10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (5113)

329. mál, menntaskólinn í Reykjavík (till.GÞG og JJ)

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki miklu við ræðu meðflm. míns að bæta um aðalefni þessarar till., en ég vildi minnast hér á þáltill. um eignarnám á lóðum vegna Menntaskólans í Reykjavík, sem ég flutti hér snemma á þinginu í vetur, áður en bruninn varð í nágrenni menntaskólans. Þessari till. var vísað til fjvn., en hún hefur ekki verið afgreidd frá n. Þetta er að því leyti bagalegt, að búið er að kosta fé til að laga rústirnar og húsin, þar sem brann, og það er óþörf vinna og kostnaður, ef ríkið keypti nú þessar lóðir. Ég óska eftir upplýsingum í þessu máli frá form. fjvn., sem er hér viðstaddur, og eins vildi ég spyrja þá n., hvort það sé satt, sem ég hef heyrt um þá hálfu millj., sem veitt var á síðustu fjárl. til menntaskólans, að fyrrv. menntmrh. hafi fest þrjú hundruð þús. kr. af því fé inni í Laugarnesi, og ég vildi þá heyra frá form. n., hvort n. sæi þá enga leið til að bjarga þessu fé og nota það til að hressa upp á gamla skólann eða nota það til að grundvalla nýjan skóla að betur yfirlögðu ráði.

Þá vil ég skjóta því til hv. 6. þm. Reykv., sem er einn í þeirri n., sem skipuð var til að gera till. um framtíð skólans, hvernig sú n. hafi hugsað sér að starfa. Þessi n. var sett án þingheimildar og í henni eiga sæti þessi þingm., rektor menntaskólans og fleiri, og virðast þeir hafa ákveðið að færa skólann inn í Laugarnes, án þess leitað væri álits Alþ., og er það meiri háttar bíræfni að ætla sér að reisa 600 nemenda skóla fyrir 12 millj. kr. að Alþ. forspurðu. En Reykjavíkurbær tók landið í Laugarnesi undir útvegshús, og kom þá í ljós, að ríkið hafði verið látið leggja fram verðmæti fyrir 300 þús. kr. í þetta fyrirtæki. Þá tók n. sig til og ætlaði skólanum stað á Golfskálahæðinni, en það kom golfmönnum spánskt fyrir, sem eiga það land, og vildu þeir ekki gangast inn á það.

Þetta mál virðist því vera komið á það stig, að tími sé kominn til þess, að Alþ. skipti sér af því og taki ákvarðanir í byggingamálum Menntaskólans í Reykjavík, eftir því sem fé er veitt til þeirra framkvæmda. Það væri mjög æskilegt að fá skýringar hjá form. fjvn., svo að unnt væri að átta sig á málinu.