06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (5066)

285. mál, nýir vegir og brýr

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst hér vera um einkennilegt kapp að ræða hjá hv. flm. þessarar till., að vilja láta samþykkja till., sem hér liggur fyrir, og síðan till. á þskj. 128 um athugun á leiðinni um Holtamannaafrétt og Sprengisand. Í sambandi við þessar till. vil ég fara nokkrum orðum um, hvað gert hefur verið í þessum samgöngumálum.

Það er þá í fyrsta lagi það, að samþ. var þ. 3. des. 1943 að skora á ríkisstj. að láta gera línurit yfir alla vegi á landinu. Ætlazt var til, að þetta væri gert til þess, að hægara væri fyrir samgmn. og fjvn. að átta sig á vegalagningu á landinu yfirleitt. Nú hefur margsinnis verið kallað eftir þessu verki og minnt á það, en það hefur komið fyrir ekki. Vegamálastjóri hefur alltaf sagt, að hann hefði hvorki tíma né starfskrafta til þess að vinna að þessu verki, þannig að fjvn. gæti gert sér grein fyrir, hvar á Íslandi séu akfærir vegir og hvar ekki.

Vegna þess bar ég fram till. á Alþ. 1945 á þskj. 394 um samgöngubætur í Barðastrandarsýslu. Meiri hl. allshn. féllst á till. mína að skipa 3 manna n. til þess að athuga vegasamgöngur í Barðastrandarsýslu. Vegamálastjóri viðurkennir, að vegakerfi í sýslunni sé mjög ófullkomið og sundurslitið og að þjóðvegir þar séu um 225 km. að lengd. Þar þurfi og að gera vegi til þess að tengja saman þorp og hinar blómlegu sveitir Barðastrandarsýslu, til þess að fólkið í þorpunum, og þá einkanlega börnin, líði ekki skort vegna mjólkurleysis, en það hafa þau gert undanfarin ár sökum þess, hve samgöngur hafa verið tregar. Hann segir, að gert sé ráð fyrir því að leggja á næstunni veg yfir Kleifaheiði, frá Skessufelli til Rauðasands. Meira segist vegamálastjóri ekki geta gert, nema ef til vill frá Bíldudal til Brjánslækjar. Nú er mér kunnugt um, að ekkert hefur verið gert í þessu.

Þáltill. þeirri, sem ég flutti 1945 um samgöngubætur í Barðastrandarsýslu, var vísað frá með svo felldri rökst. dagskrá, með leyfi forseta: „Í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um, að vegamálastjóri láti sitja fyrir að mæla og gera kostnaðaráætlanir um vegagerðir þar, sem vegasamband vantar milli sveita, er hafa landbúnaðarafurðir að selja, og þorpa, þar sem sömu landbúnaðarvörur vantar, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“ Þessi dagskrártill., sem var frá minni hl. allshn., var samþ. af öllum þm., sem hér voru staddir í Sþ., að undanteknum sjálfstæðismönnum, sem greiddu atkv. á móti dagskrártill., en vildu, að till. sjálf væri samþ. Nú hefur ekkert verið gert samkv. þessari rökst. dagskrá, sem sagt að mæla eða gera kostnaðaráætlanir um nauðsynlegustu vegagerðir til þess að greiða fyrir sölu landbúnaðarafurða.

Ég tel óviðeigandi, að verið sé að reyna að þvinga fram samþykktir um athuganir á endurbótum á fjallvegum, þegar miklu meira liggur á öðrum vegum. En þegar sagt er, að eigi að rannsaka eitthvað, þá veit maður nú orðið, hvað það þýðir, nefnilega að þá verði ekkert gert í málinu. Ég álít, að ekki sé rétt að samþykkja báðar þessar till., þá, sem hér liggur fyrir, og till. um Holtamannaafrétt og Sprengisand, vegna þess að þær fjalla báðar um sama efni að því er snertir vegi í óbyggðum.

Hvað viðvíkur þessum fjallvegi, sem hér um ræðir, þá eru tvö stór vatnsföll, sem brúa þyrfti, ef gera ætti samgöngubætur á þessum slóðum: Ég skal fylgja þessari till. til hv. allshn., en óska eftir, að hún taki málið upp í heild og ræði þetta mál við vegamálastjóra og hafi samráð um það við hæstv. samgmrh., hvernig þetta mál beri að leysa. — Vænti ég svo, að n. leggi fram eina till., sem sameini öll þessi sjónarmið. — Ég veit ekki, hvort hæstv. samgmrh. getur gefið upplýsingar um það, af hvaða ástæðum þetta verk hefur ekki verið framkvæmt, eins og hv. Alþ. hefur fyrir lagt, en sé það aðeins af því, að ekki sé enn þá fyrir hendi fé eða starfskraftar, þá sé ég ekki, hvað á að þýða að samþykkja neitt af þessum till.