06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (5075)

285. mál, nýir vegir og brýr

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessa umr. Ég vildi aðeins minna hæstv. samgmrh. og vegamálastjóra á, að á Alþ. 1943 var samþ. þál. um línuritið. Þar er tekið fram, hvernig það skuli gert og hvað það eigi að sýna, hvað mikið sé akfært af vegum, hvað slarkfært og hvaða sveitir það séu, sem aðflutninga hafi aðeins með hestum — á hestahryggjum. Ég skal taka það fram, að þessar upplýsingar áttu að miðast við 1. jan. 1944, og átti að útbýta þeim til allra alþm. fyrir 15. febr. 1944. Þetta hefur aldrei verið framkvæmt, og upplýsingar þær um vegakerfið, sem línuritið gerir ráð fyrir, hafa ekki legið fyrir, af hverju sem það kann að stafa. Í fyrra samþykkti Alþ. að vísa frá till. um vegi í Barðastrandarsýslu í trausti þess, að ríkið léti sitja fyrir að koma á akvegasambandi milli sveita og bæja með tilliti til afurðasölu. En það er víðar en í Barðastrandarsýslu, sem vegasamband vantar milli hungrandi þorpa og bæja, sem þarfnast varanna, og blómlegra sveita, sem vilja selja vörurnar, en koma þeim ekki frá sér. En nauðsyn til úrbóta í þeim efnum sjá kannske ekki þeir, sem ekki sjá út fyrir sitt eigið kjördæmi og hafa varla út úr því komið, eins og t.d. hv. þm. Rang. (IngJ: Hvaða þm. Rang.?) Sá, sem flytur till. En það er furðulegra með hv. þm. S-Þ., sem talsvert hefur ferðazt um landið. En hann taldi nauðsynlegt að leggja veg upp á Vatnahjalla og yfirleitt að leggja sem mest af fjallvegum, þar sem löngun fólksins stefndi þangað, og væri því sjálfsagt fyrir Alþ. að koma á móti og styrkja framkvæmdir í því skyni. S.l. sumar voru byggðir 3 afar dýrir sumarbústaðir á Þingvöllum. Þeir voru 400 teningsmetrar, í þeim voru parketgólf, danssalir, mahognihúsgögn og annað eftir því, af því að eigendurna — fólkið — langaði til að hafa þetta svona. 60 aðrir sumarbústaðir voru einnig byggðir þar s.l. sumar. Því ætti nú ekki Alþ. að styrkja þessar framkvæmdir? Þetta er svo hollt fyrir bæjarbúa. Til þessa stefnir löngun þeirra. Því ekki að hafa þá sem allra fínasta og dýrasta, því að til þess langar fólkið auðvitað allra mest? Það sæmdi þm. S-Þ. að fara að berjast fyrir því.