10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (5115)

329. mál, menntaskólinn í Reykjavík (till.GÞG og JJ)

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Varðandi fyrirspurn hv. þm. S-Þ. um það, hvernig liði afgreiðslu þáltill. á þskj. 90, um eignarnám á lóðum handa Menntaskólanum í Reykjavík, þá vil ég segja þetta. Þessi þáltill. kom til fjvn. 15. nóv. s.l. og var athuguð af n., en var síðan send þáverandi fjmrh. og þáverandi menntmrh. til umsagnar, og barst síðar svar frá menntmrh. með kostnaðaráætlun, sem var, að kostnaðurinn við að kaupa upp lóðirnar mundi nema um 4,5 milljón kr. Frá hæstv. fyrrv. fjmrh. hefur n. ekki borizt svar. Hins vegar hefur afgreiðsla till. tafizt vegna þess, að er leitað var álits í fjvn. um, hvort skyldi afgreiða fjárlög fyrir nýár, þá var það fellt vegna þeirrar stjórnarkreppu, sem þá átti sér stað, og samþykkti n. að stöðva fundi, þar til vitað væri, hvaða ríkisstj. tæki við völdum, og síðan hefur verið haldinn einn fundur í n., en ekki verið teknar ákvarðanir, sem mundu kosta ríkissjóð milljónir, fyrr en í samstarfi við ríkisstj. Ég er ekki sammála hv. þm. S-Þ., að átt hefði að kaupa lóðirnar, áður en brunarústirnar voru hreinsaðar, og tel ég það sjálfsagt verk að hreinsa brunarústir frá heilbrigðislegu sjónarmiði, sem annars hefðu ef til vill verið hættulegar fyrir börn.

Fyrirspurn hv. þm. um fjárveitingu til menntaskólans 1946 skal ég svara að nokkru. Ég held, að 500 þús. kr. hafi verið veittar á fjárlögum til byggingar menntaskóla í Reykjavík, en ekki til kaupa á réttindum, en þó er mér kunnugt um, að einhverjir samningar hafa farið fram um langan tíma milli fyrrv. menntmrh. og Reykjavíkurbæjar um kaup á erfðafestulandi inni í Laugarnesi, og mér hefur verið sagt, að fyrrv. menntmrh. hafi keypt nokkurt land þar og húsgarma, en útgerðarmönnum var svo boðið að ganga inn í kaupin, en þaðan er mér þetta kunnugt. Mér dettur ekki í hug, að fyrrv. menntmrh, hafi eytt 500 þús. kr. í þetta, en ég veit ekki, hvernig ráðh. hefur leyst þetta mál. Ef til vill væri rétt, að umr. færu hér fram um verð á lóðum, og einkennilegt má það teljast, ef þessar lóðir milli Amtmannsstígs og Bókhlöðustígs fengjust ekki fyrir minna en 4,5 milljón kr., og ef til vill þyrfti að setja hér sérstök lagafyrirmæli um, en litla samúð hafa slíkir menn fyrir framtíð menntaskólans.