05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (5184)

300. mál, landhelgisgæsla og björgunarstarfsemi

Finnur Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil aðeins láta það álit mitt í ljós í sambandi við þetta mál, að ég álít það rétt hjá hv. flm., að landhelgisgæzlan og björgunarstarfsemin séu ekki komin í það horf, sem þau þurfa að vera í hjá oss. Hitt er svo annað mál, að í þeirri grg., sem flm. hafa gert fyrir sinni réttmætu till., hafa þeir komið fram með ýmis atriði, sem ekki eru sannleikanum samkvæm, eins og t.d. það, að hér séu varðbátar við strendur landsins og að hinn eini útbúnaður þeirra fram yfir aðra báta af svipaðri stærð til þessa starfs hafi verið sá, að settur var um borð í þá maður með kaskeiti og gyllta hnappa, og að sumir þessara báta hafi ekki einu sinni skírteini, sem þeir geti sannað með, að þeir séu varðskip. Þetta hefur vitanlega enga stoð í veruleikanum. Hið sanna í málinu er það, að þrátt fyrir það, að leigðir hafi verið ýmsir mótorbátar til landhelgisgæzlunnar — sérstaklega síðan fór að rýmkast um bátakost okkar —, t.d. bátarnir Fanney og Finnbjörn, er þar um borð nægileg varðskipsáhöfn, ef skip er tekið á landhelgisveiðum, og meðal hennar færir menn, sem geta sýnt alla útreikninga og því um líkt, sem með þarf í slíkum tilfellum. Enn fremur hefur byssum verið komið fyrir í skipunum og öðrum tækjum, sem hægt er að koma við í jafnlitlum skipum og hér er um að ræða.

Það er ekki að öllu leyti rétt hjá hv. frsm., að engin athugun hafi farið fram í þessum efnum, því að í sambandi við þá þáltill., sem getið var um áðan, var leitað umsagnar Slysavarnafélags Íslands, Fiskifélags Íslands og Skipaútgerðar ríkisins varðandi þessi mál. Þar að auki var skipuð sérstök n. til þess að athuga þessi mál í sambandi við það, að hraðbátunum var skilað s.l. sumar. Þessi n. á nú að vera búin að skila skýrslu, og ég veit ekki annað en að hún sé til hjá ráðuneytinu, en ef svo er ekki, þá er hún a.m.k. handhæg hjá form. n., hr. Jóni Axel Péturssyni, sem þessum málum er vel kunnugur. Auk þess eiga sæti með honum í n. hr. Guðmundur Guðjónsson skipstjóri á varðskipunum og forseti Slysavarnafélagsins, hr. Guðbjartur Ólafsson hafnsögumaður. Ég hygg, að þessi n. hafi verið þannig skipuð, að hún hafi haft ágæta aðstöðu til þess að athuga um slíkan skipakost, sem hér er um að ræða, auk þess sem einn nm. dvaldist um skeið í Bretlandi til þess að athuga möguleika á því að kaupa þar skip til landhelgisgæzlu við strendur Íslands. Hins vegar taldi hann þau skip, sem þar var völ á í þessu skyni, ekki heppileg til kaups, þar sem rekstrarkostnaður þeirra hefði orðið okkur mjög dýr. Eins og kunnugt er, kostar það mjög mikið að gera þessi skip út, og er rekstrarkostnaður varðskipsins Ægis um 21/2–3 millj. kr. Það er því auðséð, að landhelgisgæzlan verður ekki bætt, ef hv. Alþ. vill ekki leggja fram verulegt fé til hennar og ef ekki verða fengin ný og hentugri varðskip. — Nú má að vísu segja það, að síðan þessi athugun um landhelgisgæzlumálin fór fram, hafi það skeð, að mjög mikill hluti af smábátaflotanum sé búinn að taka upp botnvörpuveiðar. Hygg ég, að sú breyting ein muni gera það að verkum, að við munum þurfa að endurskoða okkar hugmyndir um landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi hér við land. Það er sennilega orðið mjög vafasamt, sem bæði ég og aðrir hafa haldið fram, hvort ekki væri réttara að sameina björgunarstarfsemina og landhelgisgæzluna, og það er af þeim ástæðum, að þessir bátar eru oft á veiðum mjög nærri landhelgislínunni og eru sífellt að kalla á varðskipin sér til hjálpar. Ég hygg, að „Fanney“ hafi veitt milli 30–40 bátum aðstoð það, sem af er vertíð, og oftast hefur það verið vegna mjög smávægilegra ástæðna, t.d. olíuleysis. Það er hins vegar mjög erfitt fyrir varðskipin að svara ekki, þegar til þeirra er kallað, því að þau geta ekki vitað, hvort um ástæðu er að ræða eða hvort einhver hrekkjalómur er að gera þeim erfitt fyrir, því að slíkt gæti orðið til þess, að önnur skip gætu sloppið inn í landhelgina, meðan varðskipin væru að sinna þessum köllum. — Annað atriði kemur hér líka til athugunar, þegar þessi athugun færi fram á landhelgismálunum, sem sé það, að hinir nýju togarar, sem farnir eru að stunda veiðar hér við land, eru miklu ferðmeiri en okkar eldri togarar, og þarf því sérstaklega sterka gæzlu til þess að halda þeim utan við landhelgi. Enn fremur þarf að hafa í huga í sambandi við þetta mál þær tilraunir, sem nú er verið að gera til að stækka landhelgina.

Að lokum vil ég svo geta þess, að þær athuganir, sem þegar hafa fram farið í þessum efnum, verða væntanlega tiltækar þeirri n., sem skipuð verður eftir þessari þáltill. Þá hafa tilraunir verið látnar fara fram yfir sumarmánuðina af hálfu dómsmrn. og skipaútgerðarinnar með landhelgisgæzlu úr lofti. Þær tilraunir eru að vísu enn á tilraunastigi, og þeir menn, sem tekið hafa þátt í þessum tilraunum, hafa átt erfitt með að ákvarða stöðu skipanna, sökum þess að flugvélarnar hefur skort nauðsynleg tæki í því skyni, en sennilega eru til ný tæki, sem hægt væri að nota til þeirra athafna. Að sjálfsögðu kæmi landhelgisgæzla úr lofti ekki til greina nema að parti, nema því aðeins að flugvélarnar væru útbúnar einhverjum slíkum tækjum, t.d. radartækjum, sem ég veit ekki, hvort hægt er að setja í flugvélar. — Skal ég svo láta máli mínu lokið, þar sem ég býst við, að hv. flm. leggi áherzlu á, að málið komist áleiðis.