10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (5117)

329. mál, menntaskólinn í Reykjavík (till.GÞG og JJ)

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Það er velkomið, að ég leiðrétti misskilning hv. þm. S-Þ. og hans hugmyndir. Það er rangt hjá hv. þm., að ég sé formaður í n., sem eigi að ákveða menntaskóla Reykjavíkur stað, en aftur á móti sat ég í slíkri n. undir forsæti rektors menntaskólans, Pálma Hannessonar. Ég held það vera rétt, að lönd hafa verið keypt inn í Laugarnesi, en aftur á móti kom það svo til hluta n. að athuga þessi lönd. Fyrrv. fjmrh. og fyrrv. menntmrh. lögðu til, að lönd yrðu keypt í Laugarnesi. Mín afskipti í þessu máli voru þau, að ég lagði til, að lönd yrðu keypt undir skólann þar og að skólinn yrði byggður í Laugarnesi, en það er misskilningur hjá hv. þm. Barð., að þær till. kæmu frá n., að bjóða útvegsmönnum þetta land, og það hefur aldrei verið um það rætt í fjvn., hver hefði boðið þessi réttindi.

Ég hef ástæðu til þess að ræða um þetta mál að nokkru frá almennu sjónarmiði. Ýtarleg rannsókn hefur farið fram um það, hvort ætla skyldi skólanum að standa á núverandi stað til frambúðar, og hafa þeir menn, sem um þetta hafa fjallað, en það eru skipulagsstjóri, Hörður Bjarnason, og meðstarfsmaður hans, húsameistari Reykjavíkur, athugað, hvort gamli staðurinn væri heppilegur til frambúðar, og staðarvalsnefndin hefur líka athugað þetta mál. Pálmi Hannesson rektor, Hörður Bjarnason og ég tókum einkum þrjú atriði í þessu sambandi til athugunar til að vega og meta í þessu sambandi, en það er kostnaðarhliðin, staðarval frá skipulagslegu sjónarmiði og skólastjórn. Um kostnaðarhliðina hefur hv. þm. Barð. gefið upplýsingar, sem yrði um 4,5 milljón til að kaupa lóðirnar frá Þingholtsstræti að Lækjargötu og frá Amtmannsstíg að Bókhlöðustíg. Skipulagsnefnd fasteigna hefur og athugað fasteignamat á þessum lóðum, en síðan margfaldað þá útkomu með tölunni sex, og mun þá láta nærri, að sú tala komi út, sem hv. þm. Barð. nefndi, en ég vil þó engan veginn fullyrða um það. Húsameistari Reykjavíkur, sem fjallar um skipulagsmál fyrir hönd bæjarstjórnarinnar, er einn með því, að skólinn verði byggður á sama stað og verið hefur, og athuganir hans hafa verið byggðar með hliðsjón af vilja hans í þessu efni, að skólinn verði kyrr, þar sem hann nú er. Hann vill byggja þar 6 hæða hús og gerir um leið ráð fyrir, að hið 100 ára gamla hús verði eigi lengur látið standa. Niðurstaða hans er, að þótt menntaskóli Reykjavíkur verði látinn standa áfram á sama stað, þá verði gamla húsið að víkja, og þá verður mesti glansinn farinn af þessum gamla skólastað, en þá hefur hæstv. utanrrh. lagt það til, að gamla húsið verði flutt á baklóð skólans, en 6 hæða hús byggt á lóð menntaskólans. Skólamenn leggjast eindregið á móti að byggja hærri skólabyggingar en 3 hæðir og segja, að það komi ekki til mála að byggja 6 hæða hús sem skólahús, og hér eru því mótbárur gegn því að byggja skólann á þessum stað. Þá eru mótbárurnar frá kennslusjónarmiði. Nú er gert ráð fyrir því að tengja saman Grettisgötu og Túngötu og Kirkjustræti og Lækjargata verði breikkuð allverulega og verði í framtíðinni aðalumferðargötur bæjarins. Lækjargata yrði þá höfuðbraut í suður og Amtmannstígur höfuðbraut í austur og vestur, og stæði þá skólinn á fjölmennu götuhorni, og þótt hæstv. utanrrh. mæli með þessu, þá vil ég segja sem reyndur kennari, að svo mikils hávaða mundi gæta af umferðinni. að trufla mundi kennslu, og tel ég það ljóð á skólastað. Þá benti hæstv. utanrrh. á það, að þessi staður væri miðsvæðis. Já, svo er nú það, en nú sækja skólann nemendur frá Seltjarnarnesi að Elliðaám og frá Hafnarfirði, og þegar þetta er athugað, er það ljóst, að Lækjargata er ekki lengur í miðbænum, og er líklegast sanngjarnasti staður frá þessu sjónarmiði neðanvert í Öskjuhlíð, og sá staður er ekki fjarri því að vera miðsvæðis, eins og nú háttar. Hæstv. ráðh. talaði um kostnað þann, sem strætisvagnagjöld mundu baka nemendum, en ég vil benda honum á, að Reykjavík er nú orðin það stór, að fjöldi nemenda kemst vart hjá því að nota strætisvagna meira eða minna, en læt ósagt, hvort fleiri þyrftu að nota þá upp í Öskjuhlíð eða niður í Lækjargötu.

Ég fjölyrði nú ekki frekar um þetta. Ég tel skynsamlegt, að hv. fjvn. verði veitt öll þau gögn, sem unnt er, og treysti henni til þess að halda sem bezt á þessu máli. Ég held, að hv. flm. þessarar þáltill. hafi samið till. helzt til flausturslega. Hún hefst svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að Menntaskólinn í Reykjavík hafi áfram aðsetur þar, sem hann er nú“. Við hvern er átt með þessu? (JJ: Við óvini skólans.) Vald ríkisstj. er þá orðið harla skrítið, ef hún þarf að beita sér fyrir einhverju þingvaldi. Það er betra fyrir framhaldið, að þm. gæti sjálfs sín.

Mér fyndist, að við gætum beitt okkur fyrir þessu sjálfir, sem sitjum hér á Alþ., — okkar er valdið — og að við þyrftum ekki að biðja ríkisstj. að beita sér fyrir þessu máli. Ég held, að hv. þm. S-Þ. og meðflm. hans að þessari till. eigi að vita, að sjálfir þm. hafa valdið og þurfa ekki að samþykkja svona áskorun til ríkisstj. um að beita sér fyrir því, að gamli menntaskólinn verði áfram þar, sem hann er nú, og að veitt verði nægilegt fé á fjárl. til að endurbæta hið gamla skólahús, þannig að það fullnægi nútímakröfum til skólahúsa. Hvernig í ósköpunum ætla þessir menn að endurbæta gamla húsið, sem skólinn er í, til þess að það fullnægi nútímakröfum? Ég þekki ekki nema eina leið til þess, þá að reka helming nemenda úr skólanum, hafa þar ekki nema 200 nemendur í staðinn fyrir um 400 nemendur, sem eru þar nú. Þetta er því alveg út í loftið fram sett, að þannig skuli endurbæta gamla skólahúsið, — eins og fleira í þessari þáltill., svo sem það, að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir fjárframlögum til að byggja nýtt leikfimishús, rétt eins og það væri eitthvert aðalatriði í þessu máli. Það er nú alveg nýbúið að endurbæta gamla leikfimishúsið, sem kostaði mikið fé, og ég hefði því haldið, að skólann skorti nú sízt leikfimishús. Svo á Alþ. að skora á ríkisstj. að tryggja skólanum nægilegt landrými milli skólalóðar og Þingholtsstrætis. Hvernig á ríkisstj. að tryggja þetta? Hún getur það ekki, nema með því að fá heimild til þess frá Alþ. Og hvers vegna á þá sjálft Alþ. að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir þessu? Þetta er á valdi Alþ. sjálfs að tryggja, ef það vill.

Hvort sem það kann að eiga við á þessu stigi málsins eða ekki, vil ég benda á, að hv. flm. till. hafa samið hana fljótfærnislega. Meiningin er þessi — og hefði mátt segja það í fáum orðum: Menntaskólinn skal vera á gamla staðnum. Þetta hefði mátt segja á einfaldari og ótvíræðari hátt en tekið er fram í till.

Ég treysti hv. fjvn. til að taka með fullkominni skynsemd á þessu máli.