16.01.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (4986)

274. mál, millilandasiglingar strandferðaskipa

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef lítið að segja um þetta nú, hef þegar lýst áliti mínu á máli þessu, en af því að hv. þm. S-Þ, fór að blanda hér inn í alls óskyldum málum, svo sem eins og karakúlfjárpest, þá get ég ekki annað en svarað honum lítillega. Hann sagði, að mér væri tamt að flýta öllum málum miður vel undirbúnum, og nefndi þar til dæmis innflutning karakúlfjárins. Ég vildi benda hv. þm. á það, að til er prentuð till. um þetta efni frá árinu 1917. Einnig er til prentað frv. frá mér um innflutning karakúlfjár, og í bréfi til búnaðarþings og öðru til ráðuneytisins liggja líka fyrir till. um innflutning erlends sauðfjár, frá 1932, 1933 og 1934, og alls staðar gerði ég þær till., að féð væri flutt í eyjar og haft þar að minnsta kosti tvö ár, áður það yrði flutt í land. Menn geta af þessu séð, hvort hér er um óundirbúið mál að ræða, og enga sök átti ég á því, að mínum till. var ekki fylgt, en einn af þeim, sem réðu því, var þm. S-Þ., og hann drap mínar till. og fylgdi innflutningi án lengri sóttkvíar en dýralæknir ákvæði. Ég stend við það enn og er með því að flytja inn erlent fé og hafa það einangrað í um það bil 2-3 ár, áður en því er blandað saman við stofninn. En móti því var þm. S-Þ.