28.03.1947
Sameinað þing: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (5131)

335. mál, þjóðleikhús

Flm. (Jónas Jónsson):

Eins og hv. þm. er kunnugt, fer að líða að því, að þjóðleikhúsið verði fullgert. Skipaði fyrrv. menntmrh. n. í fyrra til þess að gera frumdrög að frv. um skipulagningu þjóðleikhúsrekstrar. Í þessu frv. var gert ráð fyrir því, að þetta verði ríkisfyrirtæki og að þar af leiðandi verði ríkið að ráða nokkuð mikinn hóp af fastlaunuðum mönnum til þess að starfa við þjóðleikhúsið. Um þetta er engin ákvörðun tekin í l. frá 1923, en það stendur opið, með hverjum hætti leikhúsið verði rekið, m.a. hafði fyrrv. stjórn aðeins látið rannsaka málið, en það hafi ekki verið rætt í blöðum eða á mannfundum. Þar af leiðandi þótti mér ástæða til, að málið væri lagt fram fyrir þjóðina, áður en ákvörðun væri tekin um það. Það er þess vegna ekki nema um tvennt að gera, annaðhvort að þjóðleikhúsið verði samvinnufyrirtæki leikara eða rekið sem opinbert fyrirtæki. Nú munu ýmsir menn hér í bænum, ekki sízt í hópi leikaranna, hafa hugsað sér, að það væri hentugt, að þetta yrði ríkisfyrirtæki og að skemmtanaskatturinn rynni í rekstur þjóðleikhússins. Skemmtanaskatturinn er töluvert miklir peningar eða um 11/2 millj. kr. á ári. Þessi skattur kemur alls staðar að af landinu, en þó sérstaklega úr kaupstöðum og þéttbýli, og framan af var óánægja yfir því hjá ýmsum mönnum utan Reykjavíkur að vera skattskyldir í þetta hús, en þó mundi sú óánægja verða meiri, ef hugsað væri til, að allar skemmtanir úti um land yrðu skattskyldar í rekstur þjóðleikhússins. Ég vil benda á það, að t.d. Akureyri borgar nú 140 þús. kr. í skatt af sínum skemmtunum og hinir kaupstaðirnir hlutfallslega jafnmikið. Ég álít, að þessi leið, sem mun hafa vakað fyrir þeirri n., sem fyrrv. menntmrh. skipaði, að þessar tekjur allar renni til rekstrar þjóðleikhússins. Ég get ekki séð, að í því sé nokkur heil brú. Það er mikið átak, sem þjóðin er búin að gera með því að borga skemmtanaskattinn í þetta hús, en hún hefur staðið saman um þetta. En ef t.d. kaupstaðir eins og Akureyri og Ísafjörður eiga að greiða 200 þús. kr. á ári í rekstur þjóðleikhússins hér í Reykjavík, þá leiðir það af sjálfu sér, að þessir bæir standa mjög höllum fæti. Hver leiksýning hjá þeim og hver skemmtun fer þá ekki í það að koma upp myndarlegu húsi, heldur í rekstur þess.

Ég er búsettur hér í bænum, og það er ekki mín löngun að spilla fyrir bænum, sem ég er í, en það verður að hafa hóf á hverjum hlut. Ég held, að hin mikla aðsókn til Reykjavíkur mundi aukast stórlega, ef því yrði bætt ofan á annað, að daglegum rekstri skemmtanalífsins í Reykjavík yrði haldið uppi með því að skattleggja allan slíkan rekstur utan Reykjavíkur. Ég hef þess vegna lagt til, að hafður verði á þessu annar háttur, sem sé sá, að skemmtanaskatturinn verði áfram í sama horfi og nú og honum verði varið til þess að styðja leikhúsbyggingar og samkomuhúsbyggingar í kauptúnum, kaupstöðum og í sveitum. Þetta er fullkomlega réttlátt. Það er búið að styrkja Reykjavík í 25 ár, svo að það er bezt, að Reykjavík fari að styðja aðra. Svo bezt farnast okkar þjóð, að jafnvægi sé, ekki aðeins milli kaupstaða, heldur alls staðar. Mætti þá koma upp nokkurn veginn samsvarandi samkomuhúsum. Það er alveg leitun á góðum samkomuhúsum úti um land, og raunar hér í Reykjavík líka, og er furðulegt, að hér skuli ekki vera betra leikhús en Iðnó, sem góðir iðnaðarmenn reistu fyrir 50 árum og var þá gott og myndarlegt hús.

Öll sanngirni virðist mér mæla með því, að haldið verði áfram að reyna að koma upp samkomuhúsum úti um land, og hér í Reykjavík verði svo þjóðleikhúsið rekið sem nokkurs konar samvinnufyrirtæki leikaranna undir umsjón ríkisins. Allir hljóta að sjá, að miklu munar fyrir leikarana, sem búa nú við hin óhagstæðustu kjör, að fá stórt og gott hús og geta haft mikið fé upp úr því að leigja þar eitthvert húsrúm. Í þjóðleikhúsinu eru mörg herbergi af ýmissi stærð, og hefur t.d. tónlistarskólinn verið þar til húsa undanfarið. Ef nú félag leikara tæki að sér rekstur hússins, þá kæmi til greina að taka leigu fyrir það, en þess hefur húsaleigunefnd ekki krafizt, meðan húsið er í smíðum. Ekki er gert ráð fyrir nema þrem leikkvöldum á viku, og er þá sjálfsagt að hafa kvikmyndasýningar, söngskemmtanir eða fyrirlestra hin kvöldin, þannig að húsið getur gefið mikið fé auk þess, er kæmi í húsaleigu. Ég hef heyrt, að komið gæti til greina að hækka skemmtanaskattinn um helming og skipta honum milli hússins og leikara, en það finnst mér óviturlegt, því að skatturinn er þegar nógu hár, og einkennilegt finnst mér, ef leikarar eiga að hafa föst laun. Það eru næg dæmi um leikara, sem stundað hafa list sína án þess, og það svo vel, að næstum er útilokað, að betri fáist, þótt föst laun hefðu. Má sem dæmi benda á Jens B. Waage, Guðrúnu Indriðadóttur og Stefaníu Guðmundsdóttur. Jafnvel í Kaupmannahöfn, sem er fast að milljónar bær og á mikið af gömlum leikhúsum, þá hefur alltaf á undanförnum árum verið mikið deiluatriði í þinginu, hvort Danir hefðu efni á að halda við rekstri konunglega leikhússins sem ríkisstofnunar. Ég vildi nú óska, að málið gengi til n. Fyrir mér vakti fyrst og fremst að gefa þær upplýsingar í málinu, sem gagna mættu þingi og þjóð.