22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (4993)

275. mál, ljóskastarar á skipum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti, Áhugi flm. á þessu máli er náttúrlega allrar virðingar verður, og ég get tekið undir margt, sem hann sagði. Hins vegar þykir mér rétt að gefa hér upplýsingar í málinu, áður en því verður vísað til n.

Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir af hálfu Landssambands íslenzkra útvegsmanna til að fá ljóskastara í alla togarana og sennilega í hin stærri mótorskip. Slysavarnafélag Íslands skoraði fyrir nokkru á sambandið að taka upp þessi tæki, þar sem unnt væri að koma þeim við, en það verður að panta þau frá útlöndum. Enn fremur var skipaskoðunarstjóra tilkynnt að beita sér fyrir þessu við útgerðarmenn til áréttingar. Það, sem í þessari till. felst, er því á fullum skrið til framkvæmda, áður en hún kemur fram. Ég hygg það stafi af vanþekkingu flm., að þetta heyri ekki undir skipaskoðunarstjóra, og það get ég upplýst, að í endurskoðun löggjafar um eftirlit með skipum, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir mismunandi reglugerðum, og verður samkvæmt þeim tekið tillit til alls, sem nútímatækni leiðir í ljós, að verða má til öryggis á sjó. Þetta er mjög breytilegt, eins og allir vita, og er skemmst að minnast öryggistækisins Radar, sem hér kom nýverið fyrst á markaðinn. Það er lítið dæmi um hina öru þróun tækninnar, sem miðar að öryggi á sjó og landi. Með þessum nýjungum þarf að fylgjast vel og semja reglugerðir um þær. Aðalatriðið er að nota sér ávallt það bezta og fullkomnasta, sem fundið hefur verið upp til lífsöryggis.

Það mál, sem hér um ræðir sérstaklega, er komið til framkvæmda af hálfu þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, eins og þegar hefði verið samin um það reglugerð. Slík mál fá að jafnaði góðan hljómgrunn á síðari tímum hjá útgerðarmönnum.

Ég vildi aðeins upplýsa það, sem ég hef nú skýrt frá.