05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (5046)

282. mál, varahlutar til bifreiða

Eiríkur Einarsson:

Mér finnst það ekki torskilið, að þessi till. er komin fram, og raunar ekki heldur þau andmæli, sem henni eru veitt af hálfu n., sem hefur tekið hana til athugunar. Það er náttúrlega álitamál, hvor aðferðin er betri, og læt ég mig það ekki skipta. En það, sem knúði mig til að kveðja mér hljóðs um þessa till., er annað, sem sé það, að úr því að hér er hreyft því máli, að ástæða sé til að tryggja það á þann hátt, sem tiltækilegastur þykir, að varahlutir séu til hverju sinni til bifreiða — og það er sjálfsagt, eins og ég hef tekið fram, alls ekki að nauðsynjalausu —, þá tel ég, að það geti vel verið álitamál, hvort ekki sé rétt og ástæða til að hafa till. víðtækari. Það hefur einatt verið kvartað undan því með bílana, að þegar þeir bili, vanti varahluti og þá standi notendurnir uppi eins og þvörur. Þetta er dæmi, sem gefur málinu gildi. En þetta á við um fleira en bílana, því að það gildir að sama skapi um landbúnaðarvélar yfirleitt, vinnsluvélar við landbúnaðinn. Það hefur margoft heyrzt kvartað undan því og verið oft mjög meinlegt, að þegar eitthvað ber út af, eitthvað bilar í meðferð þeirra véla, og þá oft þegar verst gegnir, þá er ekkert að fá til þess að bæta úr. Mér fyndist því sjálfsagt, að reynt yrði að fá eitthvað úr þessu bætt, að varahlutir séu til í þessar vélar, þegar út af ber, alveg eins og til bílanna. Frá mínu sjónarmiði er það mjög mikilsvert atriði, að reynt sé að bæta úr þessu á einhvern þann hátt, sem hefur einhver áhrif, og finnst mér hljóta að mega ná þeim tilgangi í sambandi við samþykkt svona till., með því að skjóta inn í hana. Og ef ekki verður hafður sá háttur á afgreiðslu málsins, sem hv. 2. þm. Rang. hafði nú orð á, vil ég óska eftir því, að afgreiðslu yrði ekki lokið nú, svo að mér gefist kostur á að koma með brtt., sem ég hef auðvitað ekki tilbúna nú. En verði hins vegar afgreiðslan á líkan hátt og hv. 2. þm. Rang. stakk upp á, vildi ég koma á framfæri þessum aths., svo að það fréttist til viðkomandi stjórnarvalda og þau geti tekið til athugunar, hvað það sé meinlegt, að þetta gildi ekki um landbúnaðarvélar yfirleitt.