29.10.1946
Sameinað þing: 5. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

12. mál, fjárlög 1947

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ég tel ekki ástæðu til að gera einstök atriði fjárlagafrv. þess, sem hér liggur fyrir til fyrstu umr., að umtalsefni, heldur mun ég ræða þau mál, sem mestu varða um framtíð landsins, afkomu manna og fjárhagsástæður. Fyrir alþýðu manna í landinu er þó vert að athuga, að af áætluðum útgjöldum ríkisins eiga 14 millj. kr. að greiðast til almannatrygginga, 4 millj. til landnáms og nýbygginga í sveitum og 21/2 millj. til raforkumála.

Hv. 6. landsk. þm.. Steingrímur Aðalsteinsson, rakti nýsköpunarmálin, og komst að þeirri niðurstöðu, að allt, sem áunnizt hefði, væri að þakka ráðherrum Sósfl. og að allt, sem miður hefði farið, væri að kenna ráðherrum annarra flokka. Sem dæmi um þetta nefndi þessi hv. þm. Sósfl., að nú væri búið að kaupa mikið af skipum, og skipakaupin væru í höndum atvmrh. En það er mála sannast, a.m.k. hvað togarakaupum viðkemur. að þau mál hafa verið í höndum nýbyggingarráðs og forsrh. gerði samning um togarana, en ekki atvmrh.

Ég segi þetta sem dæmi um það, hve villandi ræða þessa hv. þm. var. Þá minntist hann á, að allar hafnarframkvæmdir hefðu gengið treglega á þessu ári, og benti á, hve skipakaupin gengju vel. Nú er það svo, að í fjárl. þeim, sem afgr. hafa verið af hinni starfandi ríkisstj., er varið mörgum sinnum meira til hafnarframkvæmda, en nokkru sinni áður. Hitt er svo annað mál, að mikið seinlegra er að byggja hafnir við erfiða aðstöðu, en að byggja skipin, og vægast sagt er undarlegur málflutningur þm., að hann skyldi bera þetta tvennt saman. Um hafnargerð í Njarðvík er það að segja, að framkvæmd hennar er í höndum nefndar, sem skipuð er mönnum úr öllum flokkum, og innan n. er ekki ágreiningur um hana og heldur ekki á milli n. og þess ráðh. Alþfl., er fer með hafnarmál.

Þá gerði þessi hv. þm. sölu og verð á síldarlýsi á s.l. ári að umræðuefni og lýsti því yfir. að Sovétríkin hefðu viljað borga hærra verð fyrir síldarlýsi, en allir aðrir.

Þetta er rangt. Hugmyndin að því verði, sem selt var fyrir á síðasta ári, kom frá Bretum. Og Sovétríkin gengu inn á það verð, sem Bretar höfðu lýst yfir, að þeir vildu greiða, áður en kom til samninga við Sovétríkin.

Annars vil ég segja það út af hugleiðingum Steingríms Aðalsteinssonar um afurðasöluna, að ég tel, að afurðasalan eigi að vera ópólitísk.

Við eigum að selja þar, sem við fáum bezt og hagkvæmast verð hverju sinni, og hverjum sem er. Hv. 6. landsk. þm., Steingrímur Aðalsteinsson, virðist vera á öðru máli. Hann var að lýsa því, að bezt væri fyrir okkur, að við færðum alla verzlun okkar yfir á Sovétríkin. Hann sagði, að vegna þess að Sovétríkin hefðu áætlunarbúskap, væri hagkvæmast fyrir okkur að verzla við þau í einu og öllu. Mér skilst, að hann vilji innlima Ísland í verzlunarkerfi Sovétríkjanna. Ég tel, að við eigum að vera frjálsir með okkar verzlun og ekki innlima okkur í verzlunarkerfi neins stórveldisins. Frelsi og sjálfstæði landsins er undir því komið, að við höldum fast við þetta.

Ég vil svo láta þetta nægja um það, sem þessi hv. þm. sagði. En orð hans geta verið nokkur aðvörun um þá stefnu, sem þeir hafa, kommúnistar, og hvað það er, sem ræður stefnu þeirra á Alþ.

Ríkisstj. sú, sem tók til starfa hinn 21. okt. 1944 hafði, svo sem kunnugt er, inn á við tvö höfuðmarkmið. Annað var félagslegt réttlæti, þar í falin afgreiðsla launalaganna og almannatrygginganna; hitt var atvinna handa öllum, sem raunar einnig má telja til þjóðfélagsréttinda, en því markmiði skyldi ná með því að auka, framleiðslutækin og jafnframt afköstin, svo að eigi þyrfti að koma til kauplækkunar.

Þjóðin kaus um þessa höfuðstefnu ríkisstj. hinn 30. júní s.l. Stjórnarandstaðan, Framsfl., beið mikinn ósigur. Stjórnarflokkarnir báru sigur úr býtum, en misjafnan þó. Kjósendum var ljóst, að stefna ríkisstj. var að mestu leyti mörkuð af gömlum og nýjum baráttumálum Alþfl. Alþfl. fékk þess vegna mestan sigur í kosningunum. Kjósendur guldu trausti framfarastefnu og athafnir ríkisstj. með það fyrir augum, að henni yrði haldið áfram og haldið skyldi áfram að efla hin félagslegu réttindi þegnanna.

Dómur kjósenda var Alþfl. og stefnu ríkisstj. í vil. Alþfl, fór ekki dult með, að hann taldi, að ýmislegt mætti betur fara um ýmsar stjórnarráðstafanir og framkvæmdir. Alþfl. var ljóst, að tímabili því, er samið hafði verið um stjórnarsamstarf á, var lokið með kosningunum. Alþfl. var ljóst, að það. sem ríkisstj. hafði gert, var aðeins grundvöllur að því, sem þyrfti að gera. Eftir var að tryggja atvinnuvegina vegna væntanlegs verðfalls afurða, og eftir var að gera ráðstafanir til þess að stöðva óhæfilega verðbólgu og dýrtíð. Enn fremur var eftir að semja um tekjuöflun til þess að greiða kostnaðinn af almannatryggingunum, kostnað vegna aukinna framfara í sveitum landsins, framlög til bygginga í kaupstöðum, framlög til rafveitna og framlög vegna aukins kostnaðar við skólakerfi landsins.

Alþfl. taldi skyldu sína, með skírskotun til stefnuskrár sinnar og fyrri afstöðu, að taka sinn þátt í úrlausn þessara vandamála. Alþfl. lýsti því þess vegna yfir í þingkosningum, að við umr. um stjórnarsamstarf að kosningum loknum mundi hann, svo sem ætið áður, láta málefnin ráða um samvinnu við aðra flokka. En svo sem lýðræðisflokki bar að gera, vildi Alþfl. bíða þess, að kjósendur segðu vilja sinn við kosningarnar, og haga sér þar eftir.

Allt öðru máli var að gegna um kommúnistana, sem kalla sig Sósíalistaflokkinn. Nokkru fyrir þingkosningarnar, eða hinn 11. júní, rituðu þeir Alþfl. og Sjálfstfl. svo hljóðandi bréf:

„Miðstjórn Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins leyfir sér hér með að fara þess á leit við yður, að þér takið upp samninga við fulltrúa hans og Sjálfstfl. um áframhaldandi stjórnarsamstarf að afloknum kosningum 30. júní n.k. á grundvelli eftirfarandi höfuðatriða:

1. Lokið sé við að framkvæma málefnasamning stjórnarflokkanna og jafnframt gerð ný samningsbundin áætlun um framkvæmdir á sviði atvinnulegrar nýsköpunar, menningarmála og félagslegra umbóta í framhaldi af fyrri samningi.

2. Flokkarnir lýsi því skýlaust yfir, að þeir muni vísa á bug öllum tilmælum, hvaðan sem þau koma, um leigu á herstöðvum til erlendra ríkja til styttri eða lengri tíma, enda sé þess krafizt, að her sá, er enn dvelur hér á landi. hverfi nú þegar brott samkvæmt samningi.

3. Gerðar verði gagngerðar ráðstafanir til að vinna bug á dýrtíðinni.

Sósfl. er reiðubúinn, hvenær, sem er, til þess að leggja fram till. sínar um málefnasamning þennan í einstökum atriðum í samræmi við stefnuskrá flokksins um verkefnin að afloknum alþingiskosningum.

Vér teljum með öllu óverjandi að ganga til kosninga, án þess að þjóðin fái að vita, hver er afstaða flokkanna til áframhaldandi stjórnarsamstarfs á grundveili þeirra höfuðatriða, er vér höfum nefnt hér að framan.

Vér væntum heiðraðs svars yðar hið bráðasta.“ Alþfl. svaraði fyrir sitt leyti, að hann teldi slíka samninga ekki tímabæra fyrr en eftir kosningar, og Sjálfstfl. mun hafa svarað á líkan hátt.

Að loknum kosningum. hinn 30. júní, þurftu ýmsir að hvíla sig og láta rjúka úr sér kosningahitann. Svo kom aukaþingið, sem haldið var í júlímánuði til þess að ganga frá upptökubeiðni Íslands í bandalag hinna sameinuðu þjóða. Samkomulag náðist um mál þetta í utanrmn., en þegar til kom, brutu kommúnistar það samkomulag af einskærri tylliástæðu og vildu flétta till. um brottför eftirstöðva af her Bandaríkjanna inn í till. um inngöngu í þjóðabandalagið. Þetta var fellt, sem sjálfsagt var, en hæstv. forsrh. gaf yfirlýsingu um, að hann mundi taka málið upp við stjórn U.S.A. Kommúnistar létu sér þetta ekki nægja, versnuðu í skapi og enn dróst á langinn, að hafnir yrðu samningar milli stjórnarflokkanna um úrlausn hinna aðkallandi innlendu vandamála, er ég áður nefndi, sem þó hlutu að vera í beinu framhaldi af því. sem ríkisstj. hafði gert fyrir kosningar. Óðagotið, sem verið hafði á kommúnistum um að semja fyrir kosningarnar, var nú alveg horfið. Tíminn leið. Síldarvertíðin brást. Augljóst varð, að vandamálin innanlands yrðu enn erfiðari úrlausnar, en gert hafði verið ráð fyrir í byrjun síldarvertíðar, þegar bréf það var ritað, sem ég áður las.

Loks skeður það í byrjun septembermánaðar, að forsrh. kveður ríkisstj. til fundar. Segir hann, að við svo búið megi ekki lengur standa. Stjórnarfundi þurfi að halda á hverjum degl, þangað til þing komi saman, svo að málin verði undirbúin sem allra mest, því að nú sé ríkisstj. mikill vandi á höndum.

Ráðherrar Alþfl. tóku vel undir þetta, en ráóherrar Sósfl. kváðust ekki vera til viðræðna um úrlausn innanlandsmála, meðan eigi væri búið að útkljá um veru Bandaríkjahersins hér á landi. Sagði hæstv. menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, m.a., þegar ítrekað var við hann, að umr. þyrftu að hefjast tafarlaust um innanlandsmálin, að slíkt væri „þýðingarlaust“.

Ég vil biðja hv. þm. að bera þessa staðreynd saman við bréf Sósfl., dags. 11. júní s.l. og ummæli hv. 6. landsk. um stöðvun nýsköpunarinnar. Hvað varð nú af áhuga Sósfl. fyrir samningsbundinni áætlun um „framkvæmdir á sviði atvinnulegrar nýsköpunar, menningarmála og félagslegra umbóta í framhaldi af fyrra samningi“, eins og segir í áðurnefndu bréfi? Hvað varð af áhuganum fyrir að „gera gagngerðar ráðstafanir til að vinna bug á dýrtíðinni“, sem allt þurfti að semja um fyrir kosningar, samkvæmt því, sem Sósfl. skrifaði þá samstarfsflokkum sínum? Allur slíkur áhugi hvarf út í veður og vind að kosningunum loknum.

Þannig brást Sósfl. stefnu sinni og loforðum, er hann hafði gefið kjósendum sínum fyrir kosningarnar, um eflingu nýsköpunarinnar. Í innanlandsmálunum hafði þó ekkert gerzt. er réttlætt gæti slíka stefnubreytingu.

Af hálfu Framsfl. hefur því verið haldið fram, að flestar eða allar ráðstafanir hinnar starfandi ríkisstj. hafi verið óráð, fálm og vitleysa. Nýsköpunin hafi verið óráð, afgreiðsla launalaganna fálm og afgreiðsla laga um almannatryggingar væri eignajöfnun, ofvaxin okkar þjóðskipulagi. En þjóðin dæmdi um athafnastefnu ríkisstj. og afturhald Framsfl. í síðustu alþingiskosningum, hún kaus heldur athafnirnar, en afturhaldið. Við þennan dóm dró um sinn nokkuð úr hinum hatramma mótþróa Framsfl. gegn nýsköpuninni og gegn hinu félagslega réttlæti og öryggi laganna um almannatryggingar, en nú virðist af ræðu hv. 1. þm. S-M., Eysteins Jónssonar, að andstaðan gegn hinu mesta átaki, sem gert hefur verið til framfara og félagslegs öryggis hér á landi, sé aftur tekin að eflast með Framsfl. eftir kosningadýfuna.

Nú bendir talsmaður Framsfl. á vandræðin, sem biða úrlausnar. og hrópar: „Hafði ég ekki rétt fyrir mér?“ En því fer mjög fjarri.

Vandkvæðin, sem lýst hefur verið, stafa ekki af því, að stefna ríkisstj. í heild væri röng, heldur af því, að starf ríkisstj. var rofið af Sósfl., einmitt þegar mest reið á að hefja samstarf að nýju. Sá flokkur neitaði að ræða við hina flokkana tvo um úrlausn hinna innlendu vandamála, sem honum þó bar skylda til að gera samkvæmt úrslitum þingkosninganna og öllum kosningaloforðum hans.

Á þennan hátt hafa kommúnistar gersamlega brugðizt þeim skyldum, sem þeir hafa við hina innlendu húsbændur sína, kjósendurna. Þeir hafa látið ímyndaða hagsmuni hinna erlendu húsbænda sitja í fyrirrúmi.

Samkv. flugvallarsamningnum, sem samþ. var nýlega á Alþ., verður allur her Bandaríkjanna fluttur héðan af landi burt. Brottflutningur hermannanna er þegar vel á veg kominn. Kröfum um herstöðvar var neitað af Íslendinga hálfu. Bandaríkjamenn hafa einnig fallið frá þeim. Hér á landi verða engar herstöðvar. Málið er afgr. á þann hátt, sem allur þorri þjóðarinnar, þ. á m. kommúnistar vildu í bréfi sínu hinn 11. júní s.l.

Kjósendur spyrja þess vegna: Hví hefur Sósfl. ekki hafið samninga um innanlandsmálin við sína fyrri samstarfsflokka í samræmi við þetta ágæta bréf sitt og yfirlýstan vilja sinn? Hefði þess þó sannarlega verið full þörf. Engin þingræðisstjórn er til í landinu. Alþ. situr verklaust viku eftir viku, og vandamálin bíða úrlausnar.

Samtöl hafa að vísu byrjað um samstjórn allra flokka. Að þessu starfar 12 manna n. frá þingflokkunum og fer sér hægt. Þessi n. hefur síðan kosið sér aðra n. fjögurra hagfræðinga og fengið þeirri n. stór verkefni til úrlausnar. Hvorki skal geta né vilji hinna ágætu hagfræðinga dreginn í efa, en þegar þeir skila sínu áliti, eiga stjórnmálaflokkarnir eftir að setjast á rökstóla og semja sín á milli, og á meðan biða hin miklu vandamál úrlausnar. Eins og sakir standa, er ástandið þannig á Alþ., að stjórnmálamennirnir eru að þukla hver á öðrum, áður en glíman byrjar fyrir alvöru. Enginn veit, hvað við tekur. Þó má telja líklegt, að með þingkosningarnar s.l. sumar fyrir augum hljóti að myndast samtök til eflingar nýsköpuninni og til þess að koma í framkvæmd hinni nýsamþykktu löggjöf í félagsmálum. Þar verður ekki aftur snúið. Það væru svik við þjóðina.

Flokksþing standa nú fyrir dyrum hjá tveim flokkum, Alþfl. og Framsfl., auk þess kemur þing Alþýðusambandsins saman í næsta mánuði, og enn fremur heldur Sósfl. flokksstjórnarfund um líkt leyti. Engu skal spáð um það, hver áhrif þessi þinghöld hafa á væntanlega stjórnarsamvinnu. Kjósendurnir sögðu til um vilja sinn við síðustu alþingiskosningar. Þeim vilja ber okkur alþm. að hlýða, og væntanlega verður hann staðfestur af flokksþingum og flokksfundum.

Alþfl. er og verður trúr þeirri yfirlýsingu sinni að láta málefni ráða um samvinnu sina við aðra flokka. Stefna hans er skýr og ótvíræð eins og hún kom fram við alþingiskosningarnar.

Í utanríkismálunum hefur Alþfl. með afstöðu sinni til flugvallarsamningsins við Bandaríkin og afstöðu til þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi og og nú síðast inntökubeiðni Íslands í bandalag hinna sameinuðu þjóða skýrt og ótvírætt markað afstöðu sina og vilja um gott samstarf við allar þjóðir.

Í innanríkismálunum ber fyrst og fremst nauðsyn til þess að gera ráðstafanir í því skyni, að atvinnuvegir landsmanna geti haldið áfram með fullum krafti. Ráðstafanir þarf að gera til þess að halda niðri dýrtíðinni, og verzlunarsamninga þarf að leita í sem flestum löndum.

Þá þarf að samhæfa innflutning og útflutning þannig, að verzlunarjöfnuður náist. Enn fremur þarf að verja ákveðinni upphæð af gjaldeyri fyrir útflutningsvöru hvers árs, svo sem lög standa til, til nýbygginga.

Einn þáttur þessarar starfsemi til eflingar atvinnuvegunum er útvegun lánsfjár, svo sem áætlað hefur verið til B-lána stofnlánadeildarinnar. Um þetta mál voru byrjuð samtöl milli ríkisstjórnarinnar, nýbyggingarráðs og stjórnar Landsbankans nú á þessu hausti, en þau stöðvuðust, eins og aðrar ráðagerðir um lausn hinna innlendu vandamála, vegna neitunar Sósfl. um að halda áfram samningum.

Þá þarf að tryggja vinnu handa öllum við sem arðbærastan atvinnurekstur og koma skipulagi á vinnuna til þess að auka afköstin. En til þess að standast samkeppni við aðrar þjóðir og geta haldið uppi þeim kröfum, sem menn nú gera til lífsþæginda og menningar, eru aukin afköst nauðsynleg.

Jafnframt skipulagningu vinnunnar þarf að búa til heildaráætlun um atvinnurekstur landsmanna og fjárfestingu í einstökum greinum. Og m.a. þarf að dreifa atvinnutækjunum meira út um landið, en nú er gert. Allflestir kaupstaðir og kauptún úti á landi hafa engan stríðsgróða fengið. Þar vantar fé til framkvæmda og til nýsköpunar. Þessu verður hið opinbera að bæta úr með einhverjum ráðum. Reynsla sú, sem þegar hefur fengizt, bæði um einkarekstur og opinberan rekstur, sýnir, að heildaráætlun er alveg óhjákvæmileg. Óhæfilega mikið af fjármagni þjóðarinnar mun vera fast í verzlun og ýmsu þess háttar, á sama tíma og fé vantar til útgerðar og fiskiðju í sambandi við útgerðina. Þá er byggingariðnaðurinn rekinn alveg skipulagslaust, bæði af því opinbera og einstaklingum.

Á síðasta reglulegu Alþ. lagði ég fram og fékk samþ. frv. til l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Í frv. þessu voru ákvæði um skipun n., sem réði, hvernig byggingarefni skyldi ráðstafað. Þetta ákvæði var því miður fellt niður. Ýmsir hafa komizt svo að orði, að lög þessi séu að mestu leyti pappírsgagn. Þetta er alveg rangt.

Í byggingu eru nú á vegum byggingarsjóðs verkamanna 168 íbúðir, en auk þess er verið að ljúka 39 íbúðum, eða alls 207. Þá liggja fyrir beiðnir frá nokkrum kauptúnum, sem væntanlega verður unnt að sinna á næsta ári. 20 samvinnubyggingafélög hafa verið stofnuð, síðan lögin komu í gildi. Þessi félög eru að byggja á þessu og næsta ári 235 íbúðarhús. Samtals verða þá 532 íbúðir, sem þegar er vitað um, að byggðar verða eftir 1. og 2. kafla l. á þessu og næsta ári, og bætast væntanlega margar við síðar. Auk þess hefur Reykjavíkurbær og aðrir kaupstaðir óskað eftir aðstoð til að byggja íbúðir til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, og mundi þurfa um 61/2 millj. króna til að verða við þeim óskum. Fé hefur þó eigi fengizt til þeirra framkvæmda, en úrræða verður að leita til þess hið allra fyrsta. Af þessum upplýsingum sést, að það er fjarri öllum sanni, að l. þessi hafi ekki komið að verulegum notum.

Hins vegar hefðu l. vitanlega getað komið að enn meira gagni, ef ákvæði þeirra um skipulagningu byggingariðnaðarins hefði eigi verið breytt. Byggingarfélögin keppa nú innbyrðis og við einstaklinga um efni og vinnuafl, en auk þess keppir hið opinbera taumlaust í þessum iðnaði, bæði innbyrðis og við einstaklinga. Sem dæmi má nefna, að samkv. skýrslu húsameistara ríkisins eru nú í byggingu og fyrirhugaðar á næstunni opinberar byggingar, samtals rúml. 300,000 teningsmetrar, er samsvarar um 1090 verkamannaíbúðum samkv. l. um verkamannabústaði.

Fyrir stríðið vantaði peninga til bygginga. Meðan stríðið stóð, var mjög lítið byggt. Mjög mikil íbúðaþörf hafði því skapazt og þörf fyrir opinberar byggingar var mjög aðkallandi. Hins vegar verður að draga úr þeirri þenslu, sem komin er í þennan iðnað, og láta íbúðarhúsabyggingar af hæfilegri stærð ganga fyrir lúxusvillum og verzlunarhúsum, en jafnframt skipta opinberum byggingum niður í flokka, þannig að þær allra nauðsynlegustu gangi fyrir öðrum. Þá þarf, svo sem ég þegar hef bent á, að fá aukið fé til bygginga verkamannabústaða og byggingarsamvinnufélaga. Allt þetta mun koma til athugunar við væntanlega samninga um stjórnarsamvinnu.

Af öðrum málum má nefna: Lausn landbúnaðarvandamálsins, sem lengi hefur verið á döfinni. Þá hljóta verzlunarmálin einnig að koma til athugunar og úrlausnar, því að svo sem kunnugt er, vinnur óþarflega margt fólk að verzlun í landinu, og tilheyrir þetta atriði bæði skipulagningu fjármagnsins og vinnunnar.

Enn má nefna rækilega endurskoðun skattalöggjafarinnar, því að eins og hún er nú framkvæmd, kemur hún þungt niður á fastlaunamönnum, en aðrir, sem ekki hafa sannanlegar tekjur, sleppa. Ýmsir fullyrða, að unnt væri að lækka skattstiga hinna beinu skatta til verulegra muna, en ná þó miklu meira fé en nú í ríkissjóð, ef allar tekjur væru taldar fram til skatts.

Þá liggur fyrir að halda áfram að bæta félagsmálalöggjöfina og breyta henni til batnaðar. Athuga þarf um endurbætur á l. um almannatryggingar, afgreiða verður frv. um öryggismál sjómanna. Þá er löggjöf og allt eftirlit um öryggi á vinnustöðum mjög ófullkomin, og loks er óskiljanlegt, að Alþ. geti lengur skotið sér undan að taka áfengismálin til rækilegrar íhugunar. Ótal áskoranir liggja fyrir um þetta víðs vegar að af landinu, og þær áskoranir verður vissulega að taka til greina, því að þær eru byggðar á fullri nauðsyn og sanngirni.

Loks vil ég geta þess, að Alþfl. mun rækilega minna á endurskoðun stjórnarskrárinnar. sem var eitt hið merkasta mál á stefnuskrá ríkisstj., er ekki komst í framkvæmd. Það mál á að vera til undirbúnings í n., og er vissulega eigi til þess fallið að sofa á því.

Þá verður eigi hjá því komizt að finna tekjustofna fyrir ríkissjóð til þess að afgreiða hallalaus fjárl. Fjárl. eru, svo sem þegar er lýst, hin hæstu, sem lögð hafa verið fyrir hv. Alþ. Munu þó ýmsir telja, að enn skorti á, að nægilega sé áætlað til verka, er þeir telja nauðsyn á að framkvæma, og þm. flytja af þeim sökum brtt. til hækkunar á útgjöldum.

Ég hef nú nefnt ýmis þau mál, sem úrlausnar bíða og Alþfl. mun gera að skilyrði fyrir, að afgr. verði við nýja stjórnarmyndun. Ýmislegt er þó enn ótalið, en höfuðáherzlu mun Alþfl. hér eftir sem hingað til leggja á þau mál, sem talin eru hér að framan. Um líkur til samstarfs við aðra flokka er of snemmt að segja nokkuð.

Framsfl. hefur gengið mjög langt í því að ráðast gegn nýsköpuninni, í hvaða mynd sem var. Hann hefur einnig lagzt þunglega gegn félagslegum umbótum, svo sem l. um almannatryggingar. Í utanríkismálum hefur flokkurinn verið klofinn, svo sem kom í ljós við afgreiðslu flugvallarmálsins. Má vera, að það þyki djarfleg afstaða nú og hyggileg pólitík að skipta flokknum í tvo jafna hluta, en lítið mundi útkljást á Alþ., ef allir flokkar höguðu sér þannig.

Til þess að verða samstarfshæfur um úrlausn þeirra vandamála, er nauðsyn ber til að ráða fram úr, verður Framsfl. að gerbreyta um stefnu, en það hefur gerzt áður, svo að ekki er ástæða til þess að örvænta um, að svo verði, sjái flokkurinn sér hag í því.

Sjálfstfl. hefur í stjórnarsamstarfinu unnið að ýmsum þeim málum, sem úrlausnar bíða. Hann hefur s.l. tvö ár tekið þann þátt í framkvæmd þeirra. Flokknum ætti því að vera áhugamál að koma þeim á tryggan grundvöll.

Hins vegar verður ekki ráðið fram úr mörgum þeirra án þess að koma við pyngju og hagsmuni ýmissa máttarstólpa flokksins.

Næstu mánuðir munu leiða í ljós, hvort Sjálfstfl. hefur þrótt til þess að setja alþjóðarhagsmuni ofar þessum einkahagsmunum, eða eigi.

Um Sósfl. er það vitað, að allur þorri kjósenda hans mun krefjast úrlausnar á innanlandsvandamálunum mjög á hinum sama grundveili og Alþfl. setur fram. Kommúnisminn hefur ekki fengið neinn byr hjá alþýðu manna á Íslandi. Þess vegna hefur Sósfl. í orði kveðnu tekið upp ýmis stefnumál Alþfl. til þess að vinna sér fylgl. Vegna þess að sá flokkur hefur gert þetta, falla málefni Alþfl. og Sósfl. oft saman. Hitt er svo annað mál, að ýmsir helztu menn kommúnista fyrirlíta allt lýðræði, og í huga þeirra er önnur skoðun ríkjandi. Auk þess taka þeir afstöðu í utanríkismálum frá allt öðru sjónarmiði, en menn með aðrar stjórnmálaskoðanir.

Þetta sérstaka sjónarmið valdamanna flokksins í utanríkismálum ræður, þótt undarlegt megi virðast, einnig öllu um stefnu þeirra í innanríkismálum. Þeir hafa, svo sem dæmin sanna, fórnað öllu samstarfi um innanríkismálin vegna ímyndaðra hagsmuna annars ríkis. Verði þetta framtíðarstefna þeirra, eru þeir eigi samstarfshæfir um úrlausn innanlandsmála. Og þetta skilur allur almenningur.

Flokksstjórnarfundur verður bráðlega haldinn í Sósfl. Þar verða saman komnir menn víðs vegar að af landinu, og vonandi tekst þeim að koma forsprökkunum í skilning um, að innanlandsmál verða að afgreiðast með hagsmuni Íslenzku alþýðunnar og þjóðarinnar fyrir augum og ekki frá öðru sjónarmiði.

Það er skylda Alþ. að mynda þingræðisstjórn. Alþýða manna á öllu landinu, öll þjóðin biður eftir því, að Alþ. framkvæmi þessa skyldu sína. Til þess þarf að samhæfa ólík sjónarmið hinna einstöku flokka.

Til þess að vera öruggur um að ná sem mestum árangri væri æskilegast, að allir flokkar bindust samtökum. Það mun koma í ljós innan skamms, hvort möguleikar eru fyrir hendi um þetta. Sé svo eigi, verða þeir flokkar, er samningum geta náð sín á milli um framkvæmdir á þeim málum, er meiri hluti kjósenda lýsti sig samþykkan við síðustu alþingiskosningar, að freista þess að mynda þingræðisstjórn.