10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (5099)

333. mál, húsaleigulöggjöf

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Til viðbótar við það, sem hæstv. forsrh. gat um viðvíkjandi endurskoðun húsaleigul., þá var n. ekki markaður bás af hálfu ríkisstj., hvernig hún hagaði endurskoðuninni, að öðru leyti en því, að hún yrði sem óhlutdrægust og leiddi í ljós, hvar helzt þyrfti úr að bæta. Nú er gert ráð fyrir, að endurskoðuninni verði lokið næstu daga. Áður en ég fór úr ríkisstj., átti ég tal við form. n., og bjóst hann við, að stutt yrði að bíða eftir áliti n. Ég held því, að bezt sé að fresta umr. um þessa till., þar til árangur sést af nefndarstarfinu. Vegna ummæla um framkvæmd l. um opinbera aðstoð við byggingar, þá vildi ég taka það fram, að þó að l. kæmu ekki að því gagni, sem flm. ætlaðist til, þá hafa þau orðið gagnlegri en búizt var við. Í sept. s.l. upplýstist, að verið var að byggja nokkuð á 6. hundrað íbúðir, og er það meiri árangur en menn vonuðust eftir. Hitt er aftur annað mál, að Alþ. breytti þessu frv. á þann veg, að út úr yrðu tekin ákvæði, sem ætluðust til, að sérstök stofnun sæi um, hvaða byggingar sætu fyrir. Samkeppni hefur orðið milli hins opinbera og einstaklinga og milli þeirra, sem byggja verzlunarhús, og þeirra, sem byggja íbúðir.

Þetta hefur áorkað, að minna hefur komið í hlut íbúðarhúsa en vera þyrfti. Þó ber því ekki að neita, að við höfum byggt meira af íbúðarhúsum tiltölulega en flestar aðrar þjóðir. En þrátt fyrir það að við erum langsamlega á undan þeim, sem mest eru á eftir, þá tel ég, að enn megi gera betur í þessu efni og að á þessu ári þurfi að draga skarpar markalínur, hvaða byggingar eigi að leggja í til að tryggja, að íbúðarhúsabyggingar sitji fyrir. Ég held, að við þurfum ekki að gera okkur vonir um, að við fáum byggt allt, sem við þurfum, fyrst og fremst vegna skorts á byggingarefni, en eins og vitað er, er mikill skortur á byggingarvörum og jafnvel í Bandaríkjum Norður-Ameríku, sem ættu að hafa nóg af slíku, og enn þá er þetta tilfinnanlegra í löndum, sem hafa orðið fyrir loftárásum. Má því vera meiri ástæða að leita okkur að byggingarefni í tíma, því að eftirspurn er mikil á því í heiminum, og þurfum við því ekki að undrast, þótt við fáum ekki alla þörf okkar. Hvað viðvíkur ummælum hv. þm. V-Húnv. um, að skortur hefði verið á byggingarefni á síðasta ári, þá kemur mér það á óvart, því að þá var óvenjulega mikill innflutningur til landsins, t.d. komu 15 þús. „standardar“ frá Rússlandi. En hvað sem þessu líður, held ég, að Alþ. gerði rétt að korna á fót stofnun, er skipti efninu milli íbúðarhúsa og annarra bygginga, svo að íbúðarbyggingar sætu fyrir um efni og vinnuafl. Ég á þó ekki við, að. draga beri úr nauðsynlegum framleiðslubyggingum.