vill hann ekki gera grein fyrir því hér nú við umræðuna?

Það er nú svo komið, að ríkisútgjöldin eru orðin nærfellt tíföld á við það, sem þau voru fyrir stríð. Vísitala ríkisútgjalda er 900–1.000 — en framfærsluvísitala er 302 — þykir mönnum nóg um hana.

Samt var svo á árunum fyrir stríðið, að fulltrúar þess flokks, sem undanfarið hefur farið með fjármálastjórnina. stóðu þá nötrandi af geðshræringu við hverjar fjármálaumræður á Alþ. og gerðu hróp að fjármálastjórninni fyrir hin gífurlega háu fjárlög. Þeir bentu á eina leið út úr öngþveitinu, og það væri synd að segja að sú leið hafi ekki verið reynd. Leiðin var sú, að fela þeim sjálfum fjármálastjórn ríkisins, og hana hafa þeir nú haft samfleytt síðan 1939. eða í 7 ár.

Hvernig hefur þá þetta úrræði gefizt?

Fjmrh. sjálfstæðismanna hafa svo sem ekki þurft að glíma við neina kreppu. Ekki alveg. Ef við tökum síðustu 4 árin, að meðtöldu því, sem nú er að líða, þá mun láta nærri, að þeir fái í ríkissjóðinn á þessum árum um 580 millj. kr., eða allt að því hálft annað hundrað milljónir að meðaltali á ári. Og hver er svo útkoman? Hún er sú, að allt þetta gífurlega fjármagn, sem nemur nærfellt tiföldum tekjum ríkissjóðs, eins og þær voru fyrir stríð, hefur runnið í gegnum greipar þeim, og fjmrh. Sjálfstfl. stendur hér nú á Alþ. í lok þessa tímabils og hlýtur að viðurkenna, að það er stórkostlegt þjóðfélagsvandamál, hvernig fleyta skuli ríkissjóði næstu mánuði, og öll þjóðin hugsar til þess með kviða, hvernig takast muni.

Lítum þá næst á gjaldeyrisástandið. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, voru gjaldeyrisinnstæður bankanna um 575 millj. kr., en 1. okt. s.l. voru þær komnar niður í 295 millj. Lækkun á tímabilinu er því 279 millj. kr. Til 1. okt. s.l. hafa bankar landsins fengið inn til sín um 610 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Á þessu tímabili, þessum 2 árum, hafa því verið greiddar út í erlendum gjaldeyri 889 millj. kr., en það er ekki allt þar með sagt, því að hér við bætist, að búið er raunverulega að ráðstafa nærri öllum þeim gjaldeyri, sem inni stóð á gjaldeyrisreikningi bankanna 1. okt. s.l. Þetta þýðir það, að á þeim 2 árum, sem ríkisstj. hefur farið með völdin, hefur verið ráðstafað nærri 1 milljarði og 200 millj. kr. í erlendum gjaldeyri, eða að meðaltali allt að því 600 millj. kr. á ári.

Á þessum 2 árum hefur því verið notaður jafnmikill gjaldeyrir og þjóðin varð að láta sér nægja í 15–20 ár fyrir stríðið. Hér við bætist, að aðeins 300 millj. af allri þessari fúlgu hafa verið notaðar til þeirra hluta, sem með nokkru móti var hægt að heimfæra undir hina svokölluðu „nýsköpun“ eða nýbyggingar. Allt hitt hefur, að því er bezt verður séð, runnið til þess að greiða aðrar vörur og í margháttaða aðra eyðslu. því fer einnig alls fjarri, að öllum þessum 300 millj. hafi verið varið til þess, sem með nokkru móti getur kallazt „nýsköpun“. Þvert á móti mun margt furðulegt hafa verið af því fé borgað, og kæmi það í ljós. ef skýrslur fengjust um það birtar, en á því á þjóðin heimtingu.

Nú er þannig komið þessum málum, að það hefur ekki einu sinni verið hægt að leggja á nýbyggingarreikning allan gjaldeyri, sem þangað átti að renna lögum samkvæmt, og af innstæðunum 1. okt. á nýbyggingarreikningur raunverulega 70 millj. kr., sem ekki virðist vera hægt að færa þangað af þeirri einföldu ástæðu, að þær verða að notast til annars. Tíðindin um gjaldeyrisástæðurnar eru geigvænleg, og hafa ekki önnur verri ótíðindi borizt um langa hríð. Þetta ætti þó ekki að koma mönnum mjög á óvart, því að það var upplýst á s.l. vori. hvernig þessi mál stóðu og hvert stefndi, en því var þá kröftuglega mótmælt af valdhöfunum, að nokkur ástæða væri til gagnrýni, þótt síðar hafi reynzt ókleift að leyna því, hvernig komið er.

Gjaldeyrisinnstæðum þjóðarinnar, sem hún ætlaði að hafa að bakhjalli á næstu árum og nota fyrst og fremst til uppbyggingar atvinnulífsins. hefur verið sóað gegndarlaust og planlaust. Og það er ekki annað sjáanlegt, en að Íslendingar verði neyddir til þess að taka gjaldeyrislán innan tiltölulega stutts tíma, ef ekki verður alveg breytt um stefnu, eða þá að óvænt höpp komi fyrir.

Ég sagði áðan, að gjaldeyrisinnistæðunum hefði verið sóað planlaust. Það kveður svo ramt að þessu, að ekki einu sinni þeim 300 millj. kr., sem lagðar voru á nýbyggingarreikning, hefur verið varið með nokkurri fyrirhyggju. Í lögum um nýbyggingarráð stendur, að nýbyggingarráð skuli gera áætlun um framkvæmdir á næstu árum. En nú er þannig komið, að gjaldeyririnn, sem nýbyggingarráð fékk til ráðstöfunar með upphaflegu lögunum, er búinn, en áætlunin er ekki til ennþá.

Þessi gífurlega gjaldeyrissóun er bein afleiðing stjórnarstefnunnar. Afleiðing handahófsins í framkvæmdum, stjórnleysisins á fjárfestingunni, vaxandi verðbólgu, beinna ráðstafana til þess að láta úti gjaldeyri fyrir fánýta hluti og síðast, en ekki sízt afleiðing þess, að fjáröflun til framkvæmdanna hefur verið vanrækt.

Ég hef minnzt á fjárl. og gjaldeyrisástandið. En hvernig er þá ástatt um aðra þætti fjárhagsmálanna?

Eins og við stjórnarandstæðingar bentum á s.l. vetur, þá gafst ríkisstj. upp við það þegar í byrjun að afla fjár til svokallaðrar „nýsköpunar“. Þessu var mótmælt þá og reynt að leyna því til bráðabirgða með því að skylda þjóðbankann til þess að lána, vissa fúlgu í eina grein atvinnulífsins, sem sé til þess að lána út á innflutt skip og báta. Þetta var aldrei nein fjáröflun, aðeins keyptur gálgafrestur. Og það hefur aldrei nein fjáröflun til svokallaðrar „nýsköpunar“ átt sér stað, þótt digurbarkalega væri talað inn á grammófónplötuna fyrir réttum tveimur árum síðan. Það, sem þá var sagt um „rottuholur“ og „breið bök“, er nú haft að gamni um gervallt landið, og er þó beiskja í gamninu, sem von er til.

Stríðsgróðinn og verðbólgugróðinn hefur verið látinn leika laus og engar nýjar ráðstafanir gerðar í þeim efnum. Niðurstaðan af þessari ráðsmennsku er sú ein, sem hún hlaut að verða: Stofnlánadeild sjávarútvegsins vantar fé, af því að ekki hefur tekizt ennþá að selja bréf hennar á frjálsum markaði. Þeir menn standa nú í vandræðum víðs vegar um landið, sem hafa lagt í fyrirtæki í trausti þess að fá lán frá þessari stofnun. Lánsfjáröflun til hafnarframkvæmda og raforkuframkvæmda er stöðvuð af sömu ástæðum. Byggingarfélögin geta ekki fengið lán með ríkisábyrgð, og í skjóli þessa ástands er kominn upp svartur lánamarkaður með okurvöxtum.

Með handahófsframkvæmdum sínum, úrræðaleysi í dýrtíðarmálum og forgöngu um hamslausa eyðslu á öllum sviðum hefur ríkisstj. komið öllu fjármálakerfi landsins á ringulreið, fyllt menn vantrausti á því og þar með spillt fyrir lánsfjáröflun til nauðsynlegustu framfara á frjálsum markaði. Jafnframt hefur verið vanrækt að gera ráðstafanir, sem gætu orðið til þess, að eitthvað af hinu lausa fjármagni næðist með öðru móti til að standa undir þeim framkvæmdum, sem verið er að gera.

Afleiðingar þess, að fjármagnið hefur ekki verið fest til þess að standa undir framförunum, hafa m.a. orðið þær, sem ég leyfði mér að benda á fyrir fram í sambandi við meðferð stofnlánadeildarinnar á síðasta Alþ., að fjármagninu og gjaldeyrinum hefur verið gegndarlaust sóað í lúxusframkvæmdir og fánýta muni. Slíkt gat aldrei og getur aldrei samrýmzt skynsamlegri „nýsköpun“, og þetta hefði ekki komið fyrir, ef einhverjar ráðstafanir af viti hefðu verið gerðar til fjáröflunar, jafnharðan og framkvæmt var.

Nú er ekki lengur hægt að leyna því, að fjáröflun til þeirra framfara, sem þjóðinni ríður mest á, er óleyst vandamál, og það sem þó er verst af öllu, að búið er að sóa burt bróðurparti þeirra fjármuna í erlendum gjaldeyri, sem þjóðin ætlaðist til, að yrði undirstaða framfara um langt árabil og öryggissjóður hennar í baráttu smáþjóðar fyrir því að vera ekki upp á aðra komin.

Samtímis því, sem svo fimlega, eða hitt þó heldur, hefur til tekizt með fjármálastjórn ríkisins og framkvæmd „nýsköpunarinnar“ svokölluðu og fjáröflun til hennar, hefur verðbólgan og dýrtíðin farið stöðugt vaxandi. Vísitalan er nú komin upp í 302 stig. og manni skilst, að milljónatugi þurfi til þess að halda henni þar, þótt ekki væri neitt gert til þess að lækka hana.

Sjálf stjórnarblöðin keppast við að lýsa yfir því, að framleiðslan við sjóinn sé stöðvuð. Nýju bátarnir, en eigendur þeirra höfðu vonað, að þeir gætu byrjað togveiðar, er þeir komu af síldveiðum, liggja bundnir við ból, vegna þess að það er ekki hægt að losna við fiskinn fyrir það verð, sem gerir kleift að gera þá út. Einn af ráðherrunum hefur sagt í útvarpsumræðum hér á Alþ., að fiskiflotinn fari ekki af stað aftur, nema gerðar verði stórfelldar nýjar ráðstafanir.

Ástandið í byggingarmálunum er ömurlegra, en svo, að því verði gerð skil í nokkrum setningum.

Húsaleigan er komin yfir 1.000 kr. á mánuði fyrir viðunanlega íbúð. Þeir, sem ætla að byggja eða komast yfir húsnæði. reka sig á svartan peningamarkað, svartan kaupgjaldsmarkað og svartan húsamarkað.

Ríkisstj. heyir tryllt kapphlaup um vinnuafl, efni og fjármagn við þá, sem þurfa að koma sér upp þaki yfir höfuðið, og þeir, sem byggja lúxushallir, hafa frjálsar hendur til þátttöku í þessum leik og nota sér það óspart.

Það er ómögulegt að komast hjá því að viðurkenna, að valdhafarnir hafi hreint og beint unnið að því að skapa þetta öngþveiti með handahófsflani, sem á sér enga hliðstæðu í sögu þessarar þjóðar. Það hefur beinlínis verið hæðzt að þeim ráðstöfunum, sem með öðrum siðuðum þjóðum hafa verið taldar sjálfsagðar til þess að fyrirbyggja fjármálaupplausn þeirrar tegundar, sem við búum nú við. Eyðslustefnan hefur beinlínis verið boðuð af valdhöfunum. Og hafi einhver leyft sér að gagnrýna stjórnarframkvæmdirnar, þá hafa 3 af 4 stjórnmálaflokkum landsins og a.m.k. 5/6 hlutar af blaðakosti landsins, sameinazt um að reyna að hrópa hann niður. Einn af fyrrv. alþm. Sjálfstfl. hefur ekki getað orða bundizt út af þeim tilraunum til andlegrar kúgunar, sem reynt hefur verið að nota í þessu sambandi. Hann hefur sagt, að margir muni hafa vitað, hvert stefndi, en kinokað sér við að kveðja sér hljóðs um það, af ótta við að verða stimplaðir afturhaldsmenn af pólitískum „spekulöntum“.

Það ætti nú að fara að verða ljóst, að framhald þeirrar stefnu, sem ríkt hefur, hlýtur að leiða af sér kreppu. Það verður að breyta um stefnu án tafar og sameina krafta nægilega margra til þess að koma því til leiðar, að hér geti orðið glæsilegar framfarir, þrátt fyrir þau mistök, sem orðið hafa.

Það er ekkert fremur hægt að búa við það öngþveiti, sem orðið er, þótt svo mætti virðast, sem meiri hluti þjóðarinnar hafi í einhvers konar dáleiðsluástandi lagt blessun sína yfir þessi ósköp öll, í kosningunum í vor. Það, sem þá skeði, hjálpar síður en svo nokkuð við það, sem nú ríður á að gera, og kemur ekki að neinu gagni, nema þá því að sýna mönnum svart á hvítu, hve langt er hægt að komast með blekkingum, ef nógu margir eru samtaka um að halda þeim fram. Það, sem þá gerðist, er lærdómsríkt að þessu leyti og til aðvörunar öllum sönnum unnendum pólitísks frelsis og lýðræðis.

Það er búið að segja margt um stjórnarmyndunina haustið 1944 og mikið er búið að skrafa um það, sem á máli stjórnarliðsins heitir „þegar Framsókn skarst úr leik“, og er sumt furðulegt af því tali.

Lágmarkskrafa Framsóknarfl. þá var sú, að dýrtíðin yrði stöðvuð haustið 1944, þ.e.a.s. í byrjun þess framkvæmdatímabils, sem hlaut að verða hér á landi, þegar efni tók að fást og ný atvinnutæki. Í öðru lagi var það sett fram, að tryggð yrði fjáröflun til framfaranna og ábyggilegur fjárhagsgrundvöllur. Í þriðja lagi hefur Framsfl. ætið lagt höfuðáherzlu á, að framfarirnar yrðu byggðar á áætlun og þannig fyrirbyggð sú upplausn í atvinnulífi þjóðarinnar og fjármálum, sem miklar handahófsframkvæmdir hljóta að hafa í för með sér.

Við höfum haldið því fram, að það væri pólitísk stigamennska að stofna til stórfelldra framkvæmda af handahófi, auka jafnframt verðbólguna og láta fjáröflunina undir höfuð leggjast. Um þetta var ágreiningurinn og er, en aldrei um hitt, hvort hér skyldu verða framfarir. Það þurfti ekki þá að stofna stjórn til þess eins að elga frumkvæði að því að kaupa báta og skip, því að það voru margir, sem vildu gera það. Það þurfti hins vegar þá að mynda stjórn til þess að stöðva verðbólguna, leggja sem öruggastan fjárhagsgrundvöll fyrir framförunum og tryggja skynsamlega ráðstöfun fjármagnsins, sem hafði safnazt. Sú stjórn kom ekki, og því er nú komið sem komið er.

Sú stjórn, sem setið hefur, þóttist ætla að gera sumt af þessu. — Hún þóttist ætla að tryggja það að gjaldeyrisinnistæður þjóðarinnar yrðu notaðar til uppbyggingar. — Þetta átti að vera aðalverkefnið. — En hvernig hefur farið? Því lýsti ég hér áðan. Það er búið að ráðstafa innistæðunum, og aðeins mjög lítill hluti þeirra hefur runnið til uppbyggingarinnar. Það hlaut að fara svona, vegna þess að það hefur verið mest skrafað um uppbyggingu, á meðan fjármagninu var sóað gegndarlaust í annað.

Það sé fjarri mér að halda því fram, að auðvelt sé að koma fjármálum og atvinnulífi landsins í viðunanlegt horf. Ég geri ekki ráð fyrir, að neinn töfrasproti finnist, sem hægt er að bera fyrir sig í því sambandi. En ný úrræði verður að reyna. Það er augljóst mál. Og ef forða á frá hinu versta, þá verða menn að láta sér skiljast það, að gera verður óvenjulegar ráðstafanir.

Eitt af aðkallandi vandamálum er fjáröflun til þeirra nýtilegra framkvæmda, sem verið er að vinna að, og til nýrra átaka í atvinnumálum, raforkumálum, samgöngumálum, byggingarmálum og öðru því, sem miðar að aukinni tækni og bættum lifnaðarháttum. Það verður að finna úrræði til þess að festa sem mest af því lausa fjármagni, sem eykur verðbólguna, sem hámar í sig gjaldeyrinn. Það þarf að bjóða út og selja ríkisskuldabréf vegna framfaramálanna. Þá þarf að ná til þess hluta stórgróðans frá stríðs- og verðbólguárunum, sem réttur skerfur hefur ekki ennþá verið af látinn til almennra framfara. Það verður að gera almenn reikningsskil fyrir tímabilíð, sem liðið er, og fá hreinan grundvöll fyrir framtíðina. Ekki til þess að eltast við smámuni né smáyfirsjónir, né til þess að skerða fjármuni þeirra, sem bjargálna kunna að hafa orðið á þessum árum, heldur blátt áfram til þess, að þeir, sem stærri vinninga hafa hlotið í happdrætti stríðs- og verðbólgu, leggi eðlilegan skerf til þeirrar framleiðslu- og björgunarstarfsemi, sem nú verður að vinna að. Á grundvelli nýrra reikningsskila verður að byggja fjáröflun til þeirra framfara, sem hér verða að eiga sér stað á næstu árum. Menn verða að skilja það, að ef allt er látið dankast í sömu óreiðunni og verið hefur eða kákráðstafanir einar gerðar, þá dregur til þess, að fjármunirnir verða einskis virði. Á þetta verða menn að líta, þegar þeir meta, hverjum ráðstöfunum þeir eru fylgjandi og hverjum ekki.

Það verður að stöðva og minnka verðbólguna og kveða með því niður þá skoðun, að peningarnir verði einskis virði. Það verður m.a. með þessu að minnka eyðsluæðið og létta á þeim þrýstingi. sem er að stöðva framleiðsluna og eyðileggja allt heilbrigt fjármálalíf. Stjórnarvöldin verða að taka forustuna um að skapa fjármálagrundvöll, sem menn geta byggt á, og létta þannig öflun lánsfjár á frjálsum peningamarkaði, en slík lánsfjáröflun verður ætíð og þarf að vera mikils verður þáttur í fjáröflun til þeirra framkvæmda, sem byrjað er á, og annarra nýrra. Það þolir enga bið, að menn fái að vita, hvort ætlunin er, að hækkun dýrtíðarinnar taki einhvern tíma enda eða ekki.

Það verður að hafa stjórn á fjárfestingunni. þ.e.a.s. framkvæmdunum í landinu, í stað þess handahófs, sem nú ríkir og gerir allar framkvæmdir óhæfilega dýrar, eyðileggur afköstin og veldur því, að miklu færri mannvirki ljúkast, en verið gæti.

Stjórn framkvæmdanna verður að miðast við það, að það sitji fyrir efni, fjármagni og vinnuafli, sem nauðsynlegast er, að allir hafi nóg að starfa, sem vilja vinna, en á hinn bóginn við það, að framleiðslutæki þjóðarinnar geti orðið rekin af fullu fjöri.

Það er óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess að koma á eðlilegu jafnvægi milli framleiðslukostnaðar og afurðaverðs, þannig að framleiðslustörfin verði eftirsótt, en sitji ekki á hakanum. Í þessu sambandi kemur til greina aukin tækni, afnám milliliðagróðans, lækkun dýrtíðar og verðbólgu og aðrar ráðstafanir í sömu átt.

Það verður að stöðva þegar í stað alla óþarfa gjaldeyriseyðslu og gera allt, sem unnt er, til þess að forða því, að þjóðin, sem átti nærfellt 600 millj. kr. í erlendum gjaldeyri fyrir nokkrum misserum, þurfi að taka gjaldeyrislán á næstunni. En gæzla gjaldeyrisins er nátengd þeim ráóstöfunum, sem ég hef drepið á.

Brýna nauðsyn ber til að endurskoða skipan verzlunarmálanna og framkvæmd verzlunarinnar, fyrst og fremst með það fyrir augum, að verzlunarsamtök almennings fái sinn hlut réttan þannig, að þau geti notið sín, en þeim hefur verið haldið niðri á undanförnum árum með opinberum ráðstöfunum og með þeim afleiðingum um verzlunarhættina, sem nær öll þjóðin hneykslast á. Enn fremur þurfa verzlunarsamtök framleiðenda að fá stuðning ríkisvaldsins til þess að hafa með höndum innkaup á nauðsynjum þeirra. Þessar ráðstafanir eru hrein lífnauðsyn til þess að losa þjóðina af verzlunarklafanum.

Byggingamálin verður að taka alveg nýjum tökum. Tryggja verður með fjáröflun nýju lögin um byggingarlán í sveitum. Í kaupstöðum og kauptúnum verður ríkisvaldið að styðja bæði byggingarfélög verkamanna og samvinnubyggingarfélög með öflun fjármagns þeim til handa og styðja félögin til þess að framkvæma byggingar íbúðarhúsa í stórum stíl á þann ódýrasta hátt sem nútímatækni gerir mögulegt. Það verður að leysa byggingarvandamálið með það eitt fyrir augum að lækka kostnaðinn við öflun mannsæmandi íbúða.

Það hefur aldrei verið neitt til í því, að verðbólgan væri eins konar „stríðsgróðadreifari“. Það hefur aldrei verið annað en blekking, að það mætti að skaðlausu bíða, að verðbólgan væri stöðvuð, það væri hægt að gera það seinna, og ef til vill þyrfti þess alls ekki. Af sömu rót var sprottið hjalið um það, að menn skyldu vera alveg rólegir, hin svokallaða „nýsköpun“ leysti verðbólguvandamálið.

En því minnist ég á þetta nú, að þau vandamál, sem leysa þarf, eru þannig vaxin, að það er lítil von um árangur, ef menn láta sér ekki skiljast, bæði svokallaðir forustumenn og aðrir, að vandi sé á höndum. En er nauðsynlegur skilningur á vandamálunum nógu almennt ríkjandi? Það er vafamál. að svo sé, enda hefur verið lögð meiri stund á annað af mörgum, en upplýsingastarfsemi í þessum efnum. En nú verða allir að sameinast um að segja hreinskilnislega, hvernig komið er.

Yfir þjóðina hefur dunið ógæfa. Hún hefur fengið þungt áfall. Menn vakna sjálfsagt margir hverjir upp við vondan draum, þegar það upplýsist t.d., hversu farið hefur um gjaldeyrisinnistæður þjóðarinnar. Nú er spurningin hins vegar sú, hvort menn bregðast við eins og menn eða stinga höfðinu niður í sandinn.