10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (5097)

333. mál, húsaleigulöggjöf

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Út af orðum hv. þm. V-Húnv. varðandi byggingarefni skal ég taka það fram, svo að það valdi ekki misskilningi, að það, sem ég átti við með því að segja, að vöntun á byggingarefni mundi ekki hafa háð byggingarframkvæmdum, heldur skortur á lánsfé og jafnvel vinnuafli, voru fyrst og fremst verkamannabústaðirnir. Í ræðu minni ræddi ég eingöngu um þessar byggingar. Ég skal ekki draga í efa, enda er mér um það kunnugt, að sumar byggingar aðrar bæði í Reykjavík og utan Reykjavíkur hafi haft við nokkra örðugleika að stríða, af því að það hefur skort byggingarefni. En sérstaklega þessar félagsbyggingar, sem ég ræddi um, þeim mun ekki hafa háð skortur á byggingarefni, og vona ég, að svo verði áfram, að slíkar félagsbyggingar sem verkamannabústaðir og samvinnubyggingar skorti ekki byggingarefni. Hitt hygg ég, að verði örðugra við að glíma, þ. e. að útvega nægilegt fjármagn til bygginganna og jafnvel það að fá jafnmikið vinnuafl og þarf til þeirra miklu framkvæmda, sem þörf er á í þessum efnum. Ég sagði í fyrstu orðunum, sem ég lét falla um þessa till., að ég sæi ekki ástæðu til þess að fara út í að ræða húsaleigulöggjöfina á þessu stigi málsins. Mun ég því spara mér það, þar sem tækifæri mun verða til þess síðar að ræða nánar um þau efni, ef það kynnu að koma fram till. til breyt. um þessi málefni. Þó vil ég segja það út af þeim þrem liðum, sem í till. felast, að 2. liðurinn er í núgildandi löggjöf um húsaleigu. Spurningin er aðeins sú, hvort þetta er nógu skelegglega framkvæmt. Fyrsti liður þáltill., að gerbreyta þeim ákvæðum, sem gilda í löggjöf um þetta efni — um hann verður sennilega tækifæri til að ræða, ef till. kæmi fram í frv.formi. Þá kann líka að verða tækifæri til að ræða við hv. þm. S-Þ. um þá löggjöf, sem gildir í nágrannalöndunum um þetta efni, og verð ég að segja, að hún er vissulega ólík íslenzkri löggjöf, nema ef segja mætti, að sum ákvæði í löggjöf nágrannalandanna væru mun strangari en þau eru í íslenzku löggjöfinni, t.d. get ég getið þess, að tekið hefur verið húsnæði af einstaklingum í Noregi vegna húsnæðisskorts. Þegar húsaleigufrv. lá fyrir, minnir mig, að hv. þm. S-Þ. berðist hraustlega gegn því að þrengja kosti einstaklinga, en þau ákvæði eru til í húsaleigulöggjöf Norðmanna og þá strangari en hér. Við komum ef til vill nánar að þessu síðar hér á Alþ.