06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (5069)

285. mál, nýir vegir og brýr

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mér finnst yfirlýsing hæstv. samgmrh. mjög athyglisverð. Hann lýsti því yfir, að það væri stór kostur við umrædda till., að hún tiltekur ekkert um, á hvaða leiðum athuganir eiga að fara fram, en ég vil fá ákveðið svar hæstv. samgmrh. um það, hvort hann telur, ef þessi till. verður samþ., að réttmætt sé að rannsaka leiðir yfir fjöll og firnindi og eyða til þess töluverðu fé, áður en tryggðar séu leiðir til þorpanna úti um land, svo að hægt sé að flytja þangað mjólk handa sveltandi börnum. Ágreiningurinn milli mín og hv. flm. till. er einmitt í þessu fólginn. Ég vil fyrst tryggja þeim þorpum, sem búa við mjólkurskort, að þau geti fengið samband við sveitirnar, sem geta séð þeim fyrir nægilegri mjólk og selt þeim sínar afurðir. Nú skildist mér á hæstv. ráðh., að hann teldi það eins eiga að ganga fyrir að koma á sambandi milli Rangárvallasýslu og Norðurlandsins. Væri æskilegt að heyra skoðun hæstv. ráðh. í þessu máli, hvort þetta eigi að ganga fyrir öðrum framkvæmdum eða ekki. Ég veit af eigin reynslu, að skoðun vegamálastjóra — og jafnvel skoðun hæstv. samgmrh. — er sú, að sú sýsla, sem ég er að mæla fyrir, á ekki að ganga fyrir um framkvæmdir á þessu sviði, heldur séu það aðrir hlutir, sem þar eiga að ganga fyrir, einnig fjallvegir. Væri gott að fá úr því skorið, hvort það eigi einnig að vera þannig í framtíðinni. Ég veit, að hv. 2. þm. Rang. er á sömu skoðun í þessu máli, því að ég fékk á sínum þá heiðursnafnbót hjá þessum hv. þm. að vera kallaður útkjálkaþingmaðurinn fyrir það eitt, að ég barðist fyrir því, að þessir menn nytu sama réttar í samgöngubótum og aðrir landsmenn, m.a. íbúar Rangárvallasýslu.

Ég get vel fellt mig við, að allar þessar till. fari í hv. allshn., að málið sé tekið til athugunar á ný og það síðan afgr. í heild, ekki sem neitt smámál, heldur verði afmarkaðar hreinar línur í því.

Hæstv. samgmrh. hefur nú upplýst, að hann hafi séð þetta línurit, sem vegamálastjóri hefur neitað að sýna fjvn., og þætti mér vænt um, ef hæstv. ráðh. vildi láta senda fjvn. þetta línurit strax, því að n. á enn eftir að ákveða, hvar helzt eigi að veita fé til vegagerða. Ef til vill mun það opna augu fjvn. fyrir því, hvar vegir séu í landinu og hvar ekki, því að mér skilst, að það sé ákveðin ósk hæstv. samgmrh. og vegamálastjóra að halda því leyndu fyrir fjvn., hvar vegir séu í landinu og hvar ekki, sem staðfestist nú með því, að hæstv. samgmrh. hefur upplýst, að þessi gögn hafi lengi legið fyrir. —

Ég get því fallizt á að fylgja þeirri till., sem nú liggur fyrir, til n., ef tekið er upp í till. það, sem ég álít, að skipti hér máli. Ég vil taka það fram, að mín brtt. er m.a. byggð á því, sem hafði verið samþ. hér á síðasta Alþ. og ég hef áður lesið hér upp, og sé ég ekki, hvers vegna á að hrúga upp þáltill. ár eftir ár um sama efni, ef ekki er tækifæri, tími eða starfskraftar til að uppfylla þær kröfur, sem hv. Alþ. hefur gert til þeirrar stofnunar, sem hér á hlut að máli.

Ég vil svo að síðustu segja það við hv., 2. þm. Rang., að ef nokkuð liggur á bak við till. á þskj. 128, þá er það vitanlega meiningin, að gert verði meira en að rannsaka málið, og verð ég að segja, að mér finnst það ódrengilegt að ætlast til að knýja fram fé úr ríkissjóði og mannafla til þess að láta rannsaka öræfi landsins einungis til þess að tefja fyrir framkvæmdum annars staðar. Þetta mál hlýtur einnig að vera fram borið vegna þess, að á bak við það liggur krafa um viðbát á þessu sviði, því að ella væri þetta ekkert annað en auglýsingastarfsemi.