21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

12. mál, fjárlög 1947

Arnfinnur Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 360 flyt ég nokkrar brtt., ýmist einn eða með öðrum þm. Fyrst er brtt. við 12. gr. frv., nýr liður til byggingar fávitahælis, sem ég flyt með hv. 8. þm. Reykv. Á þessu sama þskj. hefur komið fram önnur till., varðandi þetta efni. Er ég á dögunum flutti breytingar við gildandi lög um fávitahæli, þá gat ég þess, að ég mundi flytja till. þessa, og hafði þá ekki grun um, að annar þm. mundi flytja till. um sama efni. Hitt er viðurkennt mál, að nauðsyn er á að veita fé í þessu efni, og mun ekki af veita 1 milljón króna. Hitt er mest um vert, að hafizt sé handa um byggingu hælisins, og er hæstv. Alþ. þegar búið að viðurkenna þetta, og er slík viðurkenning er fengin, þá verður ekki staðar numið. Hv. flm. till. um 1/2 millj. til þess sagði það vera í lögum. Ég viðurkenni, að til þess að veita fé til framkvæmda þarf ekki breyt. á lögum, en annars eru í lögunum ýmis ákvæði, sem eru alls óþörf í l. sem þessum, og önnur ákvæði, er mættu standa til bóta. Ég vona og ég veit, að þetta mál fær einhverja lausn á þessu þingi, og til þess þarf að veita 1 milljón kr., en ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta nú.

Í öðru lagi flyt ég brtt. við 13. gr. A. II, a., um Eskifjarðarveg á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, en sú vegalengd er 15 km. Þetta er ein hin fjölfarnasta leið á Austurlandi, en þessi vegur er einn þeirra, sem hlaðinn er upp á stuttum köflum, og er mikil nauðsyn á að gera þennan veg góðan.

Þá er á sama þskj. brtt. við 16. gr., að til raforkumála verði veittar 3 milljónir króna. Ég hef átt tal við rafmagnseftirlit ríkisins og fengið þar upplýsingar varðandi þessi mál, sem lagðar hafa verið fyrir fjvn. Eftirlitið áætlar 6 milljónir kr. til þeirra framkvæmda, sem fyrirhugaðar eru, en þar dragast frá kr. 1.800.000,00, sem búið er að kaupa efni fyrir, en samt vantar 4.200000,00. Rafveitur þær, sem áætlaðar eru, eru allar úti um land, t.d. frá Akureyri til Dalvíkur, frá Sogi til Þykkvabæjar, frá Sogi að 24 býlum við Selfoss, Hveragerði og Reykjahverfi. Enn fremur frá Sauðárkróki til Varmahlíðar og til Aðaldals og Reykjahverfis í Suður-Þingeyjarsýslu. Samkvæmt þessu fá 327 býli rafmagn, sem 3.510 menn verða aðnjótandi. Línan er samtals 243 km og stofnkostnaður áætlaður 10 millj. kr. og af því á rafmagnseftirlitið að styrkja 8 millj., en ríkið veitir 6 millj. kr. Ég, hv. þm. Siglf. og 2. þm. Reykv. töldum, að þessar framkvæmdir mundu stöðvast, ef kippt væri að sér hendi með fjárveitingu, og flytjum við því þessa brtt.

Þá flyt ég brtt. við 13. gr. A. III, sem er nýr liður, um brýr á Geitdalsá og Múlaá í Skriðdal, sem munu kosta um 180 þús. kr. Þetta eru einhver mannskæðustu vatnsföll á Austurlandi, en oft hefur verið talað um að brúa Grímsá, en hún myndar þessar tvær ár. Nú er talið réttara að brúa árnar hvora fyrir sig. Á milli ánna eru nokkur býli og þar á meðal kirkjustaður. Vona ég, að alþm. athugi þetta og veiti því góðan skilning.

Þá er brtt. við 20. gr., nýr liður, er verður c, um flugskýli og dráttarbraut á Eskifirði. Ég mun taka till. aftur til 3. umr., en vil benda á það, að Eskifjörður hefur farið varhluta af flugsamgöngum enn sem komið er. Flugvélar koma á Reyðarfjörð, sem hefur helmingi færri íbúa, en Eskifjörður, en það kostar fólk að ferðast á milli þessara staða, ef komast á í samband við flugleiðir. Ég tel því nauðsyn á, að flughöfn verði byggð á Eskifirði, því að núverandi ástand er mjög óviðunandi fyrir íbúa Eskifjarðar.

Þetta eru nú brtt. þær, sem ég flyt við frv. Ég vil svo leyfa mér að drepa aðeins á nokkrar brtt., sem liggja fyrir og ég tel sérstaka ástæðu til að láta í ljós álit mitt um. Og er þá í fyrsta lagi till. við 14. gr., um fjárveitingu til rannsókna á þroskastigi barna. Hv. fjvn. hefur að vísu hækkað aftur dálítið þennan lið frá því, sem upphaflega var gert ráð fyrir, um 10 þús. kr. til annarra útgjalda, en því miður ekki séð sér fært að taka upp þá fjárveitingu, sem sá maður, sem nú vinnur einn að þessum málum sem stendur, hefur talið, að þyrfti óhjákvæmilega að veita til þess að þetta starf gæti komið að tilætluðum notum. En á þskj. 545 hafa hv. 6. landsk. og hv. 8. landsk. flutt brtt. í samræmi við það, sem farið er hér fram á, að veitt verði til þessa, eða svo að segja, þar sem þeir leggja til, að varið sé allt að 81.400 kr. í þessum tilgangi í staðinn fyrir 40 þús. kr.

Það, sem hv. fjvn. virðist ekki hafa tekið tillít til, að þyrfti, eru laun aðstoðarmanns, sem dr. Matthías Jónasson telur nauðsynlegt að fá til þess að vinna þessi störf.

Annar liður er, sem hv. fjvn. virðist ekki hafa tekið tillit til, sem í raun og veru breytir engu, en það er að færa saman laun dr. Matthíasar Jónassonar, sem nú eru greidd alveg í tvennu lagi, 7500,00 kr. í öðru og 2500,00 kr. í hinu, 10 þús. kr. alls Það breytir að sjálfsögðu engu fyrir fjárl., hvort þetta er greitt í einu eða tvennu lagi, en aðalatriðið er, að hv. fjvn. virðist ekki hafa séð sér fært að fallast á þá hækkun, að ráðinn yrði fastur aðstoðarmaður við þetta starf.

Ég vil benda á, að til þess að þetta starf geti komið að notum, er óhjákvæmilegt að geta haft a.m.k. einn mann auk dr. Matthíasar við það. Hér er um brautryðjandastarf að ræða og þess vegna ákaflega mikið að gera. En þessi starfsemi er talin orðin óhjákvæmilegur liður í öllum skólamálum nágranna vorra og verður það áreiðanlega hér líka, og er þegar orðinn viðurkenndur, þó að hann sé ekki enn kominn í fast horf. Ég vil þess vegna mæla með þessari hækkun, sem lögð er til á þskj. 545.

Þá er hér annað, sem hv. fjvn. hefur fært hér á annan veg og mig furðar mjög á og ég get ekki stillt mig um að láta í ljós, að ég mun greiða atkv. á móti. Það er niðurfelling tillags til vísindamanna og fræðimanna. Mig furðar stórlega á, að á þeim tímum, sem hv. Alþ. er a.m.k. nýbúið að samþykkja mjög merkileg, almenn fræðslul., um menntun kennara, og er sem óðast að samþykkja l. í okkar menningarmálum, sem áreiðanlega standa jafnfætis því fremsta, sem til er hjá mörgum öðrum menningarþjóðum, þá skuli nokkrum manni detta í hug að fella niður þess háttar styrk til manna, sem viðurkenndir eru fyrir löngu fyrir ágæt vísinda- og fræðimannastörf í þágu þjóðarinnar. Allt eru þetta smávægilegir styrkir og í raun og veru ekki annað, en viðurkenning til þeirra manna fyrir ágæt störf, sem þeir hafa unnið í hjáverkum og eru alls góðs maklegir fyrir. Ég hef ekki nöfn þeirra manna allra, en margir eru þeir landskunnir fyrir fræðimennsku og ritstörf. Ég nefni aðeins nokkur nöfn: Ásgeir Hjartarson sagnfræðingur. Einar Guðmundsson þjóðsagnaritari, Gils Guðmundsson, Guðni Jónsson, Jón Thorarensen, Kristleifur Þorsteinsson, Skúli Þórðarson, Þorsteinn Þ. Þorsteinsson. Þetta eru aðeins nokkur nöfn þeirra manna, sem nú á að svipta þessum styrkjum, sem þeir hafa notið í nokkur ár fyrir góð fræðimannsstörf. Ég vil leyfa mér að vona, að þetta sé ekki endanlegur úrskurður hv. fjvn., heldur taki hún þetta til athugunar til 3. umr. og þetta verði leiðrétt.

Að lokum vil ég aðeins nefna eina brtt., sem ég hlýt að greiða atkv. á móti, sem er breyting við 17. gr., um kostnað við barnaverndarráð. Þar er lagt til, að sá kostnaður verði lækkaður um helming, eða úr 40 þús. kr. í 20 þús. kr. Ég hef fengið þær upplýsingar, að kostnaður s.l. ár hafi orðið 37 þús. kr. og þó sé þar ekki innifalið helmingur launa fulltrúa, sem greidd eru að hálfu af ríki og að hálfu af Reykjavíkurbæ.

Nú liggur í augum uppi, að störf þessara manna, sem þarna vinna, verða ekki dregin saman og er ekki hægt að draga saman á árinu. Hér er því í raun og veru ekki um annað að ræða, en að viðurkenna staðreyndir. Kostnaðurinn liggur fyrir eins og hann verður áreiðanlega, í það minnsta ef dýrtíðin lækkar ekki á árinu, sem því miður er víst vonlaust um. Og er því ekki um annað að gera, en að viðurkenna þessar staðreyndir og gera ráð fyrir því fé, sem hv. Alþ. má vita, að óhjákvæmilega verður að verja til þessara mála. Þess vegna vænti ég þess, að þetta verði leiðrétt og brtt. verði felld.