05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (5183)

300. mál, landhelgisgæsla og björgunarstarfsemi

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Fyrir um það bil 3 árum flutti ég ásamt tveim öðrum þm., hv. þm. Snæf. (GTh) og hv. 2. þm. Rang. (IngJ), till. til þál. um svipað efni og þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, fjallar um. Sú till. fékk allýtarlega meðferð hjá þáv. fjvn., og var leitað umsagnar um hana hjá ýmsum aðilum, er þessi mál varða. Niðurstaðan af þessu varð sú, að samþ. var hér á Alþ. þáltill., þar sem Alþ. fól ríkisstj. að láta fara fram ýtarlega rannsókn á því, hvernig landhelgisgæzlunni yrði bezt og haganlegast fyrir komið, og jafnframt að leggja niðurstöður þessarar rannsóknar fyrir Alþingi eins fljótt og unnt væri. Nú eru liðin 3 ár, síðan þessi till. var samþ., og engin slík rannsókn hefur farið fram. Ég hygg, að fyrir 3 árum hafi ríkt skilningur á því á Alþ., að ástandið væri þannig í landhelgisgæzlumálum okkar, að nauðsyn bæri til þess, að gaumgæfilega væri athugað, hvaða leiðir bæri að fara í þeim efnum til þess að efla landhelgisgæsluna og jafnframt björgunarstarfsemina við strendur landsins, og að þessi mál yrðu rekin með sem hagkvæmustum hætti og með eins fullkomnu öryggi og kostur væri á fyrir þá, sem sjóinn sækja við strendur þessa lands. Þess vegna er það nú, þar eð þessi rannsókn hefur ekki farið fram, að ég ásamt 3 öðrum hv. þm. flyt till. um þessi efni. Er þar lagt til, að Alþ. kjósi 5 manna mþn. til þess að framkvæma ýtarlega rannsókn á því, hvernig landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi við strendur Íslands verði bezt og haganlegast komið fyrir. N. skal sérstaklega athuga, hvaða gerð og stærð varðskipa henti bezt, hvernig nota megi flugvélar í þjónustu landhelgisgæzlu og björgunarstarfa og hvernig yfirstjórn þessarar starfrækslu verði örugglegast fyrir komið. Síðan er gert ráð fyrir því, að niðurstöður af rannsókn þessari skuli ríkisstj. leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Í till. þeirri, sem ég og fleiri þm. fluttum árið 1943, var lagt til, að sú skipulagsbreyting yrði gerð, að yfirstjórn landhelgismálanna yrði falin sérstakri stofnun. Í þessari till., sem hér liggur fyrir, er þessi leið ekki farin beint. Þar er lagt til, að n. verði falið að rannsaka, hvaða leiðir kunni að vera skynsamlegastar í þessum efnum. Hins vegar er skoðun okkar flm. óbreytt á því, hvaða leiðir séu heppilegastar. — Okkar skoðun er sú, að þess sé varla að vænta, að stjórn landhelgisgæzlunnar komist í sæmilegt horf, fyrr en hún hefur verið tekin úr höndum þeirrar stofnunar, sem nú hefur hana með höndum, en þessi stofnun rekur allóskylda starfsemi og hefur ekki, þrátt fyrir góðan vilja, nægileg skilyrði til þess að stjórna landhelgisgæzlunni þannig, að full not séu af. Ég mun ekki á þessu stigi fjölyrða um þessa till., en er annt um, að hún komist til n. og nái samþykki á þessu þingi. Ég vil aðeins benda á það, svo sem flestum hv. þm. er kunnugt, að ástandið í þessum málum er hvergi nærri eins gott og nauðsyn krefur. Mun ég ekki fara að rekja það í einstökum atriðum nú, en vænti þess, þegar n. hefur fjallað um málið, að þá gefist tækifæri til almennra umr. um það, en vil þó láta það koma fram sem mína skoðun, að ég tel það með öllu ósæmilegt, að landhelgisgæzlan og björgunarstarfsemin verði lengur látin sitja í því ástandi, sem þessi mál eru nú í. Ég ætla mér ekki að fara að rekja ýmsa þá vanrækslu, sem átt hefur sér stað í þessum málum, m.a. þá, að samningar, sem fyrrverandi ríkisstj. gerði við hinar einstöku slysavarnasveitir úti um land, hafa ekki verið framkvæmdir enn í dag, að vísu má sjá hilla undir nokkrar efndir í þessum efnum, en þær hafa dregizt allt of lengi. — Vegna þess að mér er annt um mál þetta, vænti ég, að það komist sem fyrst til n. og þá helzt til fjvn.