23.05.1947
Sameinað þing: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (5137)

291. mál, samvinna ísl. þegna við þjóðverja

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þann 11. marz s.l. var vísað hér til 2. umr. og utanrmn. þáltill. á þskj. 489, um skýrslusöfnun um mál íslenzkra þegna, sem ásakaðir hafa verið um samvinnu við Þjóðverja í síðustu styrjöld gegn hagsmunum Dana og Norðmanna. Hefur ekkert heyrzt frá n. síðan. Í sambandi við þetta mál vil ég upplýsa, að ég hef síðan fengið urmul af alls konar upplýsingum frá viðkomandi aðilum, og vil ég, áður en þessu þingi slítur, lesa upp bréf, sem ég hef fengið í sambandi við þetta mál. Það er ósk mín, að hæstv. forseti taki þessa þáltill. á dagskrá á næsta fundi og fái efnislega afgreiðslu hennar, áður en þingi slítur. Ég tel, að það væri hvort tveggja sómi íslenzku þjóðarinnar og stórkostlegt hagsmunamál þeirra manna, sem hlut eiga að máli. Þetta bréf er frá móður eins af þeim aðilum, sem hafa orðið fyrir morði í sambandi við þetta mál. Bréfið hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Kaupmannahöfn, 27. apríl 1947.

Herra alþingismaður

Gísli Jónsson,

Reykjavík.

Hér með leyfi ég mér að senda yður Skýrslu um handtöku sonar míns og þær misþyrmingar, sem síðar leiddu hann til dauða. Þetta átti sér stað á Maglegaardskólanum dagana 5.–6. maí 1945.

Þann 5. maí 1945 var Karl, sonur minn, handtekinn, þar sem hann var á skemmtigöngu úti á Ordrupveginum. Það var maður á mótorhjóli, sem handtók hann fyrir það að vera nazisti, en síðan komu fimm frelsisvinir og fluttu hann til Maglegaardskólans.

Sjónarvottur skýrir svo frá:

Ungum manni, eða ca. 16 ára dreng, sem stóð við hliðina á mér í margar klukkustundir, var m.a. misþyrmt á þann hátt af varðflokkunum, sem skiptust á, að hann var látinn halda höndum uppréttum lengstan tímann, og þegar hann af eðlilegum ástæðum lét hendurnar síga dálítið við og við var hann sleginn í bakið og á olnbogana með skammbyssuhlaupum, og hann hlýtur að hafa verið barinn til óbóta, því að þeir slógu mjög fast.

Fyrir hádegi á sunnudag fékk hver okkar þykka rúgbrauðssneið án smjörs eða áleggs auk dálítils vatnssopa, sem við áttum að drekka úr sömu könnunni. Það voru konur úr D.K.B., sem framreiddu þetta, en ég vildi einskis neyta. Um klukkan 15 fengum við smurt brauð, auk þess sem við höfðum sama aðgang að drykkjarvatni og áður. Brauðið var af lélegustu tegund, en ég borðaði þó hálfa sneið — matarlystin var ekki meiri, en vatnskönnuna lét ég fara fram hjá heilsunnar vegna.

Nafnakall byrjaði um klukkan 4. Í fyrstu hélt ég, að nafnakallið stæði í sambandi við yfirheyrslur, svo að þessi skrípaleikur tæki enda með lausn, en það kom brátt í ljós, að það var vegna tilfærslu okkar að stórum flutningavögnum, sem biðu fyrir utan og áttu að flytja okkur í aðrar stöðvar.

Okkur var hrúgað í opna flutningavagna, sem auðsjáanlega höfðu verið notaðir til torfflutninga. Við vorum ca. 20 í hverjum vagni og fengum skipun um að standa með uppréttar hendur, en síðan var okkur þjappað saman í einn hnapp í miðjum vagninum, en frelsisvinur var í hverju horni með vélbyssu á lofti, reiðubúinn að hleypa af. Það úði og grúði af skríl á götunni, sem sýndi þá ótrúlegu ruddamennsku að draga á eftir sér börn. Frelsisvinirnir æstu upp lýðinn, og brátt dundu yfir hæðnisóp, en orðið „mögsvín“ var mest notað.

Morð og manndráp.

Í fremsta vagni lestarinnar var fyrr nefndur 16 ára drengur. Hann stóð berhöfðaður fremstur í þyrpingunni, og fallega, ljósa hárið flaksaðist til í storminum. Einn frelsisvinurinn, sem stóð frammi í vagninum hægra megin, var mjög áfjáður að æsa upp lýðinn, sem stóð á gangstéttinni fyrir framan skólann. Hann kallaði m.a., að það væru eingöngu „hipodrengir“ í vagninum, og þá kváðu við óhljóð. Skyndilega kallaði einhver á gangstéttinni: „Við viljum sjá framan í smettin á þeim,“ og aðrir tóku undir. Ungi frelsisvinurinn var auðsjáanlega upp með sér af þessum undirtektum og kallaði til okkar, að við skyldum snúa „smettunum“ fram að gangstéttinni, þar sem lýðurinn stóð. En í sama augnabliki kom hann auga á ljóshærða piltinn, sem hann auðsjáanlega þekkti eftir pyntingarnar í leikfimissalnum. Hann gleymdi fyrirskipun sinni, og gekk í staðinn að drengnum og greip í hárið á honum og dró hann hrottalega að þeirri hlið vagnsins, sem sneri að múgnum og kallaði: „Hér sjáið þið reglulegan „hipodreng“.“ Og eins og til þess að leggja áherzlu á orðið „hipodrengur“, kippti hann og rykkti hranalega í hárið á þessum ólánssama dreng, svo að hann hrasaði um miðaldra fanga, sem ekki var nógu fljótur að víkja til hliðar. Um leið kvað við óp frá lýðnum: „Skjótið hann“, og frelsisvinurinn tók þegar viðbragð og skaut drenginn, sem stóð hálfboginn og sneri bakinu að honum. Kúlan fór í gegnum mjóbakið og út gegnum brjóstið, en síðan flaug hún í brjóst miðaldra mannsins og að lokum gerði hún skinnsprettu á hálsi eins frelsisvinarins, sem stóð til hægri aftan í vagninum.

Drengurinn hafði ekki átt neitt saman að sælda við „Hipo“ fremur en við hinir. Hann var, samkvæmt því sem síðar var upplýst, tekinn sem gísl, þegar frelsisvinirnir gátu ekki fundið þann, sem þeir leituðu að. Hann var auðsýnilega ekki margmáll, því að það eina, sem ég heyrði hann segja til andmæla við misþyrmingunum í leikfimissalnum, var þetta: „Það er ótækt að hegna mér fyrir athæfi, sem byggt er á staðlausri grunsemd.“ Og við misþyrmingunum í vagninum, sem annars áttu sér stað með leifturhraða, sagði hann aðeins þessi orð, sem hann beindi til morðingjans: „Ó, svínið þitt“.

Frelsisvinurinn, sem fékk skinnsprettuna á hálsinn, fór auðvitað strax úr vagninum, en hinir helsærðu voru látnir liggja hjálparvana. Þarna lá drengurinn og starði á morðingjann, sem kallaði til annars frelsisvinar, er stóð aftan til í vagninum vinstra megin, og skipaði honum að loka augum drengsins. En þegar fyrsta tilraun misheppnaðist, kallaði morðinginn æstur: „Skjóttu hann gegnum höfuðið. Ég þoli ekki, að hann stari svona á mig.“ Frelsisvinurinn lét sér þegar segjast, og á sama augnabliki skaut hann gegnum höfuð honum, og nú var svo komið, að annar lá dáinn, en hinn deyjandi í vagninum. Í þessum svifum kom einn af leiðtogunum þjótandi og spurði: „Var skotið á vagninn?“ Fyrri morðinginn varð fyrir svörum og sagði: „Nei, það var ég, sem skaut einn mann. Hann þrjózkaðist, svo að ég átti ekki annars úrkost.“ Síðan fór leiðtoginn.

Múgurinn æpti stöðugt og margir kölluðu: „Hendið honum hingað niður, svo að við getum traðkað á honum.“ En samtímis kölluðu aðrir, að þeir skyldu skjóta okkur alla í vagninum, og á tímabili bjóst ég við, að það mundi ske. En hins vegar var ég orðinn svo skeytingarlaus um allt, eftir að hafa horft á allar pyntingarnar, að ég næstum óskaði þess.

Við biðum stöðugt á svæðinu fyrir framan Maglegaardskólann, og kappsfullur blaðaljósmyndari klifraði upp á vagninn til þess að taka mynd af myrta drengnum.

Ég hafði orðið að víkja til hliðar, þegar drengurinn var dreginn á hárinu, þangað sem ég stóð, og ég var þétt við hann, þegar hann var skotinn. Nú atóð ég þannig, að það var óhjákvæmilegt að stíga ofan á dána drenginn, þegar vagninn tæki til að hristast á akstrinum, og þess vegna bað ég fyrri morðingjann að sjá um, að sjúkrabíll væri fenginn til þess að flytja hinn dána og hinn særða á brott. En morðinginn mátti ekki heyra það nefnt og sagði, að það væri nógu snemmt, þegar við kæmum til Vestre-fangelsisins. (Hér með fengum við að vita um ákvörðunarstaðinn). Þegar fleiri fóru að krefjast, að sjúkrabíll væri útvegaður, fengum við svarið: „Haldið ykkur saman.“ En árangurinn af síendurteknum kröfum varð samt sá, að sóttar voru börur, og síðan var þeim báðum hrúgað upp á þær niðri á götunni. Hvað síðar skeði, vissi ég ekki, en félagar okkar á seinni vögnunum sögðu síðar, að drengnum hefði verið hent í göturæsið, á meðan hinn helsærði var fluttur á brott. Það er ótrúlegt, á hve hrottalegan og miskunnarlausan hátt þeim var hent á börurnar. Særði maðurinn lá aftast í vagninum og hvíldi upp við vagnhlerann. Það varð að taka hlerann frá til þess að flytja þá niður á börurnar. Frelsisvinirnir byrjuðu á þessu án þess að taka minnsta tillit til hins særða, og ég sagði strax, að þeir mættu ekki fella hlerann án þess að styðja manninn, til þess að hann félli ekki niður. Morðinginn var nú orðinn mjög málóður og svaraði, að það gerði ekkert til, þótt hann félli niður á götuna (ca. 11/2 metra niður á höfuðið), þar sem hann mundi falla í öngvit. Við fengum því þó til leiðar komið með kröfum okkar, að þeir urðu gætnari og varfærnari, en samt sem áður flaustruðu þeir þessu svo af, að eftir að þeir höfðu lyft hleranum ca. metra upp, féll hann aftur niður og ofan á hönd særða mannsins og hefur án efa brotið hana, og þegar ég sá síðast, slóst höndin enn í eitt járnhakið á hleranum.

Eftir að þeir tveir, hinn særði og hinn dáni, höfðu verið fluttir af vagninum, hófu morðingjarnir samtal, sem sýnir vel hinn lúalega ribbaldahátt þeirra. Annar kallaði aftur til hins: „Eigum við ekki að skjóta þá alla?“ Þessu svaraði hinn: „Já, það getum við gert, en þegar þú skýtur, þá athugaðu, hvar ég stend, svo að þú miðir ekki í þá átt. Kúlurnar fara í gegnum 5–6 menn.“ „Það skal ég gera,“ svaraði hinn. Hótanir þessar urðu þó að engu, þótt ekki skorti örvunaróp frá lýðnum.

Þann 6. maí sneri ég mér til Maglegaardskólans og náði tali af yfirlögregluþjóni, sem sagði mér, að ég skyldi alls óhrædd halda heim, því að ekkert illt mundi henda son minn. Ég beið því til næsta dags, og þegar ég fékk enn ekkert að heyra um örlög sonar míns, fór ég aftur og aftur í skólann í örvæntingu minni, en fékk alltaf sama svarið og fyrst. Við þessa hræðilegu óvissu varð ég stöðugt að búa. Það var fyrst 11. maí 1945, að lögregluþjónn kom með þau orð, að sonur minn fyndist hvergi, og bað mann minn að fylgja sér til Amtssjúkrahússins, því að þar lægi ungur maður, sem hefði verið skotinn í Maglegaardskólanum. Það kom í ljós, að það var Karl, sonur minn.

Þetta er frásögnin um þau hörmulegu örlög, sem biðu sonar míns, og þá sorg, sem grúft hefur yfir heimili okkar. Brátt er ár liðið, og ekkert hefur verið gert í þessu máli. Það er von mín, hr. alþingismaður, að þér lesið skýrslu þessa og skiljið, hve hræðilegt það er að geta ekki hreinsað nafn sonar okkar. Og í von um aðstoð yðar og fulltingi, er ég yðar einlæg ............................

Ég vil svo að endingu ítreka þá ósk mína til hæstv. forseta, að hann taki þessa þáltill. á dagskrá þegar á næsta fundi.