10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (5101)

333. mál, húsaleigulöggjöf

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Bæði fyrrv. og núv. félmrh. hafa reynt að svara spurningu minni um skömmtun byggingarefnis, en hvorugur hefur svarað. Fyrrv. félmrh. lagði áherzlu á, að Alþ. þyrfti að tryggja, að byggingarefni færi í það nauðsynlegasta. En hvað hefur þessi hv. fyrrv. ráðh. gert? Hvað segir 38. gr. l. í fyrra um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa? Með leyfi hæstv. forseta:

Meðan skortur er á íbúðarhúsnæði í landinu og erfiðleikar eru á innflutningi nægilegs byggingarefnis að dómi ríkisstj., skal viðskiptaráð, á meðan það starfar, ella sú stofnun, sem ríkisstj. ákveður, kveða á um, til hverra nota fari það byggingarefni, sem flutt er til landsins.“ Þetta er þarna. Þetta var samþ. hér á Alþ. 23. apríl í fyrra. En hvernig hefur svo skömmtunin verið framkvæmd? Hafa ekki verið byggðir sumarbústaðir? — og svo standa hálfgerð hús ónothæf vegna efnisskorts. Alþ. getur samþ. falleg l., og verður núv. félmrh. að sjá um, að byggingarefni verði skammtað, því að ekkert þýðir að semja falleg l., ef þau eru ekki framkvæmd á eftir.