20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (5126)

290. mál, samvinnubyggð

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég álít heppilegt, að þessi tilraun, sem ég sting hér upp á, sé gerð af þessum flokki, og hef ég snúið mér að þeim málsvara flokksins, sem mest er við kenningar hans riðinn. Ég vil ekki blanda mér í viðbótartill. hv. 6. þm. Reykv. eða hvaða laun hann ætlar mér, en vil benda honum á, að þar sem ég, eins og hann, fæ dagkaup sem þm., verður það að fara eftir mati þingsins, hvort því finnst einhver sérstök umbun koma til greina. Ég vil ekki ræða um þetta nú, því að þessi umbun kemur ekki fram, fyrr en býlin hafa verið reist og fyrr en ávöxtur er fenginn.

Ég get þó aðeins farið nokkrum orðum um það, hvernig þessi mál horfa við. Þetta er ekki alveg eins einfalt og þessir menn vilja vera láta. Flokkur hv. 6. þm. Reykv. er í mörg ár búinn að svívirða bændastétt landsins og halda því fram í ræðu og riti, að íslenzkir bændur, sem í dreifbýlinu búa, lifi eins konar lægra lífi, þeir séu utan við menninguna og tækni þeirra við búskapinn sé svo frumstæð, að hún þoli ekki samanburð. Því er haldið fram af Halldóri Kiljan Laxness, að matvörur, framleiddar af þessum bændum, séu óætar. Við þekkjum lýsingar hans af kjötinu, smjörinu og mjólkinni, í stuttu máli, það er búið að dengja yfir bændastéttina alls konar svívirðingum. Bændur eiga enga framtíð að eiga fyrir sér og það sé ekki annað við þá að gera en að taka þá upp og setja þá niður nærri bæjum og hafa þá þar sem eins konar grýlur. Þess vegna er það, að hv. 6. þm. Reykv. kemur það illa að vera tekinn á orðinu, í staðinn fyrir að þeir hafa fengið mótmælalaust að gaspra eins og þeir hafa viljað fram að þessu. Það er ástæðulaust, að þeim sé svarað öðruvísi en svo: Sýnið trú ykkar í verkunum.

Ég sé ekkert á móti því, að ég segi frá ræðu, sem Karl Sigurðsson, bóndi á Draflastöðum hélt árið 1942. Hann sagði: „Hvernig stendur á því, að þið sósíalistar farið ekki að snúast við málunum, farið að vinna eins og aðrir menn? Því farið þið ekki að taka ykkur eitthvað fyrir hendur, gera út, reka búskap eða eitthvað annað og hættið að kjafta?“ Hann benti á það grunna og stanzlausa kjaftæði, sem flokkurinn heldur uppi fyrir hinum vinnandi stéttum landsins, og svo hið dæmalausa máttleysi, sem kemur fram hjá þessum mönnum, þar sem þeir eiga að taka til hendinni.

Hv. 6. þm. Reykv. hefur ekki sýnt sína miklu trú í verkinu, þegar hann skipaði meiri hl. bæjarstjórnar Reykjavíkur fyrir nokkrum árum. Honum var í lófa lagið að skapa samvinnubyggð. Hann hefði getað komið upp fjölda heimila. En hann vissi, að allt, sem flokkur hans hefur sagt um þetta, var markleysa. Þess vegna lyppaðist hann niður með Korpúlfsstaði, og þess vegna er það, að hann leggur á flótta nú. Hann þorir ekki að taka á sig ábyrgðina í þessu máli. Hv. 6. þm. Reykv. ætlast framvegis til, að búskapurinn sé rekinn upp á gamla mátann, en flokksmenn hans ætla bara að halda áfram að svívirða bændurna. Nú verða þeir annað hvort að gera, að taka að sér að gera þessa tilraun eða hætta að svívirða bændurna.