22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (4995)

275. mál, ljóskastarar á skipum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég leiðrétta ádeilu á hendur togaraútgerðinni. Ég bendi á, að togurunum var bannað að hafa þessi tæki innan borðs á stríðsárunum, og var meira að segja bannað að hafa venjuleg siglingaljós.

Ljóskastarar eða leitarljós þurfa rafmagn frá stærri rafmagnsvélum en voru um borð í togurunum á stríðsárunum, en síðan hefur allt verið laust um þetta, þar eð skipta verður um vélar. Síðan leyft var aftur að kveikja á hafinu hefur þetta ekki komizt í fyrra horf. Þetta eru nú ástæðurnar. Og ég tel óviðeigandi að tala jafnsterk orð og flm. gerði hér um það, að mennirnir af Maí muni hafa farizt vegna þess, að ljóskastarar voru ekki um borð. Það er auðséð, að hann þekkir ekki til þessara mála og veit ekki, að menn gætu verið steindauðir í sjónum af krampa og kulda á þessum tíma árs, hvað sem öllum leitarljósum liði. Þrátt fyrir allar reglur og fyrirskipanir, og einmitt vegna þeirra, hefur það hörmulega slys borið að höndum um borð í Maí í dag, að rakettur voru teknar um borð í skipið og færðar inn í káetu, en vegna hita frá ofni sprungu þær og tveir menn slösuðust, Ég gæti hugsað mér, að hv. flm. kæmi svo á morgun og kenndi útgerðarmönnum um þetta. Þetta mál er of viðkvæmt og of gott mál til þess að nota það þannig í auglýsingaskyni fyrir flokk, sem finnur, að hann er að tapa fylgi hjá þjóðinni. Það er illa farið um jafngott mál. Vitað er, að fyrir Alþ. liggja nú till. um stórkostlegar umbætur á skipaeftirlitinu, og væri nær fyrir flm. að vinna að framgangi þeirra í heild en senda útgerðarmönnum fullkomlega óviðeigandi tón, eins og hann gerir hér, því að íslenzkir útgerðarmenn gera meira til tryggingar sjómönnum sínum en nokkrir aðrir útgerðarmenn í heimi. Ég mun fylgja þessu máli til n., sem væntanlega verður allshn., en ég vænti þess, að hún hafi samvinnu við sjútvn. um afgreiðslu þess, með tilliti til þess, að ég veit ekki betur en heildarendurskoðun á eftirliti með skipum eigi að fara hér gegnum þingið.