21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

12. mál, fjárlög 1947

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég flyt nokkrar brtt. við fjárlagafrv., á þskj. 560. Það eru allt till., sem snerta samgöngubætur í mínu kjördæmi, Austur-Húnavatnssýslu. Það er svo, eins og hv. alþm. er kunnugt, að eftir því sem fólki fækkar í sveitunum og framleiðsluhættir breytast, eru kröfurnar meiri og þarfirnar meiri um bættar samgöngur til að koma í veg fyrir, að blómlegar sveitir fari í auðn vegna samgönguerfiðleika.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um þessar till. mínar og ástæðurnar fyrir þeim. Það eru þá í fyrsta lagi tvær till., sem eru hvor annarri skyldar, en það er um að veita 20 þús. kr. til Vatnsdalsvegar og 100 þús. kr. til brúar á Vatnsdalsá. Svo stendur á þarna, sem og annars staðar í þessu héraði, að það, sem ýtir fast á eftir þessum samgöngubótum, er það, að nú eru að verða þáttaskipti í framleiðsluháttum þessa héraðs. Fjárpestirnar hafa nú höggvið svo stórt skarð í bústofn bænda, að til vandræða horfir, og er nú gert ráð fyrir, að til fjárskipta verði tekið á næstunni. Það hefur því verið stofnað til mjólkurframleiðslu og framleiðslunni veitt í það horf. En þessi breyting krefst þess, að samgöngurnar séu bættar, og þá fyrst og fremst, að brýr komi á Vatnsdalsá og Blöndu. Til Vatnsdalsvegar eða brúar á ána er ekkert fé veitt á fjárl., en brúin er aðaláhugamál þess byggðarlags, og þannig stendur á, að til þess að mjólkurflutningar úr þessari sveit séu framkvæmanlegir, þarf að vera hægt að flytja hana samtímis frá bæjum báðum megin árinnar, því að flytja hana sitt hvorum megin er lítt kleift kostnaðar vegna. Nú er verið að gera kostnaðaráætlun um þessa brú hjá vegamálastjóra. Ég veit ekki um niðurstöður þeirrar áætlunar, en ég fer ekki fram á meira en 100 þús., býst ekki við, að það þýði, en gera má ráð fyrir. að brúin verði dýr.

Þá legg ég til, að framlagið til brúar á Blöndu verði hækkað úr 200 þús. upp í 500 þús. Áætlaður kostnaður við þessa brú og vegina að henni er 1.600 þús. Lagt er aðeins til, að nú verði veitt 200 þús., og þyrfti þá að biða óhæfilega langan tíma, ef ekki yrði veitt nema 200 þús. á ári. Um þessa brú er það að segja, að hún er mjög nauðsynleg vegna mjólkurflutninganna, sem mundu auðveldast að mjög miklum mun, þegar hún er komin. En hér kemur fleira til, en innanhéraðssamgöngur, því að þetta er á Norðurlandsbrautinni, og mundi sú leið styttast við það, að brúin kæmi, um fulla 30 km. Það er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt, að þessi leið er miklu snjóléttari, en ytri leiðin. Þessi leið er nú, þegar Langidalur er alveg ófær, fær í bezta lagi. Það hefur kostað þúsundir og aftur þúsundir að ryðja brautina í Langadal, sem svo jafnóðum hefur fennt í aftur. Fyrir nokkrum árum kostaði það t.d. 9 þús. í janúar. Á þessa leið er að vísu ekki komin nema stutt reynsla, þar sem svo stutt er síðan vegurinn yfir Stóra Vatnsskarð var lagður, en t.d. í vetur var þessi leið fær, þó að Langidalur væri ófær, og hefði þá fremri leiðin verið farin, ef brú hefði verið á Blöndu. Var þannig reyndar farið að, að fólkið var keyrt að vestri bakka hennar og svo gekk það yfir, þar sem aðrir bilar tóku svo við því að austan. Í sambandi við þessa brú er framlag til Svínvetningabrautar. Fjvn. hafði það framlag ekki nema 60 þús. Ég fer fram á, að 20 þús. verði bætt við, en þyrfti að vera meira, því að það er vegurinn að brúnni.

Þessar brýr eru það, sem ég legg mesta áherzlu á. Svo hef ég lagt til, að framlagið til Skagastrandarvegar verði hækkað um 30 þús. kr. Til Skagastrandar er nú varið miklu fé samkvæmt lögum til að koma þar upp betri atvinnuskilyrðum, og vantar þó á til að fullnægja lögunum, en ég geri ekki brtt. um það við þessa umr. En það er ekki hagsýni, þegar svona stendur á, að láta sig muna um 15 km vegarspotta. Þessi vegur er fær að sumrinu, þegar þurrt er um, en verður strax ófær og eitthvað blotnar, því að það eru niðurgrafnar melgötur. Þessi vegur er fljótgerður, því að allt er þetta ýtufært land. Skagastrandarvegur nær alla leið út að Kálfshamarsvík, og á þeirri leið vantar mjög tilfinnanlega viðgerð.

Þá er í fjórða lagi brtt. um að veita 15 þús. til Norðurárdalsvegar, en það er vegurinn, sem er milli Skagafjarðar og Skagastrandar. Mér er svo frá skýrt, að fyrir svipaða upphæð mundi mega laga þennan veg svo mikið, að hann yrði vel fær yfir sumarið. Þessi vegur mundi stytta leiðina mjög mikið fyrir ferðafólk og flutninga, sem þyrftu að komast þessa leið milli Skagastrandar og Sauðárkróks, en sú leið er alltaf að verða fjölfarnari, og mun enn aukast, er síldarútgerðarmenn þurfa að komast milli Siglufjarðar og Skagastrandar, og fyrir þá hefur það mjög mikla þýðingu. að þessi vegur sé sæmilega fær.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar brtt. Ég vænti þess, að þær séu ekki það stórvægilegar, að þær finni ekki náð hjá hæstv. stjórn og Alþ. Mér er það vel ljóst, að það eru mikil vandkvæði á því að skipta því fé, sem um er að ræða, svo að allir uni vel við. Þó vildi ég minnast á eitt atriði, sem skiptir okkur Norðlendinga miklu, og ég sé, að fjvn. er á allt annarri skoðun og ef til vill hæstv. ríkisstj., en ég er.

Fjórtánda brtt. fjvn. er um, að veittar séu 250 þús. kr. til Hvalfjarðarferjuvegarins, en mér er nú ekki kunnugt um, að einn eyrir sé fyrir hendi til þessa. Mér er ekki kunnugt um, að Alþ. hafi samþ. fjárveitingu til bilferju á Hvalfjörð, sem kosta mun 11/2–2 millj. kr. Það er gefinn hlutur, að það verður að halda við Hvalfjarðarveginum og að leggja verður áherzlu á, að hann verði eins greiðfær og góður og kostur er á, en hann má nú teljast í það góðu ásigkomulagi, að ekki mun kosta mikið fé að halda honum við, og teldi ég betur farið að verja þessu fé, sem er ætlað til ferjuvegarins, í að gera Hvalfjarðarveginn vel færan, og það er allvafasöm ráðstöfun að verja svona miklu fé til ferjuvegar, en engu til Hvalfjarðarvegarins. Þó að ég flytji ekki brtt. við þetta, þá teldi ég þetta réttara, en að setja mikið fé í hæpið fyrirtæki.

Að öðru leyti ræði ég ekki frekar né fleira um þetta, en vil undirstrika ummæli samstarfsmanna minna í nýbýlastjórn, að við fáum fjárveitingu, sem um getur í bréfi til hv. fjvn., en sú upphæð er ef til vill of lág, en við vitum ekki enn sem komið er, hve margir koma til að heyra undir nýju l. um nýbyggðir og landnám eða gömlu l. Það er ekki hægt að komast af með minna.

Ég treysti svo, að hv. alþm. taki till. mínum vel og gefi þeim góða úrlausn.