21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

12. mál, fjárlög 1947

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þær fáu brtt., sem ég flyt við fjárlagafrv., lúta að því flestar að fá fram smávægilegar hækkanir til samgöngubóta í Norður-Ísafjarðarsýslu. Ég hygg, að engar tvær sýslur á landinu séu verr settar um samgöngur, en Barðastrandar- og Norður-Ísafjarðarsýsla. Form. fjvn. hefur sýnt frá ári til árs, að hann sér vel og skilur, hvernig ástandið er í þessum málum í hans eigin kjördæmi. Á fjárlagafrv. núna er lagt til, að hátt á 7. hundrað þús. kr. verði lagðar til akvega í Barðastrandarsýslu. Ég vil því vænta þess, að form. fjvn. hafi góðan skilning á því, að Norður-Ísafjarðarsýsla er engu betur sett en Barðastrandarsýslan að þessu leyti og þarf því að fá svipaðar endurbætur á akvegum sínum og kjördæmi þessa hv. þm. Það er þó ekki lagt til, að til akvega þar fari nema um 340 þús. kr., eða um helmingur þess, sem ætlað er Barðastrandarsýslunni.

Ég býst við, að þeir menn, sem ekki þekkja til og ekki eru kunnugir nema akvegakerfi Suðurlands. eigi erfitt með að gera sér grein fyrir, hvernig ástandið er í Norður-Ísafjarðarsýslu. Það eru til örfáir akvegir í allri sýslunni. Vegur af Breiðadalsheiði til Tunguár ca. 7 km, vegur frá mörkum kaupstaðarlóðar á Eyrarhlíð um Hnífsdal út á Óshlíð ca. 2 km. vegur frá Tungu um Kirkjubólshlíð til Arnardals ca. 11 km og vegur um Langadalsströnd til Hafnardals ca. 9 km, og var sá vegur lagður s.l. haust. Alls eru því í Norður-Ísafjarðarsýslu um 34 km akvegir, eða sem svarar 2/3 af vegalengdinni frá Reykjavík til Þingvalla. Verst er, að þetta er allt sundurslitið. Stór þorp eins og Bolungavík og Súðavík eru hvorugt í akvegasambandi við höfuðstað Vesturlands. Í Súðavíkur-. Ögur-. Reykjarfjarðar-. Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppi eru engir akvegir til. Í 5 af 9 hreppum sýslunnar eru engir akvegir til og aðeins 34 km í hinum 4 hreppunum. Þetta er ekki glæsilegt ástand, þegar vitað er, að ekki er hægt að reka nýtízku landbúnað, án þess að akvegir séu frá bæ til bæjar.

Til Bolungavíkurvegar eru ætlaðar 200 þús. kr. Með það er ég mjög ánægður og hygg, að það megi komast langt með veginn til Bolungavíkur með þeirri upphæð. Að vísu er Óshlíðin erfið til vegarlagningar, en ég held, að þessi fjárveiting nái þó langt. Þá er hins vegar vegur, sem þarf að leggja, til Súðavikur um Súðavíkurhlíð. Að vísu er Súðavíkurhliðin bezta vegarstæðið, en samt veit ég. að þessar 90 þús. kr., sem ætlaðar eru til þess vegar, munu ekki duga og Súðavíkurvegur verður ekki nothæfur á þessu ári. Það eru þó 11 ár, síðan byrjað var á þessum vegi. og nú eftir 11 ár er hann orðinn 11 km. sem svarar einum km. á ári. Nú þyrfti að skiljast betur við, svo að ég hef lagt til. að í staðinn fyrir 90 þús. kr. yrðu lagðar 150 þús. kr. til þessa vegar, svo að sá draumur rættist, að það yrði akfært frá Ísafirði bæði til Bolungavikur og Súðavíkur á árinu 1947.

Þá er önnur brtt. mín um fjárveitingu til Ármúlavegar. Á s.l. sumri. þegar verið var að enda við veginn á Þorskafjarðarheiði, létu bændur í Bæjarhreppi í ljós þá ósk, að þeir vildu fá, ef mögulegt væri, samþykki vegamálastjóra til þess, að akvegur væri lagður út Langadalsströnd um Bæjarhreppinn í framhaldi af Þorskafjarðarheiðarvegi. Við Sigurður Bjarnason höfðum báðir afskipti af þessu máli. Vegurinn er í þjóðvegatölu, en ekkert fé hafði verið veitt til hans á fjárl. Fyrst var farið fram á, að fé það, sem ekki hafði verið unnið fyrir á Þorskafjarðarheiði, yrði notað til þess að leggja veg út ströndina, en það fékkst ekki. Þá réðust bændurnir Jón Fjalldal á Melgraseyri, Þórður Halldórsson Laugalandi og Sigurður Hannesson Ármúla í að útvega lán, og fengu þeir samþykki Péturs Magnússonar fjmrh. og Emils Jónssonar samgmrh. fyrir því, að ef þeir gætu útvegað slíkt lán, skyldi vegavinnuverkstjórinn, Lýður Jónsson, verða látinn byrja á verkinu. Sem sagt, þetta lán var tekið og lofað, að fjárveiting skyldi fást fyrir þessu, og hún skyldi greidd fyrir árslok 1946. en allir bjuggust við, að fjárl. yrðu þá til. Nú hefur farið svo, að unnið var fyrir 53 þús. kr., og kostnaður við að ljúka þessum vegi út að Ármúla er alls um 60 þús. kr. Nú eru ætlaðar til þessa vegar 30 þús. kr., og það er ekki nándar nærri fyrir því, sem bændurnir í Bæjarhreppi tóku til láns í góðri trú og þeir töldu vist, að þeir mundu fá greitt, undir eins og fjárl. væru afgreidd, sem þeir héldu, að yrði um áramót. Þar að auki er ekkert til þess að vinna fyrir næsta sumar til þess að toga veginn lengra út með ströndinni, þar sem bændurnir verða að flytja mjólkina á hverjum degi til Ísafjarðar. Væri mikið hagræði að því, ef akvegir væru milli bæja.

svo að hægt væri að koma mjólkinni á 1–2 staði í hreppnum. Í stað þess að menn þurfa nú að setja fram báta og koma mjólkinni þannig, sem er erfitt fyrir mannfá heimili.

Ég varð reglulega reiður, þegar ég sá þessa upphæð. Vegamálastjóri hafði látið svo sem 90–100 þús. kr. yrðu látnar af hendi á fjárl. vegna Ármúlavegar, til þess að hægt yrði að halda áfram með veginn næsta sumar. Ég fer því fram á, að þessi upphæð verði hækkuð í 100 þús. kr., þannig að hægt verði að greiða þessar 53 þús. kr., sem bændurnir tóku til láns og eru í víxilskuld fyrir, og auk þess vinna fyrir 40–50 þús. kr., til þess að hægt sé að toga veginn út að Melgraseyri. Ég trúi því ekki, að þeir, sem þekkja vegaleysið á Vestfjörðum, og sérstaklega form. fjvn., fallist ekki á þetta, einkanlega þegar vitað er, hvernig farið var af stað með þetta s.l. haust og hvaða loforð höfðu verið gefin.

Þá á ég hér brtt. á þskj. 560, um, að framlagið til brúar á Ósá hjá Bolungavík verði hækkað úr 55 þús. kr. í 75 þús. kr. Þessa brú, sem er á veginum frá Ísafirði til Bolungavikur, þarf að byggja næsta sumar, ef akvegurinn á að verða nothæfur. Vegna þess að sandur er að brúnni beggja vegna, verður hún alldýr, og er engin von um, að hægt verði að ganga frá henni fyrir minna en 75 þús. kr.

Þá er hér í 3. lagi till. um fjárveitingu til bryggju á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þarna var byggð bryggja, þegar skólinn var byggður í Reykjanesi, en nú er hún orðin úr sér gengin, og þarf að endurbyggja hana. Ég held nú, að hv. þm. sé ljóst, að engin bryggja verður byggð fyrir 25 þús. kr., svo að ég legg því til, að þessi fjárveiting verði hækkuð úr 25 þús. kr. upp í 50 þús. kr., en ég veit, að kostnaðurinn verður meiri, en það.

Þá eigum við Finnur Jónsson sameiginlega brtt. á þskj. 564. Það er till. um, að nýr liður verði settur á fjárl., um byggingu sjómannaskóla á Ísafirði 125 þús. kr. Skipstjóra- og stýrimannafélagið Bylgjan á Ísafirði hefur haft mikinn áhuga fyrir því að koma upp byggingu fyrir þá kennslu, sem lögleyfð er. Í fyrsta lagi vélstjórakennslu og enn fremur sem svarar fyrsta árs stýrimannaskóla. Húsnæði er ekkert og vandræði með að útvega það. en skipstjóra- og stýrimannafélagið hefur byrjað að safna fé og á nú um 200 þús. kr. í sjóði. Það hefur látið gera teikningu af skólanum bæði fyrir stýrimenn og vélfræðinga, og er áætlað, að byggingin muni kosta um 700 þús. kr. Hér er farið fram á, að veittar séu úr ríkissjóði 125 þús. kr. til þessarar væntanlegu byggingar, gegn jafnháu framlagi frá héraðinu. Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um þörfina á þessu. Ísafjörður er fyrst og fremst sjómannabær, og bænum þarf að vera veitt aðstaða til þess að búa í haginn fyrir sjómannastéttina. Allýtarlegt erindi hefur verið sent fjvn. um þetta mál, en einhvern veginn hefur það nú ekki verið tekið til greina.

Þær eru ekki fleiri till., sem ég flyt hér, en ég vænti, að hv. alþm. sjái sér fært að veita þeim stuðning. Hækkun, sem leiðir sameiginlega af þeim till., sem ég gerði grein fyrir viðvíkjandi samgöngumálum í Norður-Ísafjarðarsýslu, nemur alls 130 þús. kr., og er það ekki mikið í þeim mikla mat, sem hér er um að ræða.