22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (4994)

275. mál, ljóskastarar á skipum

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 1. landsk. mælti ekki beint á móti því, að sett yrði reglugerð þess efnis, að skipaeigendur væru skyldaðir til að hafa ljóskastara í skipum, en hann taldi naumast þörf þeirrar reglugerðar, eins og komið væri. Og rökin voru þau, skildist manni, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefði í samræmi við fyrri áskoranir Slysavarnafélags Íslands gert ráðstafanir til að fá ljóskastara um borð í fleiri skip. Nú er öllum fullljóst, að séu ár liðin frá áskorunum Slysavarnafélagsins, án þess nokkuð hafi verið aðhafzt, er sízt öruggt, að af því verði í dag eða næsta dag eða málið sé raunverulega þar með komið til framkvæmda, eins og um reglugerð væri að ræða, eins og hv. 1. landsk. sagði. Það er reginmunur á að skylda skipaeigendur til að gera þetta eða setja þeim það í sjálfsvald. Um þetta þurfa að vera ákvæði í l., sem taka jafnt til allra skipaeigenda, því að það er staðreynd, að ljóskastara vantar í mörg skip, og þótt sumir hafi af sjálfsdáðum sinnt þeim öryggistækjum með ágætum, er engin trygging fyrir því, að allir geri það, án þess að þeir séu skyldaðir til þess.